Smágeislaáhrif (Radiation hormesis).

Eitt af því skemmtilega við fagið okkar og geislana góðu sem Röntgen uppgötvaði um árið er að það eru alltaf uppi einhver deilumál varðandi notkun geislunar. Eitt af þeim gömlu og lífseigu er hvort mjög litlir geislaskammtar séu hollir fyrir líkamann eða hvort það að halda slíku fram sé argasta bull. 

Gildandi reglur ráða vinnubrögðum.
Sem ábyrgur geislafræðingur hlýti ég öllum geislavarnareglum í vinnunni, bæði gagnvart sjúklingunum mínum og sjálfri mér. Ég verð hinsvegar að viðurkenna að ég hef gaman af kenningum um “radiation hormesis”, sem ég veit ekki til að eigi sér nafn á íslensku en ætla mér til skemmtunar að kalla smágeislaáhrif. Kenningar þessar ganga út á að geislun í mjög litlu magni, örlítið yfir bakgrunnsgeislun svæðisins, hafi áhrif líkt og hómópatar halda fram að smáskammtar þeirra hafi.

Smágeislaáhrif.
Umræða sem snýst um smágeislaáhrif hefur verið lengi í gangi og hægt er að finna heilmikið efni þar að lútandi á netinu. Á sjöunda áratug síðustu aldar gaf bandaríski prófessorinn T. D. Luckey út skýrslu sem lítur afskaplega vísindalega og sannfærandi út. Einnig er gaman að lesa grein sem rekur dálítið af sögunni varðandi smágeislaáhrif og á sama stað er bent á slóðir að fleiri stöðum þar sem fjallað er um hollustu mjög lágra geislaskammta.

Enginn hefur sannað smágeislaáhrif.
Ef litið er í alfræðiorðabókina Wikipediu, þar sem reynt er að birta hlutlausar staðreyndir, kemur í ljós að kenningar um smágeislaáhrif standa höllum fæti. Fjöldi tengla er við staði þar sem er, á mjög sannfærandi hátt, sýnt fram á að engum hafi tekist að sanna að litlir geislaskammtar geti verið hollir og á athugasemdasíðu lætur fólk í ljós hneykslun sína á að efni um smágeislaáhrif skuli birtast í Wikipediu.

Alltaf rannsóknir í gangi.
Af öðru nýlegu efni má til gamans benda á vefsíðu samtaka sem kallast BELLE (Biological Effects of Low Level Exposure) og hafa að markmiði að auka rannsóknir á áhrifum lágskammta álags ýmiss þess sem í stórum skömmtum er hættulegt fyrir líkamann. Þessi samtök halda ráðstefnu í apríl ár hvert, næst 28 – 29 apríl 2009. Ráðstefnu þessa árs er nýlokið en dagskrá hennar má sjá í auglýsingu. Einnig birtist grein í Journal of Nuclear Medicine Technology, að vísu árið 2003, þar sem fjallað er um smágeislaáhrif.

Hvaða ályktun dregur myndgreiningarfólk?
Hvaða skoðun hafið þið, ágæta myndgreiningarfólk? Er heilsufar okkar að einhverju leyti frábrugði heilsufari annarra? Eigum við frekar á hættu að fá krabbamein eða aðra óáran en fólk í öðrum störfum? Er geislaálag á okkur svo lítið að það breytir nákvæmlega engu? Eða halda smágeislaáhrif okkur unglegum, fallegum og hraustum? 

19.05.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *