Margir hafa eflaust séð í síðustu viku litla grein á mbl.is í framhaldi af fréttatilkynningu frá menntamálaráðherra um mögulega sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Þetta er nýtt innlegg í vangaveltur um hvar námsbraut í geislafræði sé best borgið í framtíðinni.
Fréttaklausu um þetta er að finna á vefsetri THÍ og sama klausa birtist á vefsetri HR sama dag, 23. ágúst. Þreifingarnar eru greinilega enn á því stigi að sem minnst er látið uppi en spennandi verður að sjá hverju fram vindur. Enn er ekki búið að taka deildarforseta inn í þessa vinnu og aðspurður sagðist dr. Brynjar Karlsson, deildarforseti heilbrigðisdeildar THÍ, ekki geta sagt neitt um hvernig þetta gæti litið út gagnvart heilbrigðisdeildinni, að svo stöddu.
Eins og fram kom í fundargerð frá aðalfundi Félags geislafræðinga, sem haldinn var 18. mars á þessu ári, mun nefnd á vegum félagsins skoða alla möguleika varðandi framtíðarstaðsetningu námsbrautar í geislafræði, og taka formlega ákvörðun um hvaða leið FG styður að farin verði. Formaður félagsins, Katrín Sigurðardóttir, telur möguleika á sameiningu THÍ og HR einungis nýjan flöt á því sem nefndin þarf að kanna en breyti engu hvað varðar nefndina sjálfa, tilgang hennar og störf.
Það er orðið langt síðan umræðan um framtíð námsbrautar í geislafræði var sem heitust, í framhaldi af uppsögn Ernu G. Agnarsdóttur um áramót 2002 – 2003. Framvinda mála á þeim tíma olli miklu uppnámi meðal myndgreiningarfólks og flestir voru þeirrar skoðunar að námi í geislafræði væri betur borgið hjá Háskóla Íslands en Tækniháskólanum.
Talsvert var fjallað um málið hér á vefsetrinu, t.d. í fókusgrein þann 16. desember 2002.
Þegar öldurnar lægði og geislafræðinámið hélt áfram af krafti við THÍ urðu skoðanirnar skiptari og a.m.k. meirihluti fundarmanna á aðalfundi FG vildi skoða málið á sem hlutlausastan hátt áður en ákvörðun yrði tekin um framhaldið.
Hvaða skoðanir hefur myndgreiningarfólk á þessu núna?
Breytir möguleikinn á sameiningu THÍ og HR ekki talsverðu?
Á geislafræði, og reyndar heilbrigðisdeildin öll, nokkurt erindi í skóla sem þar til fyrir skömmu hét Viðskiptaháskólinn í Reykjavík og er rekinn af Sjálfseignarstofnun Verzlunarráðs Íslands um viðskiptamenntun (SVÍV)?
Eða er ef til vill auðveldara og betra að ná fótfestu fyrir deildina í ungum og framsæknum skóla, þar sem tölvu- og upplýsingatækni er í fyrirrúmi, heldur en að þurfa að hasla sér völl innan hinnar rótgrónu og ef til vill íhaldssömu læknadeildar HÍ?
Hvað fleira kemur upp í hugann?
Ég skora á myndgreiningarfólk að velta þessu fyrir sér og senda ritstjóra Arnartíðinda línu um skoðanir sínar.
30.08.04 Edda Aradóttir.
edda@raforninn.is