Setjum faglegan metnað í fyrsta sæti

 
RSNA, ráðstefnan stóra í Chicago, stendur dagana 27. nóvember til 2. desember og samkvæmt lista Arnartíðinda eru 35 íslendingar á leið þangað. Mikilvægt er að skipuleggja tíma sinn vel og af sem mestum faglegum metnaði.

Allt stærst í Ameríku
Bandaríkjamenn eru dálítið gjarnir á að kynna það sem stærst er og best í Bandaríkjunum sem það stærsta og besta í heimi. Iðulega eru t.d. krýndir
#img 1 #heimsmeistarar (World Champion) á íþróttamótum sem einungis eru opin bandaríkjamönnum. Það er hinsvegar ekkert orðum aukið þegar RSNA er kynnt sem heimsins stærsta ráðstefna innan heilbrigðisgeirans. Þangað koma yfir 60.000 manns og skráðir viðburðir af ýmsum toga, fyrirlestrar, dagsnámskeið, kynningar, tölvusýningar og framsöguerindi, eru 2222 talsins, auk þess sem um 700 fyrirtæki sýna framleiðslu sína á tæknisýningu sem tengist ráðstefnunni.

Því meira skipulag, því betra

#img 2 #Svo margt er í boði að sá sem ætlar bara að skrá sig á nokkra fyrirlestra, mæta síðan á svæðið og athuga hvað honum finnst áhugaverðast kemur ekki til með að vita sitt rjúkandi ráð. Lykillinn að árangursríkri ferð á RSNA er skipulagning og aftur skipulagning en sem betur fer þarf hún ekki að vera erfið. Heildardagskrá ráðstefnunnar er búin að vera aðgengileg á netinu síðustu vikurnar og auðvelt er að finna það sem hverjum og einum finnst áhugaverðast.


Flokkað eftir líffærakerfum
#img 3 #

Nú eru viðburðir flokkaðir eftir líffærakerfum í stað myndgerðartækni (modality), þ.e. flokkað er eftir því hvað er verið er að rannsaka en ekki hverskonar tæki er notað við rannsóknina. Þetta er í anda sérhæfingar sem sífellt færist í vöxt í faginu, þó meira erlendis en hér á Íslandi. Við sem enn erum að vinna “í öllu” þurfum að leita okkur þekkingar í ýmsum flokkum en jafnvel í litlu myndgreiningarsamfélagi eins og á Íslandi er viss sérhæfing í gangi og eins á fólk mismunandi áhugamál innan fagsins.

Velja þarf úr því sem ekki krefst skráningar
Allir ættu að vera búnir að skrá sig á fyrirlestra (Refresher Courses) og námskeið sem þarf skráningu á, t.d. í “Hands on …” og InfoRAD. Ýmsa aðra viðburði þarf síðan hver og einn að skipuleggja hvenær hann vill, og/eða hefur tækifæri til að, sækja.
Plenary Sessions eru á fyrirlestraformi en þar gildir reglan “fyrstir koma fyrstir fá”. Þetta spannar mjög vítt svið eins og sjá má af örfáum dæmum: “Radiology´s Leaders – Challenges of the Future”, “Sports Injuries in Children”, “Vertebroplasty & Sarcoplasty”, “Effect of Obesity on Radiology Procedures”, “Dose & Multidetector CT”, o.s.fr.
Scientific Papers eru kynningar eða skýrslur um ákveðnar rannsóknir sem annað hvort er lokið eða eru í vinnslu, auk kynninga á nýjum möguleikum eða aðferðum í faginu. Aðgangur er öllum frjáls og yfirleitt þarf ekki að hafa áhyggjur af að áheyrendur séu of margir fyrir aðstöðuna.
Scientific Posters er það sem áður gat kallast veggspjaldasýning á íslensku en nú eru
#img 4 #allir “pósterar” á tölvutæku formi og ráðstefnugestir skoða þá þannig. Á ákveðnum tímum er hægt að hlusta á útskýringar (oral presentation) þeirra sem eru að kynna verkefni sín, og leggja fyrir þá spurningar.
Education Exhibits eru sýningar á spjöldum og/eða tölvum þar sem hægt er að kynna sér ótal hluti varðandi menntun, sjúkdómseinkenni, rannsóknaaðferðir, tækni, meðferð sjúkdóma, inngripsrannsóknir o.fl. Sumar þeirra innihalda tæki sem gera fólki kleift að gera sýndarrannsókn og/eða æfa t.d. inngripsrannsóknir. Sem dæmi um hversu vítt svið þessar sýningar spanna má nefna “A Complete Protocol for a 30 Minute Prostata MR Using Endorectal Coil”, “Starting and Establishing Your Own Outpatient Clinic” og “CT of African Art Masterpieces”.
InfoRAD hluti ráðstefnunnar snýst um tölvutækni og hugbúnað sem notaður er við meðhöndlun gagna úr rannsóknum (myndir), upplýsinga um sjúkling (sjúkraskýrslur) og kennslu fagfólks í myndgreiningu. Á suma viðburði innan InfoRAD þarf að skrá sig fyrirfram en um aðra gildir “fyrstir koma fyrstir fá”.


#img 5 #Tækni-stórsýning

Tæknisýningin (tækjasýningin) er kafli út af fyrir sig. Þeir sem ekki eru að kynna sér eitthvað sérstakt geta notið þess að rölta um svæðið, upplifa stemninguna og láta hugmyndaauðgi hinna ýmsu framleiðenda koma sér á óvart. Þetta er skrautsýning þar sem hver reynir að “toppa” hina. Þess verður þó að gæta að hafa nógan tíma þó ætlunin sé einungis að líta yfir. Þetta er risa-sýning!
Hinir sem eru í leit að einhverju ákveðnu geta t.d. notað lista yfir sýnendur (Exhibitor List) á vefsíðu ráðstefnunnar og litið á flokkun eftir tegund framleiðslu (View by Category) eða nöfnum sýnenda, í stafrófsröð.


#img 6 #Faglegur ávinningur

Það er hægt að græða heilar fúlgur af þekkingu á RSNA, nýtum tækifærið sem best og komum út í gróða fyrir okkur sjálf og vinnustaði okkar. Því miður ber á því hjá örfáum að faglegur metnaður lendir í öðru sæti, meira er skipulagt í hvaða búðir og á hvaða veitingastaði á að fara heldur en hvaða fyrirlestra og sýningar á að sækja. Þetta viðhorf má alls ekki verða ofan á, munum að
#img 7 #símenntun og metnaður okkar sem fagfólks skiptir mestu máli og ef við sinnum því vel er hægt að fara versla og skemmta sér í frítímanum með bestu samvisku! 

21.11.05 Edda Aradóttir, edda@raforninn.is  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *