Hvort sem við erum ung eða gömul, í starfi eða að árum, eigum við að halda heilanum í formi og þekkingu okkar í takt við tímann. Það er ekki nóg að uppfæra forritin í tölvunni sinni reglulega (þó það sé reyndar algjör nauðsyn, sérstaklega vírusvörnina!), við þurfum líka að uppfæra okkur sjálf reglulega.
Grunn- og símenntun
Ef eitthvert ykkar er að hugsa sem svo: “Byrjar hún nú eina ferðina enn”, þá hefur sá hinn sami rétt fyrir sér. Hér byrja ég eina ferðina enn enda er menntun myndgreiningarfólks, hvort heldur sem er grunn- eða sí-, eitt af mínum áhugamálum. Grunnmenntunina ætla ég að láta liggja milli hluta í þetta sinn en vonast til að geta innan skamms sagt ykkur meira um framtíð námsbrautar í geislafræði. Grunnmenntun röntgenlækna er, eftir því sem ég best veit, í ágætum farvegi en það hlýtur að vera hægt að ná fleiri unglæknum inn í sérnám í myndgreiningu, eins og þetta er skemmtilegt fag!
Menntun, sí og æ
Já – símenntun, það er umfjöllunarefnið í dag. Eins og allt myndgreiningarfólk veit þá lifum við og hrærumst í síbreytilegum heimi þar sem sífellt er verið að þróa ný tæki og nýjar greiningaraðferðir. Sí og æ, æ og sí, aldrei fæ ég nóg af því…
Ekki hætta að lesa, þetta bull stefnir að ákveðnu marki. Markmiðið er að vekja ykkur til umhugsunar og ákvarðanatöku. Hvað ætlið þið að gera næst til að halda þekkingu ykkar við og verða enn betri starfsmenn en áður? Sá sem setur sér ekki markmið veit ekki hvenær hann hefur náð árangri og þess vegna er nauðsynlegt að líta svolítið í eigin barm, finna sterka og veika punkta og síðan leiðir til að nýta sterku punktana og styrkja þá veiku.
Hvað hentar hverjum?
Sumir eru klárir í allri tækninni en óskipulagðir og nýta tíma sinn illa. Þeir gætu t.d. farið á tímastjórnunarnámskeið og lært hvernig hægt er að nýta lófatölvur, farsíma og annað skemmtilegt dót til að ná betri árangri í starfi og leik.
Einhverjir eru snillingar í mannlegum samskiptum, góðir í tækninni og ætti að geta gengið allt í haginn en lenda alltaf í vandræðum þegar þarf að nota önnur tungumál en íslensku. Skella sér á tungumálanámskeið!
Stjórnendur – halló!!! Ég veit að þið hafið skelfilega mikið að gera en hver stund sem þið getið nýtt í að læra um stjórnun og stjórnunaraðferðir kemur áreiðanlega tvöföld til baka í tímasparnaði þegar starfsfólkið ykkar verður ánægðara, samskiptin ganga betur, afköstin aukast o.s.fr.
Að ekki sé minnst á námskeið og ráðstefnur sem snúa beint að okkar fagi og hægt er að fara á bæði hérlendis og erlendis.
Tími og peningar
Allt þetta kostar eitthvað, bæði tíma og peninga. Tímanum er vel varið, því get ég lofað ykkur, þó ekkert námskeið sé svo innihaldsríkt að fólk komi út með lausn lífsgátunnar í farteskinu . Í hvert sinn lærir maður eitthvað nýtt, rifjar upp eitthvað sem maður var búinn að gleyma, fær staðfestingu á einhverju sem maður vissi og upplifir þá dásamlegu tilfinningu að heilinn í manni virkar enn! Þar að auki hittir maður annað fólk sem er líka í þekkingarleit og um leið fúst til að miðla þekkingu og reynslu. Maður sækir sér orku og kemur til baka ofurlítið ferskari og meira lifandi í starfi.
Peningana er oft hægt að sækja til vinnuveitanda eða stéttarfélags. Það er af sem áður var að ferð á námskeið eða ráðstefnu var talin aðferð starfsmannsins til að veiða sér skemmtiferð á kostnað vinnuveitandans og svíkjast um að vinna þann daginn. Nútíma stjórnendur skilja að sókn eftir meiri þekkingu og víkkun sjóndeildarhringsins er merki um metnað í starfi, áhuga og dugnað.
Sýnum þennan metnað, áhuga og dugnað. Setjum okkur markmið og náum takmarkinu!
13.09.04 Edda Aradóttir.