Símenntun í Boston.

Fókusinn þessa vikuna er á símenntun eins og svo oft áður en nú á því formi að geislafræðingatríóið Dagný, Arna og Gússý, frá Röntgen Domus segja frá því helsta af MRI/CT Update ráðstefnu í Boston, á vegum Harvard Medical School.
Myndir úr ferðinni er að finna í Albúmi Arnartíðinda.

Lítið um hvíld á hvíldardaginn.
Ráðstefnan stóð yfir dagana 26. – 30. október sl. en stelpurnar komu til Boston laugardagskvöldið 23. og tók borgin á móti þeim með hlýju veðri en ausandi rigningu. Sem betur fer rignir meira lóðrétt í Massachusetts en í Reykjavík og dömurnar tóku sig víst ákaflega vel út þar sem þær spásséruðu um strætin með regnhlífar á lofti.
Sunnudagurinn var ætlaður til hvíldar og að ná áttum á öðru tímabelti en fór, að sögn Dagnýjar, í það að kynnast neðanjarðar leiðakerfi borgarinnar, borða góðan mat og versla dálítið! 

Skuggaefni, geislaskammtar og MRCP.
Stundvíslega klukkan 07:50 á mánudeginum hófst svo ráðstefnan með morgunhressingu á Fairmont Copley Plaza hótelinu. Í fyrirlestrum dagsins var fjallað vítt og breytt um málefni varðandi CT og MRI s.s. geislaskammta, gallvegarannsóknir í MR (MRCP), MDCT ristilrannsóknir og margt fleira.
Dagný nefndi sérstaklega tvo afar áhugaverða fyrirlestra, annarsvegar “Contrast Agent Safety in CT and MR” þar sem meðal annars var fjallað um Contrast Induced Nephropathy, mjög sjaldgæfar en alvarlegar aukaverkanir af völdum Gadolinium hjá sjúklingum með skerta nýrnastarfsemi, og hins vegar um MDCT rannsóknir á mjógirni. Einnig nefndi hún áhugaverðan fyrirlestur um CT urografíu, þar sem henni fannst margt umhugsunarvert koma fram.

fMRI og fleira áhugavert.
Þær stöllur voru mjög ánægðar með fyrirlestra sem fjölluðu um MR rannsóknir af grindarholi, bæði kvenna og karla, en ótal frábærir fyrirlestrar voru í boði.
Skurðlæknir einn flutti t.d. fyrirlestur um notkun fMRI (funktional MRI) þegar fjarlægja þarf æxli úr heila og sagði Dagný hann hafa náð að skila efni um þessa áhugaverðu nýjung í faginu á einkar lýsandi og skilvirkan hátt.
Það voru því ánægðir geislafræðingar sem fóru heim með heilmikla nýja þekkingu til að nýta sér í vinnunni hjá Röntgen Domus.

Skrifað eftir punktum Dagnýjar Sverrisdóttur.
08.10.09 Edda Aradóttir.
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *