Sjáumst á ECR 2007

Nú fer að líða að hinni árlegu Evrópuráðstefnu í myndgreiningu, ECR (European Congress of Radiology) sem haldin er í Vín í Austurríki ár hvert og að þessu sinni verður hún dagana 9. -13. mars 2007.
Á ECR 2006 fór fríður flokkur frá Íslandi með bæði fyrirlestur og rafræna póstera í farangrinum á ráðstefnuna og sama verður uppi á teningnum að þessu sinni.Tveir íslenskir geislafræðingar, þau Sigurður Sigurðsson í Hjartavernd og Jónína Guðjónsdóttir í Röntgen Domus verða með fyrirlestra og undirrituð sendir inn rafrænan póster. 

Íslendingur í undirbúningsnefnd
Guðlaugur Einarsson, geislafræðingur hjá Geislavörnum Ríkisins, var beðinn um að taka sæti í undirbúningsnefnd geislafræðinga vegna ECR 2007 frá fráfarandi undirbúningsnefnd. Þessi beiðni kom í gegnum Evrópusamtök geislafræðinga (ECRRT ). Annað megin verkefnið hjá Guðlaugi fólst í því að lesa yfir og meta útdrætti allra erinda sem send voru til ECR og tilheyra geislafræðinni á ráðstefnunni og fór hann yfir 81 útdrátt að erindum og veggspjöldum og mat þau með tilliti til gefinna viðmiða. Þess má geta að af þessum 81 voru 38 samþykkt inn á ráðstefnuna. Hlutfall höfnunar hefur almennt verið um 60% að meðaltali fyrir þessa ráðstefnu. Einnig fékk hann Sigurð og Jónínu til að halda fyrirlestra á ráðstefnunni.

Fyrirlestrar og fundastjórn
Sigurður verður með fyrirlestur á mánudeginum sem heitir „Radiation dose management in a large population-based study“ og fjallar um notkun jónandi geislunar í vísindarannsóknum ásamt faraldsfræðilegri nálgun á dreifingu geislaálags og tengingu við líkamslögun. Við þennan fyrirlestur mun Guðlaugur verða fundarstjóri ásamt finnskum röntgenlækni.
Sama dag verður Jónína með fyrirlestur um straummótunarbúnað í CT. Hann heitir „CT applications and current modulation“ Þar ætlar hún að fjalla almennt um hvernig þessi búnaður virkar, kosti og galla og hvernig framleiðendur hafa farið mismunandi leiðir.
Jónína segir:
“Til þess að straummótunarbúnaður komi að sem mestu gagni er nauðsynlegt að vita hvernig hann hagar sér. Sem dæmi má nefna að Toshiba tæki tekur tillit til þess ef skipt er um convolution kernel (filter) og stillir geislunina eftir því, en GE tæki gerir það ekki. Það er því alveg nauðsynlegt fyrir geislafræðinga að vera vel heima í þeim búnaði sem þeirra tæki notar til að straummótunarbúnaðurinn geri sem mest gagn. Það er ekki hægt að reikna með að tækið skammti geislunina alltaf skynsamlega ef prógrömmin sem við gerum eru ekki í lagi.”

Rafrænn póster
Rafræni pósterinn heitir: Manual labeling of brain tissues on MR images; a method to assess the quality of brain tissue volumes by automatic segmentation in a large population based study og fjallar um aðferð til þjálfunar á tauganeti ofurtölvu til rúmmálsgreiningar á hinum ýmsu vefjum heilans. Einnig er þessi aðferð notuð til gæðaeftirlits á ofurtölvunni sjálfri. Þessi aðferð hefur verið í þróun í nokkurn tíma í Hjartavernd og um er að ræða greiningu á heildarúmmálum grás vefs, hvíts vefs, hvítavefsbreytinga og heila og mænuvökva. 

Margt áhugavert í boði
ECR er stór ráðstefna og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi þar sem gríðarlegt úrval góðra fyrirlestra og viðburða eru í boði á hverjum degi, ásamt tækjasýningu með allt það nýjasta sem er í boði á öllum sviðum myndgreiningarinnar.
Á kvöldin er svo ógrynni viðburða sem hægt er að sækja í þessari miklu tónlistar og menningarborg svo engum ætti að leiðast veran í Vín. Allar upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á vefsíðu hennar.

Fjölmennum til Vínarborgar
Það er ekki oft sem okkur gefst tækifæri á að sækja ráðstefnu af þessari stærðargráðu þar sem íslenskt myndgreiningarfólk flytur erindi og finnst mér full ástæða til að fjölmenna til Vínarborgar, auka þekkinguna og styðja við bakið á okkar fólki í leiðinni.

Hlakka til að sjá ykkur sem flest í Vín í mars.

17.12.06 Bryndís Óskarsdóttir
Geislafræðingur
Hjartavernd.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *