Staða einkarekinnar myndgreiningardeildar í samkeppni við deild LSH


Hugleiðingar um stöðu einkarekinnar myndgreiningardeildar í samkeppni við deild Landspítala.


Allir geta verið sammála um að landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag. Eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vex hratt með hækkandi meðalaldri, aukinni menntun og bættum efnahag. Ekki er útlit fyrir að verði breyting þar á.
Þetta er neikvætt fyrir stofnanir á föstum fjárlögum, þar sem afkoman byggist á að framleiða eins lítið og hægt er.

Nýi sjúklingurinn
Sjúklingarnir hafa breyst. Nýi sjúklingurinn er betur upplýstur, hann hefur skarpa gæðavitund og þekkir sinn rétt. Nýi sjúklingurinn er sjaldan mikið veikur, en hann er mjög tímabundinn. Þessi sjúklingur vill góða og skjóta þjónustu. Hann vill vera með í ráðum. Þessi sjúklingur er tilbúinn til að borga fyrir góða þjónustu.
En hér erum við ekki að tala um einkavæðingu þar sem sjúklingurinn eða tryggingarfélag hans borgar fyrir þjónustuna, heldur einkarekstur þar sem ríkið gerir samning við einkaaðila um ákveðna þjónustu sem greidd er af almannatryggingakerfinu.
Almannatryggingar er hugmyndafræði um heilbrigðisþjónustu sem er aðgengileg fyrir alla sem þurfa á henni að halda og er á sanngjörnu verði. Gildi hugmyndafræðinnar breytist ekki eftir því hver veitir þjónustuna.
Það þarf að sjá til þess að allir þegnar samfélagsins njóti fullkominna almannatrygginga. Á síðustu árum hafa beinar greiðslur sjúklinga þ.e. komugjöldin hækkað mikið og er sem kunnugt er um 40% af heildargreiðslu fyrir rannsókn, með tilheyrandi vandræðum fyrir þá efnaminnstu.

Einkarekstur með 30% rannsókna
Hér í Reykjavík hafa nú í nokkur ár verið verið starfræktar tvær einkareknar röntgen deildir. Röntgen Domus, sem nú er 11 ára, og Röntgen Orkuhúsið sem er nú rétt tæpra 5 ára. Saman framkvæma þessar deildir yfir 30% af myndgreiningarrannsóknum landsmanna.
Það er löng hefð fyrir því að reka myndgreiningar deildir á sjúkrahúsunum í Reykjavík og var það meðal annars vegna þess að nauðsynlegur tækjabúnaður er mjög dýr en ekki síður vegna þess að gjaldskránin fyrir myndgreiningar rannsóknir var ófullkomin og svo er að hluta til enn. Það var mikið afrek hjá aðstandendum Röntgen Domus að vera brautryðjendur, og vera fyrstir til að opna fullbúna röntgen deild utan sjúkrahúss.
Við í myndgreiningunni vísum ekki sjúklingum til okkar, heldur koma sjúklingar frá öðrum sérfræðilæknum hvort sem það eru sjálfstætt starfandi læknar eða heilsugæslan en einnig frá slysadeild Landspítala vegna þess að við í Orkuhúsinu höfum sérhæft okkur í stoðkerfisrannsóknum og notum í því skyni aðferðir sem sjúkrahúsið hefur ekki yfir að ráða.

Undirboð og óvissa
Ég hef eiginlega aldrei litið svo á að við séum eða ættum að vera í samkeppni við rtg deild Landspítala. Mín skoðun er sú að sjúkrahúsið eigi að sinna þeim sjúklingum sem eru eða hafa verið inniliggjandi og eru í eftirliti hjá sjúkrahúsinu vegna sinna sjúkdóma. Einnig eiga rannsóknir sem krefjast innlagnar vegna inngripa þar heima og sjúkrahúsið á að vera í fararbroddi í akademiskri rannsóknarvinnu.
En ég óttast samt fjárhagslega yfirburðastöðu sjúkrahússins. Á röntgendeild sjúkrahússins er ekki fjárhagslegur aðskilnaður milli göngudeildarhlutans og rannsókna á inniliggjandi sjúklingum. Þannig að kostnaður við utanspítala sjúklinga er ekki skilgreindur sérstaklega og getur verið mikill.
Pólitísk óvissa er einnig eitt af því erfiða við að byggja upp einkarekna heilbrigðisþjónustu, vegna þess að maður veit ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sínu. Sjúkrahúsið hefur þrátt fyrir slæma fjárhagsstöðu t.d undirboðið einkareknar blóðrannsóknarstofur í rannsóknum fyrir heilsugæsluna í Reykjavík og bar sú breyting brátt að. Það mál er nú hjá samkeppnisstofnun, og niðurstöðu vonandi að vænta innan tíðar. Einnig má nefna að árið 2002 hækkuðu komugjöld á röntgendeild umtalsvert einn föstudaginn og tók hækkunin gildi á mánudegi, þannig að varla gafst ráðrúm til að setja breytinguna inn í kerfið hjá okkur, og gerði okkur erfitt fyrir.

Kvóti hér – skattaafsláttur þar
Okkur á einkareknum stofum er úthlutað ákveðnum kvóta frá Heilbrigðisráðuneytinu, þ.e. ákveðnum fjölda eininga sem við megum nota á hverju ári. Sjúkrahúsið má rannsaka utanspítala sjúklinga ótakmarkað. Þegar við erum búin með kvótann hættir ríkið að borga sinn hlut í rannsóknunum en erfitt er að loka þegar kvótinn er búinn, þar sem um þjónustufyrirtæki er að ræða. Fólk sem kemur að lokuðum dyrum í þjónustufyrirtæki fer annað þegar það þarf næst á þjónustunni að halda. Það er erfitt að keppa á þessum grundvelli.
Annað sem erfitt er að keppa við er að sjúkrahúsið fær endurgreiddan virðisaukaskatti á ákveðinni verktakaþjónustu s.s. tölvuþjónustu. Einnig er virðisaukaskatturinn ekki greiddur af tækjum sem keypt eru fyrir gjafafé og þarf einungis lítill hluti upphæðarinnar að vera gjafafé, og má þar nefna hjartaþræðingastofu LSH við Hringbraut. Ómtæki röntgendeildarinnar á Sjúkrahúsi Suðurlands er annað dæmi um þetta. Það væri ekki ónýtt að fá svona afslætti.

Afkoma ræðst af árangri
Einkarekstur í myndgreiningu er að mínu mati kominn til að vera og er það einnig svo í nágrannalöndum okkar sem við berum okkur saman við. Við erum með tvo viðskiptavini; annars vegar lækninn sem sendir og hins vegar sjúklinginn sem kemur. Eins og í öllum öðrum þjónusturekstri vill fólk fara á þann stað þar sem það fær góða þjónustu.
Afkoma einkarekinnar deildar er háð árangri, og kostnaður er í samræmi við afköst. Hægt er að ná miklum gæðum og hraða í rannsóknum vegna þess að starfsfólk á deild eins og okkar er meðvitað um þjónustufókusinn og veit að rannsóknirnar greiða launin þess. Starfsfólk deildarinnar er í mikilli nálægð við stjórnendur sem hefur góð áhrif á samvinnu og traust.
Það fréttir ekki út í bæ hvað er að gerast á vinnustaðnum. Þessari nálægð hefur maður ekki átt að venjast á sjúkrahúsinu. Mér er það í fersku minni þegar Landspítali sameinaðist Sjúkrahúsi Reykjavíkur að ég las fréttina um það á textavarpi sjónvarpsins, þó hafði ég á þeim tíma verið starfandi sérfræðingur þar í mörg ár.

Einkarekstur skilar betri þjónustu

Ég er ekki talsmaður einkavæðingar á heilbrigðismarkaði. En ég álít að einkarekstur í myndgreiningu innan ramma almannatrygginga muni leiða til skjótari og skilvirkari þjónustu við sjúklinga. Afköst verða meiri, þjónustan verður hagkvæmari og hraðari. Stjórnmálamenn þurfa að tryggja heilbrigðisrekstri eðlilegar og sanngjarnar nútíma aðstæður sem leiði til að hægt verði að framleiða metnaðarfulla þjónustu á sanngjörnu verði. Gæði þjónustunnar verða alltaf að vera í fyrirrúmi.
Litlar sérhæfðar einingar eins og okkar deild geta orðið mjög öflugar og geta veitt röntgendeild sjúkrahússins samkeppni á jafnréttis grundvelli ef svo ber undir.
Því þeir hröðu éta þá hægu fremur en þeir stóru þá smáu. 

25.10.04 Einfríður Árnadóttir, framkvæmdastjóri, Röntgen Orkuhúsinu.   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *