Forritið Skype opnar einfalda og ódýra leið til samskipta í gegnum netið. Samtal milli tveggja tölva kostar ekki neitt en einnig er hægt að hringja úr tölvunni í síma, fyrir lægra mínútugjald en á milli tveggja heimilissíma.
Hugvit norðurlandabúa
Það voru tveir norðurlandabúar, svíi og dani, sem bjuggu Skype til en fyrirtæki um það var stofnað árið 2003. Starfsmenn Rafarnarins hafa notað Skype talsvert enda fara þeir víða, vinna hér í dag og þar á morgun, en eru aldrei langt frá tölvu. Lárus Árni Hermannsson hefur mesta reynslu Rafarna af Skype og fyrir skömmu var viðtal við hann í Speglinum hjá RÚV, þar sem hann skýrði á einfaldan hátt notagildi forritsins.
Ókeypis og einfalt
Eins og Lárus benti á er samtal á netinu alls engin nýjung en sérstaða Skype byggist á að samskipti milli tölva kosta ekki neitt og einnig að forritið er mjög einfalt í notkun. Það er sett upp í tölvu einstaklings og skiptir ekki máli um hvaða stýrikerfi er að ræða en nauðsynlegt er að hafa heyrnartól og hljóðnema. Þar með getur sá einstaklingur haft samskipti við alla aðra sem hafa Skype uppsett hjá sér.
Fjölmargir notendur
Lárus sagði að yfirleitt væru um 1 – 1.5 milljón notendur tengdir í einu en hver býr sér til sinn „contact“ lista og sér hverjir þeirra eru tengdir, líkt og í MSN. Milli tveggja tölva eru samskiptin ókeypis en ef hringt er úr tölvunni í “fastan” síma kostar það u.þ.b. 1.40 krónur á mínútu sem er lægra gjald en fyrir símtal milli tveggja heimilissíma, á dagtaxta. Fyrir símtal úr tölvunni í farsíma er gjaldið um 12 – 15 krónur á mínútu. Auk þessa er hægt að halda allt að fjögurra manna fundi á netinu. Hljóðgæði eru mikil, meiri en í síma, vegna þess að meiri bandvídd er notuð.
Bylting í samskiptum
Þarna er um að ræða mjög athyglisverðan möguleika í samskiptatækni og má jafnvel tala um byltingu. Forritið er hægt að nálgast á www.skype.com og einfaldar leiðbeiningar eru á sama vefsetri.
14.02.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is