Sólmyrkvi 31. maí 2003Aðfaranótt laugardagsins 31. maí varð hringmyrkvi á sólu. Skýjað var víða um land en nokkuð af heppnu fólki náði þó að fylgjast með þessu stórfenglega náttúrufyrirbrigði.

Sýnilegur um land allt
Orðið hringmyrkvi merkir að tunglið fer allt inn fyrir sólkringluna en nær ekki að hylja hana algerlega og því sést rönd af sólinni allt í kringum tunglið. Myrkvinn varð mjög snemma morguns, um klukkan 04:00, og sól því lágt á lofti en fyrirbærið átti þó að vera sýnilegt um allt land.

Góð skilyrði á norðausturlandi

Á suðvesturhorni landsins skyggja fjöll mjög á og þar hefði sá sem vildi sjá sólmyrkvann helst þurft að vera í flugvél. Það skipti þó ekki höfuðmáli í þetta sinn því ský huldu sólu um allt sunnanvert landið. Norðausturland bauð upp á mun betri athugunarskilyrði og undirrituð varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fylgjast með sólmyrkvanum úr Ólafsfjarðarmúla.  Þangað komu á að giska 500 manns, Íslendingar og erlendir ferðamenn, og nutu veðurblíðu í vornóttinni.

Filmur til að verja augun

Þótt sól væri lágt á lofti og tunglið skyggði á mestan hluta sólkringlunnar var ekki óhætt að horfa á myrkvann með berum augum.  Án hlífa sá fólk hann heldur ekki því það fékk ofbirtu í augun.  Svertar röntgenfilmur gerðu prýðilegt gagn og ritstjóri Arnartíðinda gat skrifað hjá sér tökugildi fyrir sólmyrkva“gleraugu“ en ekki er að vita hvenær sú þekking kemur að gagni aftur!

Fræðsla

Í Almanaki Háskólans eru fjölbreyttar og athyglisverðar upplýsingar um sólmyrkvann þar sem meðal annars má sjá feikigóðar skýringarmyndir og töflur um fyrirbærið. 

31.05.03  Edda Aradóttir.

       

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *