Símenntun er ekki einkamál.

Starf geislafræðings á Íslandi er að mestu sambærilegt við það sem Radiologist Assistant (RA) gerir í Bandaríkjunum og Bretlandi. Menntunarstigið er hærra og ábyrgðin meiri en hjá Radiologic Technologist (RT). Það skýtur því skökku við að engar reglur eru til um símenntun geislafræðinga.

Við vinnum sjálfstætt og öxlum ábyrgð.
Á Íslandi vinna geislafræðingar mikið sjálfstætt, þeir meta eigin myndir, ákveða hvort taka þurfi sérmyndir og hvenær rannsókninni er lokið. Ef eitthvað kemur fram við rannsókn, eða í samtali við sjúkling, sem breytir forsendum áframhaldandi rannsókna hefur geislafræðingurinn leyfi til að leggja til við röntgenlækni að sjúklingurinn fari í fleiri eða aðrar rannsóknir en tilvísandi læknir biður um. Þetta er sambærilegt við hlutverk Radiologist Assistant.
Geislafræðingar hérlendis gefa skuggaefni í æð og lyf sem nauðsynleg eru við rannsóknir, s.s. þvagræsilyf, lyfjaforgjöf vegna þekktra skuggaefnisviðbragða, blóðþrýstingslækkandi lyf og róandi lyf fyrir segulómskoðanir. Geislafræðingur sem gefur lyf fylgist með verkun þess, mælir t.d. blóðþrýsting og metur áhrif róandi lyfja. 

Fáein atriði eru ólík.
Geislafræðingar á Íslandi stjórna skyggnitækjum en gera ekki skuggaefnisrannsóknir sjálfstætt, eins og sumir RA gera. Hérlendis lætur geislafræðingur röntgenlækni aðeins vita ef eitthvað óvænt sést við rannsókn en skilar ekki skýrslu um allt sem hann tekur eftir, eins og reglan er að RA í Bandaríkjunum geri. Ekki hefur heldur verið tekið í notkun hér kerfi til að merkja það sem geislafræðingur telur óeðlilegt, eins og Red Dot System í Bretlandi. 

Stór munur á símenntunarkröfum.
Það má segja að íslenskur geislafræðingur standi á milli RA og RT en nær því að vera Radiologist Assistant. Einn stór munur er þó á. Til að halda starfsréttindum sínum þurfa bæði RA og RT að sýna fram á að þeir hafi ástundað símenntun í svo og svo miklu magni ár hvert. Það finnst mér mjög eðlilegt og rétt í fagi sem þróast og breytist jafn hratt og myndgreiningin gerir.
Margir íslenskir geislafræðingar sinna símenntun af alúð og metnaði og ég vona að svo sé um flesta. Mín skoðun er samt sú að vel skipulagt kerfi sem héldi utan um símenntun hvers og eins yrði faginu til framdráttar og stuðlaði að jafnari fagmennsku innan stéttarinnar.

Símenntun er ekki einkamál.
Ég skora á Félag geislafræðinga að athuga þetta mál og leggja sitt af mörkum til þess að símenntun innan fags sem er einn af hornsteinum nútíma læknisþjónustu verði ekki lengur einkamál hver og eins. 

18.02.08 Edda G. Aradóttir, geislafræðingur. 
edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *