Sníðum stakk eftir vexti

Þó matvaran sé rándýr og bensínið líka þá eru undarlega margir sem borða of mikið og hreyfa sig of lítið. Af því leiðir að þjóðin er að þyngjast og myndgreiningarfólk lendir sífellt oftar í því að fá ófullnægjandi upplýsingar úr rannsóknum, vegna ofþyngdar sjúklings.

STÓRT vandamál
Íslendingar eru þó sem betur fer ekki komnir með ístruna þar sem Bandaríkjamenn hafa rassinn í þessum efnum. Þar er daglegt brauð að fólk á þyngdarbilinu 160 – 200 kg. þurfi í myndgreiningarrannsóknir og í grein í veftímaritinu Advance Online nýlega var haft eftir röntgenlækni á Thomas Jefferson Hospital, í Philadelphia ríki, að lág myndgæði vegna offitu væru ekki aðeins daglegt brauð heldur eitthvað sem sæist á hverri klukkustund vinnudagsins.

Tækjaframleiðendur bregðast við
Mestu vandræðin skapast í MR og CT rannsóknum og vandinn er orðinn svo víðtækur að tækjaframleiðendur sjá sér hag í að framleiða tæki sem bæði hafa stærra myndsvæði (field of view) og þola meiri þyngd. Rétt eins og farið var að framleiða breiðari og sterkari hjólastóla, stærri “manséttur” á blóðþrýstingsmæla og víðari sjúklingaföt. En hér er verið að tala um tugmilljónkróna tæki! Á “stærstu” CT tækjum í dag er opið 90 cm í þvermál og myndsvæðið 70 cm.

Sníðum rannsóknir að hverjum og einum
Í dag verður að teljast ólíklegt að myndgreiningarstaðir á Íslandi fjárfesti í sérstökum þungaviktartækjum. Það er því nauðsynlegt að í vinnuleiðbeiningum með hverju tæki komi fram hversu mikla þyngd sjúklingabekkurinn þolir og hvaða tæknimöguleikar gefa besta mynd af offeitum sjúklingum. Einnig gæti verið orðin ástæða til hérlendis, eins og gert er í USA, að spyrja alla um líkamsþyngd áður en þeim er gefinn tími í rannsókn þar sem þyngd eða ummál getur hindrað framkvæmdina. Það er mjög erfið lífsreynsla fyrir manneskju að vera vera vísað frá vegna offitu, auk þess sem það truflar flæðið á viðkomandi myndgreiningarstað.

Áhrif á allar rannsóknaaðferðir
Við almennar röntgenmyndatökur gildir þetta gamla góða, nota pressu á líkamshlutann (sjá grein eftir Ásmund Brekkan og Guðlaug Einarsson), hækka kílóvoltin og mynda svæðið í fleiri hlutum.

Hvað CT varðar er, í fyrrnefndri grein á Advance Online, bent á möguleika á að hækka mAs (þ.e. mA, “rotation time” eða hvort tveggja), kVp, heildartímann (með hægari borðfærslu, styttra “pitch” eða hvort tveggja), ásamt stillingum á “contrast volume”. Þetta má nota til að auka myndgæði þegar offeitir sjúklingar eru í rannsókn. Einnig þarf að gæta að staðsetningu sjúklingsins á bekknum vegna þess að ef líkami hans liggur út í “gantryið” gefur það myndtruflanir (artefakta).

Ísótóparannsóknir
á offeitum gefa líka niðurstöður sem erfiðara er að túlka. Eina ráðið þar er að gefa hámarksskammt af geislavirku efni og lengja rannsóknatímann.

Flest brögð sem hægt er að beita til að auka myndgæði þegar verið er að rannsaka offeitt fólk kosta aukið geislaálag. Það er þó léttvægt miðað við hag sjúklingsins af að fá rétta sjúkdómsgreiningu. Þess vegna er mikilvægt að til séu vinnureglur (prótókollar) um rannsóknir á stórum sjúkingum og myndgreiningarfólk hiki ekki við að nýta alla möguleika tækjanna til að fá hæstu myndgæði sem völ er á.

MR rannsóknir þarf einnig að sníða eftir vexti sjúklings, ekki dugir að nota sömu “parametra” fyrir offeita og þá sem minni eru. Hætta á innilokunarkennd eykst eftir því sem þrengra er um sjúklinginn og mjög feitt fólk kemst einfaldlega ekki inn í venjulegt MR tæki. Í mörgum tilvikum er brugðið á það ráð að nota opin tæki en þau hafa yfirleitt veikari segul og gefa enn lakari myndir. 

Alvarlegt vandamál
Í stuttu máli sagt: Offita rýrir myndgæði og það hefur í för með sér aukna hættu á að ekki fáist rétt sjúkdómsgreining. Mikilvægt er að nýta alla möguleika tækjabúnaðar til að fá sem skýrastar myndir, þrátt fyrir að það kosti aukið geislaálag.

Offita er alvarlegt heilsufarsvandamál og þó flestir geri sér grein fyrir að hún eykur hættu á t.d. hjartasjúkdómum, krabbameini og sykursýki hefur lítil áhersla verið lögð á að hún getur einnig hindrað sjúkdómsgreiningu og skipulagningu meðferðar. Þessu mætti t.d. koma að á sýningunni 3L EXPO sem Félag geislafræðinga tekur nú þátt í að undirbúa.

24.04.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *