Í grein sem birtist 23. október 2008 hjá Minnu frænku (www.auntminnie.com) kemur fram að öll sjúkrahús í Sviss hafa tekið upp viðmiðunarreglur fyrir geislaskammt á börn sem fara í CT rannsóknir. Reiknað er út frá bæði aldri og þyngd sjúklings.
Tekið var til við smíði þessara regla eftir að birtar voru niðurstöður könnunar sem vísindamenn hjá University of Lausanne stjórnuðu. Í ljós kom sláandi mismunur á geislaskömmtum barna við CT rannsóknir, eftir sjúkrahúsum.
Heilarannsóknir lang flestar.
Niðurstöðurnar voru ekki birtar á heimsvísu fyrr en í European Radiology í september síðastliðnum en í Sviss birtust þær strax árið 2006. Leitað var upplýsinga frá svissneskum sjúkrahúsum um geislaskammta barna, 15 ára og yngri, sem, á árinu 2005, þurftu í CT rannsóknir af heila, brjóstholi eða kviðarholi. Átta af tíu stöðum gáfu upplýsingar og heildarfjöldi þessara rannsókna hjá þeim var 3.624.
Heilarannsóknirnar reyndust lang flestar en eins og fram kom í niðurstöðum stórrar rannsóknar árið 2004 er möguleiki á að börn verði fyrir greindarskerðingu af lágum geislaskammti á höfuð.
Guðlaugur Einarsson fjallaði um þetta efni í fókusgrein hér á raforninn.is í janúar 2004.
Gríðarlegur munur á geislaskömmtum.
Ótrúlegur munur reyndist vera á geislaskömmtum milli staða, eins og sjá má í töflu frá Minnu frænku:
#img 1 #Barna-röntgenlæknar í Sviss hrukku óþyrmilega við. Þeir tóku höndum saman við ríkisstjórn sína og sett var af stað áætlun sem að lokum skilaði stöðluðum viðmiðunartölum um geislaskammt fyrir öll sjúkrahús landsins.
Svissneska heilbrigðisráðuneytið (Federal Office for Public Health) lætur yfirfara öll CT tæki og þá er gengið úr skugga um að barnarannsóknir hafi ekki gefið hærri geislaskammt en viðmiðunartölurnar eru. Eðlisfræðingar á hverju sjúkrahúsi eiga svo að taka við þessu eftirliti.
Lögð drög að smíði regla í USA.
Bandaríkjamenn hafa sett sér það markmið að búa til sambærilegar reglur fyrir myndgreiningarstaði þar í landi og vinna er hafin við það verkefni. Væntanlega tekur það langan tíma, enda erfitt verk í svo stóru samfélagi.
Skorað á íslenska röntgenlækna.
Hér á okkar litla landi ætti hinsvegar að vera tiltölulega auðvelt að koma á sambærilegum reglum og í Sviss. Það væri frábært ef íslenskir röntgenlæknar tækju höndum saman við fleira öflugt fólk, t.d. tæknimenn og geislafræðinga, hefðu samvinnu við Geislavarnir ríkisins og kæmu upp reglum sem mundu gera okkur að fyrirmynd annarra þjóða!
03.11.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is