Segulómun brjósta


Segulómun af brjóstum.
Nú í október er árveknisátak Krabbameinsfélags Íslands um brjóstakrabbamein. Í tilefni þessa hefur Edda Aradóttir ritstjóri Rafarnarins beðið mig um skrifa nokkur orð um segulómanir af brjóstum en þessar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á Landspítalanum við Hringbraut með skipulögðum hætti frá september 2006.

Segulómun af brjóstum er mikilvæg viðbót við aðrar myndgreiningaraðferðir af brjóstum en kemur ekki í stað mammografíu við hópleit og/eða ómunar við klínískar rannsóknir.
Helstu ábendingar fyrir segulómun af brjóstum er nánari kortlagning af greindu krabbameini, brjóstaprotesa sem veldur erfiðleikum við mammografíu, viðbótarrannsókn ef óljós breyting á mammografíu og/eða ómun. Að auki eru æ fleiri rannsóknir sem sýna framá gagnsemi reglulegar segulómunar af brjóstum við aukna genetíska áhættu á brjóstakrabbameini. Í framtíðinni gæti þetta orðið ein stærsta ábendingin.#img 1 #
#img 2 #

#img 3 #
Myndir 1-3.
Brjóstaspóla á rannsóknarbekk. Framan við hana er lítill upphækkaður púði. Sjúklingur liggur á maga, brjóstin hanga niður í ferköntuðu opin. Brjóstin eru skorðuð létt með fjólubláu hliðunum. Ennið hvilir á púðanum framan við sjálfa spóluna. Þar er spegill og getur sjúklingur séð út úr seglinum á meðan rannsókn stendur.

Brjóstaspóla
Það sem lengi stóð segulómrannsóknum af brjóstum fyrir þrifum var skortur á sérhönnuðum brjóstaspólum. Til að ná góðum myndum við segulómrannsóknir þarf sú spóla sem notuð er að liggja sem næst þeim líkamshluta sem á að rannsaka og hafa form sem samrýmist lögun. Sérhönnuð brjóstaspóla er því forsenda góðrar rannsóknar og er ein slík notuð á Landspítala ( Mynd 1-3). Í brjóstaspólu liggur sjúklingur á maganum. Það minnkar allar öndunarhreyfingar á fremri hluta brjóstkassa. Því er brjóstaspólan einnig nýtileg við rannsóknir á breytingum í fremri hluta miðmætis og sternum. Brjóstin hanga niður í spóluna og eru skorðuð létt. Er mjög mikilvægt að ekki sé klemmt að brjóstinu því greining byggist að mestu leyti á aukinni skuggaefnisupphleðslu tumors miðað við heilbrigða vefi og því mikilvægt að ekki sé klemmt þannig að blóðflæði minnki.

Rannsóknin
Áður en myndataka hefst er nál sett í olnbogabót. Sjúklingur legst á magann í spóluna, brjóst eru skorðuð og nálin tengd við þrýstisprautu. Er mjög áríðandi að vel fari um sjúkling í þesssari stöðu því eins og við aðrar segulómrannsóknir er mikilvægt að sjúklingur liggi grafkyrr alla rannsóknina. Þetta á sérlega við um myndir gerðar fyrir og eftir skuggaefnisgjöf því myndir án skuggaefnis eru notaðar sem “maski” fyrir myndir teknar með skuggaefni. Ef hreyfing er milli myndaraða getur þurft að endurtaka alla rannsóknina við aðra heimsókn.
Sjálf myndatakan er tiltölulega stutt. Gerðar eru axial T2 myndir yfir brjóstin. Að henni lokinni eru gerðar hraðar axial T1 myndaraðir með dynamískri skrásetningu á skuggaefnisupphleðslu. Tekin er ein T1 myndaröð án skuggaefnis, skuggaefni gefið og eftir það eru 5 eins myndaraðir gerðar án hlés. Frá þessum myndaröðum er upphleðslukúrfur reiknaðar ( Mynd 4-5). Samanlagður tækjatími er um 15 mín. 


#img 4 #Mynd 4
Gerð er hröð T1 viktuð myndaröð fyrir skuggaefni- skuggaefni er gefið- myndaraðir endurteknar. Útfrá þessum myndaröðum er upphleðslukúrfa reiknuð.

Myndtúlkun
Illkynja tumorar hafa oftast meira blóðflæði en góðkynja fyrirferðir og heilbrigður vefur. Við greiningu krabbameina í brjósti er skuggaefnisupphleðsla því það sem skiptir mestu máli. Nauðsynlegt er að myndir séu með hárri upplausn í tíma til að hægt sé að reikna upphleðslukúrfur en einnig verða sneiðar að vera þunnar og með hárri upplausn. Illkynja mein eru oftast óregluleg að lögun og útlínum, hafa lágt segulskin á T2 vigtuðum myndum. Upphleðslukúrfan sýnir hraða upphafshleðslu fylgt af hægri útskolun skuggaefnis ( Mynd 5). Góðkynja breyting eins og fibroadenoma er oftast velafmörkuð fyrirferð með hátt segulskin á T2 myndum. Upphleðslukúrfan sýnir sívaxandi upphleðslu (Mynd 5). Við mat á fyrirferðum vegur útlitið morphologiskt meira en upphleðslukúrfur, þannig er óregluleg illa afmörkuð fyrirferð talin illkynja óháð útliti upphleðslukúrfu. Almennt má segja að segulómun sé mjög næm við greiningu á ífarandi brjóstakrabbameini. Næmið er mun hærra en sértækið en það fer mjög eftir reynslu þeirra sem túlka rannsóknirnar.


#img 5 #Mynd 5
Upphleðslukúrfan hjálpar við mat á tumorum en mjög mikilvægt er að túlka
kúrfur í samhengi við hið morphologiska útlit.

Framkvæmd Landspítala
Á Landspitalanum við Hringbraut hafa segulómrannsóknir af brjóstum verið gerðar frá september 2006. Allar konur sem greinast með illkynja mein í brjósti er boðið í viðbótarrannsókn með segulómun. Þessi rannsókn er gerð til nánari kortlagningar á útbreiðslu tumorsins en einnig til að útloka tumor í hinu brjóstinu. Ekki liggja fyrir nýjar tölur um hversu oft seglómunin veldur breytingu á meðferðaráætlun en miðað við útkomu fyrstu mánuðanna getur það verið í um 5 % tilvika. Tímar í segulómun eru fráteknir fyrir þennan hóp 2 daga í viku. Er segulómrannsókn gerð 1-2 dögum eftir fyrstu komu konu til skurðlæknis en það er oftast vikuna fyrir aðgerð. Þá er tími til að framkvæma nauðsynlegar viðbótarrannsóknir ef segulómunin leiðir í ljós útbreiddari tumor en upphaflega var talið.

Þar sem ekki er um margar rannsóknir að ræða, um 2-8 á viku, hefur verið valið að hafa túlkun á segulómrannsóknum af brjóstum í höndum fárra og er það undirrituð Hildur Einarsdóttir og Halldór Benediktsson röntgenlæknar sem höfum haldið í þessar rannsóknir frá upphafi. Allir geislafræðingar á segulómun myndgreiningardeildar á Hringbraut hafa komið að þessum rannsóknum en þær Aðalheiður Jónsdóttir, Harpa Ágústsdóttir, Ragna Ragnarsdóttir og Steinunn Lindbergsdóttir hafa borið mesta þungann.

Hér er einungis um stutta lýsingu á segulómun af brjóstum að ræða, helstu ábendingar og framkvæmd á Landspítala. Fyrir þá sem vilja kynna sér þessar rannsóknir betur er bent á nýlega yfirlitsgrein eftir Dr. Christiane Kuhl er birt var í Radiology ágúst 2007. ( The current status of breast MR Imaging, Radiology 2007;244: 356-378) Sú grein er fyrsti hluti vandaðrar yfirferðar um tæknileg og klínísk vandamál við segulómun af brjóstum.

21.10.07 Hildur Einarsdóttir, röntgenlæknir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *