Sameindamyndgreining.


Síaukinn áhugi á sameindamyndgreiningu.

Sameindamyndgreining fór að vekja athygli Landspítalafólks fyrir alvöru árið 2003 og þá var haldinn kynningarfundur um efnið í samvinnu við framleiðendur. Formlega var byrjað að kanna þörf og möguleika LSH árið 2004 en á þeim tíma var áhugi kliniskra lækna ekki mikill og framgangur var lítill. Áhugi lækna hefur farið mjög vaxandi undanfarin ár og bæði þess vegna og í sambandi við undirbúningsvinnu við nýtt sjúkrahús hefur verið lögð meiri áhersla á þetta mál.

Óskað eftir fjárheimildum
Pétur er í hópi þeirra sem hafa kynnt sér tæknina og starfsemina í öðrum löndum. Skýrslu hefur verið skilað til framkvæmdastjórnar um þörf á sameindamyndgreiningu á Íslandi og hvað þurfi til þess að notkun tækninnar á LSH verði að veruleika. Framkvæmdastjórn hefur óskað eftir fjárheimildum til þess að setja starfsemina á stofn. Um er að ræða mjög umfangsmikið verkefni sem kostar umtalsverða fjármuni og undirbúning. 

Metnaðarfull vinna vegna nýs spítala.
Það er gert ráð fyrir framleiðslu merkiefna og tveim tækjum á röntgendeild nýs sjúkrahúss. Hefur þar verið farið fram af fullum metnaði en ekki er ljóst hvenær nýr spítali rís. Þar sem þegar er þörf fyrir sameindamyndgreiningu á Íslandi eru skoðaðar leiðir til þess að hefja starfsemi áður en nýi spítalinn verður risinn.

Leitað lausna til að hefja starfsemi fyrr.
Tveir möguleikar eru í umræðunni: Annars vegar að byggja yfir merkiefnaframleiðsluna í kjallara fyrirhugaðs spítala töluvert fyrr en kemur til annara verklegra framkvæmda og hins vegar að byggja yfir framleiðsluna og tæki til sameindamyndgreiningar í bráðabirgðahúsnæði á spítalalóðinni. Það húsnæði yrði nýtt í u.þ.b. fimm ár eða þar til önnur starfsemi hefst á nýjum spítala. 

Tekið saman eftir upplýsingum frá Pétri H. Hannessyni.
09.06.08 Edda Aradóttir
edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *