Stærð geislaskammta

 


Lækkum tökugildi þegar hægt er


Í fókusgrein 03.02.03 lögðum við áherslu á nauðsyn þess að hugsa sinn gang varðandi tökugildi í TS, einkum við barnarannsóknir. Til þess að fylgja reglum sem nú eru í gildi þarf að halda öllum geislaskömmtum eins lágum og unnt er. Tökugildi verður því að sníða eftir því hvort um er að ræða rannsókn á barni eða fullorðnum, líkamsstærð viðkomandi og hver myndgæði þurfa að vera svo greining fáist. Þetta er sérlega mikilvægt þegar verið er að rannsaka kvið og brjóstkassa en munurinn er minni hvað höfuðið varðar þar sem kúpubeinin deyfa geislana mest.

Mittismálið

Snemma árs 2003 birtist grein á AuntMinnie um einfalda aðferð til að ákveða tökugildi við TS speglun af ristli (virtual colonoscopy) eftir mittismáli þess sem rannsaka á. Þær niðurstöður má í grunnatriðum heimfæra á aðrar kviðarholsrannsóknir.


Þvermálið


Einnig má nefna þá þumalfingursreglu að myndsuð (noise) í tölvusneiðmyndum tvöfaldast við hverja átta sentimetra aukningu á þvermáli sjúklings. Það þýðir að mAs gildi þarf að fjórfalda fyrir slíka átta sentimetra aukningu ef halda þarf sama myndsuði,  en um leið að minnka má mAs gildi í sama hlutfalli við átta sentimetra minnkun á þvermáli.  Breyting á sneiðþykkt hefur sömu áhrif á myndsuðið og breyting á mAs gildum. Tvöföldun á sneiðþykkt gefur sömu niðurstöðu varðandi myndsuð og tvöföldun á mAs gildi. Hærri kV lækka líka myndsuð því fótonufjöldi/mAs hækkar um 250% ef kV er breytt úr 120 í 140kV.
Einfalt er að meta myndsuð með því að mæla staðalfrávik Hounsfield gilda t.d í fitu undir húð (subkutan fitu) eða öðrum einsleitum vefjum.


Skaðlausir geislaskammtar?

Nokkrum dögum fyrr hafði birst önnur mjög athyglisverð grein á sama vefsetri þar sem enn einu sinni er hreyft við umdeildu efni, þ.e.a.s. því hvort geislaskammtar af þeirri stærðargráðu sem notaðir eru í myndgreiningu séu ef til vill skaðlausir með öllu. Þar er vitnað í forstöðumann NCRP (National Council on Radiation Protection), í Bandaríkjunum, sem segir að stofnunin taki öllum nýjum niðurstöðum með opnum huga en mjög viðamiklar rannsóknir þurfi að gera áður en farið verði að hugsa til þess að breyta aðferðum við að meta skaðleg áhrif geislunar.


Margt styður breytt viðhorf


Í greininni er vísað í fjölda annarra greina sem gefa þá niðurstöðu að geislaskammtar sambærilegir við þá sem notaðir eru í myndgreiningu, jafnvel í stórum tölvusneiðmyndarannsóknum, séu skaðlausir öllum þeim sem komnir eru af unglingsaldri.
Sama er uppi á teningnum á mörgum öðrum stöðum og 07.10. 02 skrifaði Smári Kristinsson grein hér á sama stað undir nafninu
„Er geislagreining hættuleg“. 
Tilgangurinn var að vekja athygli á nýjum viðhorfum og af viðbrögðum að dæma tókst það mæta vel.

Vinnum saman
Sitt sýnist hverjum í þessu máli eins og svo mörgum öðrum og hvorki er hægt að kasta þessum nýju niðurstöðum fyrir róða sem nýaldarbulli né heldur brennimerkja sem afturhaldsseggi þá sem halda fast við þær skoðanir sem mestu fylgi hafa átt að fagna til þessa.

Evrópuleiðbeiningar
Hver og einn verður umfram allt að viðhalda sinni þekkingu á geislavarnareglum og aðferðum. Í því sambandi má benda á leiðbeiningar EU um bestun tölvusneiðmynda.


Sami vandi annarsstaðar
Ekki er síður mikilvægt að hafa aðra hluta myndgreiningarinnar í huga. Kannanir hafa sýnt að þegar stafræn tækni er tekin í notkun við almennar röntgenrannsóknir hækka geislaskammtarnir oft  frá því sem var með filmuþynnukerfi. Þegar aukinn geislaskammtur leiðir ekki lengur af sér svarta filmu heldur þvert á móti betri mynd er tilhneigingin skiljanleg og þörfin á skýrum verklagsreglum augljós.

Hagsmunir fólksins í fyrirrúmi

Mikilvægast er að hafa í huga hagsmuni fólksins sem þarf á myndgreiningarrannsóknum að halda og láta ekki mismunandi sjónarmið standa í vegi fyrir nýtingu möguleika sem stuðlað geta að betri heilsu. 


Edda Aradóttir 10.02.03.           

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *