Segulómlaus Evrópa???


Á undanförnum árum hefur notkun tækja sem senda frá sér rafsegulbylgjur aukist gríðarlega í heiminum. Áður fyrr voru það nánast eingöngu sjónvörp og útvörp sem sendu frá sér slíkar bylgjur en í dag höfum við farsíma, örbylgjuofna og ýmis önnur raftæki sem þykja bráðnauðsynleg í nútíma samfélagi og varla nokkur getur verið án.

Reglugerðir um rafsegulbylgjur.
Árið 1999 sendi Evrópusambandið frá sér tillögur um takmarkanir rafsegulbylgna fyrir almenning, „Limiting public exposure to electromagnetic fields“, til að bregðast við þeirri auknu geislun sem öll þessi raftæki hafa í för með sér. Árið 2004 kom svo tilskipun 2004/40/EC um takmarkanir á vinnu starfsfólks sem vinnur við rafsegulbylgjur, sem getur haft mikil áhrif á þann þátt myndgreiningar sem snýr að segulómun. Upphaflega stóð til að tilskipunin tæki gildi árið 2008 en var síðan frestað til 30. apríl 2012.
Edda Aradóttir, Raförn með meiru, skrifaði tvo pistla um málið árið 2007, í ágúst og í nóvember, og hér er ætlunin að líta á hvernig staða þessa máls er í dag.

Alliance for MRI.
Á ECR 2007 var hleypt af stokkunum hóp sem kallast Alliance for MRI, og var baráttumál hans að fá tilskipuninni hnekkt eða að minnsta kosti breytt þannig að starfsemi á segulómtækjum myndi ekki skerðast, hvorki gagnvart þjónustu við sjúklinga né við rannsóknarstarf. Hópurinn hefur einnig lýst sig viljugan til samstarfs til að stuðla að starfsemi á segulómtækjum sé með sem öruggustum hætti, bæði fyrir starfsfólk og sjúklinga. Þegar ljóst varð að tilskipuninni yrði frestað til þess að hægt væri að afla meiri gagna, önduðu margir léttar og héldu að þar með væri hægt væri að leysa málið á skynsamlegan máta.

Viðbrögðin of hæg?
En til að gera langa sögu stutta þá gerast hlutirnir hægt í Brussel og nú er útlit fyrir að drög sem lúta að endurskoðun tilskipunarinnar, og til stóð að fara yfir í júní áður en ákvörðun yrði tekin um framhaldið, verði ekki tilbúin og því ekki hægt að afgreiða málið þá samkvæmt grein eftir Philip Ward ritstjóra Diagnostic Imaging Europe. Málið er því enn í sama farvegi og tekur tilskipunin gildi í apríl 2012 að óbreyttu.

Mikilvægt að fá tilskipun EU breytt.
Því er ljóst að það er töluverð vinna framundan til að fá tilskipuninni breytt þannig að vinna segulómfólks verði ekki takmörkuð eða stöðvuð að einhverju leyti. Eitt af því sem bent hefur verið á, er að verði tilskipunin að veruleika muni það þýða að aðrar rannsóknaraðferðir, svo sem tölvusneiðmyndir og ísótóparannsóknir, sem hafa í för með sér jónandi geislun fyrir sjúklinga, muni aukast til muna með tilheyrandi geislaskömmtum og þeirri áhættu sem þeim fylgir (burtséð frá augljósum kostum þeirra sem er ekki umræðuefnið hérna).

Undirskriftasöfnun í gangi.
Í desember sl. sendi Alliance for MRI frá sér fréttatilkynningu þar sem farið er fram á að vinna við segulómskoðanir verði undanþegin tilskipun Evrópuráðsins, þar sem þegar séu til reglugerðir um framkvæmdir segulómrannsókna og engar sannanir séu fyrir hendi sem segi að starfsfólk eða sjúklingar séu í neinni hættu sé þessum reglum fylgt.
Auk þess hefur verið hleypt af stokkunum undirskriftasöfnun þar sem hægt er að leggja lóð á vogarskálarnar í þessari baráttu. Hver sem er getur skrifað undir, en gæta ber að hægt er að skrifa undir bæði í eigin nafni sem og þeirrar stofnunar sem viðkomandi tilheyrir.

Það eru því áhugaverðir tímar framundan í þessu máli og eru allir hvattir til að fylgjast með á komandi mánuðum.

London, 21.02.2010.
Kristján Örn Jóhannesson
Geislafræðingur

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *