Skyggnibogar utan myndgreiningardeilda.

 

#img 1 #Fókusinn þessa vikuna verður á tveim greinum hjá Minnu frænku, um litla C-boga (mini C arm) utan myndgreiningardeilda. Til dæmis á slysadeildum sjúkrahúsa, þar sem þeir geta sparað sjúklingum tíma og óþægindi.
 
Þið munið að það þarf notandanafn og lykilorð til að lesa greinar á auntminnie.com en þau fást endurgjaldslaust og á einfaldan hátt.


Litlir skyggnibogar henta vel fyrir úlnlið.

Fyrri greinin fjallar um notkun skyggningar til að greina áverka á úlnlið. Niðurstaðan er að skyggningin sé betri kostur en hefðbundin röntgenmyndataka. Það ætti ekki að koma neinum á óvart og ekki heldur að skyggnibogi á röntgendeild spari tíma og óþægindi þegar verið er að lagfæra (reponera) brot á úlnlið. 
Myndgreiningarfólk kannast einnig við annað sem er undirstrikað í greininni, að ekki sé sjálfgefið að lítill skyggnibogi henti til rannsókna á öðrum liðum en úlnlið.

#img 2 #
Þekking er lykilatriði.
Ýmislegt þarf að athuga í þessu sambandi en þó fyrst og fremst að sá sem framkvæmir skyggninguna hafi næga þekkingu, bæði hvað varðar tækið og áverkagreininguna. Unglæknir eða hjúkrunarfræðingur sem hefur engan grunn í geislaeðlisfræði og takmarkaðan í áverkagreiningu á ekki að stjórna skyggningu.

Þetta leiðir okkur að seinni greininni sem mig langar að benda á en þar er sagt frá rannsókn sem leiddi í ljós að geislaálag af notkun lítils skyggniboga væri oft mun meira en áður hefði verið haldið.

Fræðsluskylda myndgreiningarfólks.

#img 3 #Mín skoðun er sú að á myndgreiningarfólki hvíli fræðsluskylda við annað heilbrigðisstarfsfólk sem stjórnar tækjum sem gefa frá sér geislun. Áhugavert væri ef gæðastjórar og aðrir sem áhuga hafa á vönduðum vinnubrögðum gæfu sér tíma til að ræða vinnureglur við þá sem skyggna, t.d. á slysadeildum, og byðu hjálp við að endurbæta þessar reglur þar sem þarf.

Látum okkur annt um náungann!

 26.04.09 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *