Stafræn væðing þýðir í mínum huga léttari og skemmtilegri vinnu og fjölda nýrra möguleika. Myndgreiningarstaður sem er bæði filmu- og pappírslaus og með tengingar við sem flesta samstarfsaðila getur boðið frábæra þjónustu, ég held að það mótmæli mér enginn þó ég slái því upp sem staðreynd.
Öll þessi dásamlega tækni sem við höfum til að leika okkur að gerir að sjálfsögðu heilmiklar kröfur til okkar sem fagfólks. Það er ekki eingöngu auðveldara að sinna vinnunni sinni vel heldur, því miður, einnig að sinna henni illa. Það er heldur ekki eingöngu auðveldara að veita gæða þjónustu heldur líka að tapa niður gæðum þjónustunnar.
Munum hið sjálfsagða
Einföld atriði sem allir vita en alltaf er gott að hamra á eru t.d. að gæta vel að tökugildum og endurtekningum.
Tökugildi við tölvusneiðmyndun skipta miklu máli fyrir geislaálag sjúklings og alger nauðsyn að setja “prótókolla” upp þannig að þau séu sem lægst og sníða hverja rannsókn að stærð sjúklingsins. Einnig þarf að fylgjast vel með tökugildum við almennar röntgenrannsóknir, vegna þess að ekki er jafn augljóst og í filmuumhverfi hvort þau eru eins og best verður á kosið.
Endurtekningum, sérstaklega í almennu röntgen, hættir til að fjölga í stafrænu umhverfi, ekki síst vegna þess hversu auðvelt er fyrir geislafræðinginn að “henda” myndum. Engar ónýtar filmur hrúgast upp, enginn sér annað en flottu myndirnar sem skilað er inn í PACS-ið. Á fyrirlestri sem ég sótti nýlega á ECR 2006 var sagt frá rannsókn á endurtekningatíðni, þar sem 162.000 tökur voru athugaðar. Í ljós kom að endurtekningatíðni hjá geislafræðingum var á bilinu 0.9 – 12.2 % og flestar endurtekningar stöfuðu af ónákvæmri innstillingu eða að ekki var blendað af.
Geislaálag hverfur ekki
Ekki má heldur gleyma að minna tilvísandi lækna á að allar rannsóknir með jónandi geislun hafa í för með sér geislaálag á sjúklinginn, það breytist ekki þó fljótlegra sé að framkvæma þær og senda rannsóknagögn.
Sömu kröfur heima og heiman
Fjargreiningin er líka umhugsunarefni. Gæta verður að því að hluti vinnunnar við hana eru samskipti við tilvísandi lækna og e.t.v. aðra. Þessi samskipti þarf að skipuleggja vel í byrjun, bæði samskipti um tölvukerfi, símasamskipti o.fl. Þegar vinnuálag er metið má ekki einblína á tímann sem tekur að lesa úr svo og svo mörgum rannsóknum. Þarna er um marga þætti að ræða og hluti af verkefninu ERDDS (European Radiological Digital Data System) er að búa til “módel” fyrir mat á vinnuálagi við fjargreiningu.
Lögð var mikil áhersla á það í fyrirlestrum á ECR 2006 hversu mikilvægt væri að hafa sömu vinnureglur (“prótókolla”) á þeim stað sem myndir eru teknar og þar sem lesið er úr þeim. Í þessu sambandi má benda á forritið Gæðavísi sem býður upp á einfalda leið til að ná þessu markmiði.
Einnig er mikilvægt að gera sömu kröfur til gæða rannsókna á útstöðvum og “heima”. Reynsla erlendis hefur sýnt að röntgenlæknum hættir til að þola lægri “standard” á rannsóknum frá útstöðvum en þá er ljóst að sjúklingar þar fá ekki sömu þjónustu og “heima” sjúklingar.
Í þessum pistli koma ekki fram nein ný sannindi. Tilgangurinn er að minna myndgreiningarfólk á að hafa fagmennskuna alltaf í fyrirrúmi, líka þegar stafræna tæknin er ekki lengur ný heldur orðin hluti af öllum þessum vinnudögum þegar það er brjálað að gera… og það bíða svo og svo margir… og maður vill bara geta flýtt sér…
27.03.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is