Ný viðhorf varðandi notkun joðskuggaefna við myndgreiningu
Nánast frá upphafi hefur verið stuðst við staðlaðar skammtastærðir við notkun joðskuggaefna í myndgreiningu. T.d. oft gefnir 50 ml af skuggaefni við nýrnamyndatöku og 100 ml við tölvusneiðmyndarannsóknir. Upp úr 1990 er farið að styðjast við serum kreatinín gildi sjúklings til að velja úr þá sjúklinga sem ekki ættu að fá skuggaefni eða til að reyna að minnka skuggaefnisskammtinn hjá þeim sem voru með hækkuð gildi.
Frá upphafi notkunar skuggaefnis við segulómrannsóknir var hins vegar skuggaefnismagnið miðað við þyngd sjúklings og var það að hluta til gert af hagkvæmnis ástæðum. Reynt var að gefa nægjanlega stóran skammt en ekki stærri en nauðsynlegt var, skuggaefnið var fremur dýrt og skammturinn því mældur einingum per kíló þyngdar sjúklings.
Serum kreatínin gildi nægir ekki
Fyrir nokkrum árum var almennt farið að tala um að se-kreatinín gildi sem mælikvarði á hver mætti fá skuggaefni og hver ekki væri algerlega ónothæft í mörgum tilfellum og mjög víða er í dag miðað við kreatinín úthreinsun sjúklings (creatinine clearance). Þar sem ekki er hagkvæmt eða mögulegt að mæla það gildi hjá stórum hópi sjúklinga er í staðinn stuðst við útreiknað eða áætlað kreatinín gildi. Sú aðferð að reikna út og áætla gildið á kreatinín úthreinsuninni er einföld og byggir á staðlaðri formúlu Cockcroft-Gaults þar sem notast er við aldur sjúklings, þyngd, kyn og einnig se-kreatinín. Ekki er markmiðið í þessarri grein að fjalla nánar um það, en þessi útreikningur er afar einfaldur og fljótlegur og ætti alltaf að gera ef se-kreatinín gildi sjúklings á annað borð liggur fyrir. Þennan útreikning er unnt að gera á einfaldann hátt í hvert sinn sem gefa skal skuggaefni, en eins er hægt að notast við einfalt tölvuprógram, OmniVis,V sem fæst gefið frá lyfjafyrirtæki sem selur skuggaefni.
Mikilvæg vernd fyrir sjúklinga
Hver er svo tilgangurinn með þessu öllu saman. Jú hann er að finna þá sjúklinga sem hafa lækkaða kreatinín úthreinsun og hindra að þeir sem ekki þola skuggaefni fái það eða að minnka skammta hjá sjúklingum með skerta nýrnastarfsemi. Viðhorfið er að vernda sjúklinginn.
Vel er þekkt nýrnabilun eftir gjöf á joðskuggaefni. Ein skilgreining á því hvað er skuggaefnisorsökuð nýrnabilun, er skerðing á nýrnastarfsemi sem er meiri en 25% innan þriggja daga frá gjöf joðskuggaefnis og ekki liggja aðrar þekktar orsakir fyrir. Af þeim hópi sjúklinga sem fá skuggaefnisorsakaða nýrnabilun ná flestir sér aftur innan nokkurra daga, en lítil prósenta sjúklinga nær sér ekki og fer í króníska nýrnabilun. Þessir sjúklingar eru flestir úr áhættuhópi sem er með skerta nýrnastarfsemi fyrir, er með sykursýki og er á sykursýkislyfinu metformin eða öðrum lyfjum sem varasöm eru í þessu samhengi eða eru með fleiri áhættuþætti.
Einfalt að minnka hættu á nýrnabilun
Með einföldu mati á nýrnastarfsemi sjúklings ásamt vissum einföldum vinnureglum er hægt að minnka stórlega líkurnar á skuggaefnisorsakaðri nýrnabilun. Áætla má gróflega að 10-20 sjúklingar á ári hverju fái skuggaefnis-orsakaða nýrnabilun á Íslandi. Með nýju vinnulagi má stórlega minnka líkurnar á þessum aukaverkunum.
Umreikningur staðlaðra skammtastærða
Notkun OmniVis forritsins bíður einnig upp á umreikning á stöðluðum skammtastærðum joðskuggaefnis við myndgreiningu. T.d. þarf gamall léttur sjúklingur alls ekki að fá 100 ml af skuggaefni við tölvusneiðmyndarannsókn heldur gæti t.d. skammtur sem bara er 60 ml samt sem áður gefið sama magn joðs per kg og 100 ml gefa viðmiðunarsjúklingi okkar. Þannig sparast peningar. Eða að við gefum stórum ungum sjúklingi kannski 120 ml af skuggaefni í stað 100 ml og fáum þannig betri rannsókn með sömu skuggaefnisþéttingu og hjá viðmiðunarsjúklingnum.
Nánari upplýsingar
Þeim sem vilja kynna sér þetta efni betur er bent á heimasíðu ESUR (European Society of Urogenital Radiology) eða á upplýsingar um Gæðavísi, handbók sem meðal annars fjallar um þessi mál, hér á heimasíðu Rafarnarins.
24.01.05 Viktor Sighvatsson, röntgenlæknir.