#img 2 #Nýlega birtist stutt grein hjá Minnu frænku (www.auntminnie.com) um það sem þar er kallað „Snowboarder´s ankle“, þ.e. fremur sjaldgæft og oft illgreinanlegt brot, lateralt í talus, sem brettafólk getur hlotið við lendingu úr stökki.
Verum vakandi fyrir snjóbrettaáverkum.
Þó veturinn hafi verið mislyndur og allur gangur á hvort skíðasvæði eru opin er gott fyrir myndgreiningarfólk að hafa þetta í huga. Oft bera unglæknar, sem enn eru að afla sér reynslu, hitann og þungann af slysa- og bráðamóttöku og mikilvægt er að myndgreiningarfólk hafi augun opin fyrir því sem þeim kann að yfirsjást.
Grein frá Reuters Health.
Greinin er unnin upp úr Reuters Health og vitnað er í dr. Robert H. Leland, bæklunarlækni í Colorado í Bandaríkjunum. Hann segir einkenni þessara brota vera sársauka og bólgu sem líkist meira því sem sést við slæma tognun en við algengari brot. Því þurfi læknar á bráðamóttöku að vera sérlega vel vakandi og láta taka röntgenmyndir til að greina eða útiloka brot í talus.
Brot hinna vönu.
Í lang flestum tilvikum stafa þessi brot af átaki sem sveigir fótinn inn og upp á við, oftast
#img 1 #þegar snjóbrettamaður lýkur stökki og lendir þar sem óslétt er. Þetta er þannig brot hinna vönu snjóbrettaiðkenda, ekki byrjendanna.
Erfitt að greina.
Dr. Leland leggur áherslu á að röntgensérfræðing þurfi til að lesa úr þessum myndum því brotið sé ekki áberandi á venjulegri röntgenmynd og auðvelt að missa af því. Hann segir tilvísandi lækni þurfa að láta koma skýrt fram á röntgenbeiðni að sterkur grunur sé um brot lateralt í talus.
Aðgerð gefst vel.
Að sögn dr. Leland hefur gefist betur að lagfæra þessi brot í aðgerð og festa með plötum og/eða skrúfum heldur en að meðhöndla þau án aðgerðar.
Unnið úr grein sem birtist hjá Minnu frænku 21.02.08
Edda Aradóttir edda@raforninn.is