See My Radiology


Á árlegri ráðstefnu HIMSS (Healthcare Information and Management Systems Society) í apríl á þessu ári var kynnt ný þjónusta á vefnum, sem hægt er að tengjast í gegnum www,seemyradiology.com.
Þar geta einstaklingar innan Bandaríkjanna safnað myndum úr öllum myndgreiningarrannsóknum sínum á einn stað og veitt þeim læknum sem þeir vilja aðgang. Einnig er boðið upp á þjónustu fyrir lækna og sjúkrastofnanir, þ.e. öruggan aðgang að myndgögnum staða á milli, óháð því hvaða PACS kerfi er notað á hverjum stað.

Að baki SeeMyRadiology er fyrirtækið AccelaRAD en þar ræður ríkjum hópur sem fullyrðir að PACS sé liðin tíð og þeirra lausn í geymslu og aðgengi myndgreiningargagna sé sú eina sanna.
Ég ætla ekki að leggja dóm á það en vefsíða SeeMyRadiology er vel gerð og áhugaverð og gaman er að velta fyrir sér þessum möguleika, ekki síst í framhaldi af fréttum um fyrirhugaðan landsaðgang að myndgreiningargögnum hérlendis.

SeeMyRadiology er í hraðri þróun og verður nýjasta útgáfan kynnt á RSNA 2009, nú í lok nóvember. AccelaRAD ætlar að útvíkka þjónustuna, þannig að SeeMyRadiology bjóði það sama fyrir alla, óháð því hvar þeir búa í heiminum.

19.10.09 Edda Aradóttir ea@ro.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *