Fyrir lesendur Arnartíðinda þarf ekki að hafa mörg orð um þá hröðu framþróun sem hefur átt sér stað í myndgreiningu í gegnum tíðina. Allar stærri myndgreiningardeildir á Íslandi hafa á ótrúlega skömmum tíma, í mismiklum mæli þó, væðst stafrænum búnaði. Að minnsta kosti ein myndgreiningadeild hefur náð svo langt í stafrænni væðingu að filmuframköllun og prentun á filmur hefur alfarið verið hætt og að auki hefur deildin náð settum markmiðum um pappírslaust starfsumhverfi.
Framleiðslugeta myndgreiningadeilda hefur snaraukist ekki síst fyrir tilstuðlan hraðari myndatökutækja (sbr. þróun fjölsneiða TS og MR) og sjálfvirks stafræns gagnaflutnings og gagnageymslu. Þó svo að sjúkdómsgreining með tölvum (e. CAD – Computer Aided Diagnosis) hafi í meira en áratug verið til í einhverri mynd þá er það ekki fyrr en um þessar mundir sem sú tækni virðist vera að ná einhverri festu í almennri myndgreiningu ekki síst sem afleiðing snaraukinnar framleiðslu gagna á sama tíma sem brautskráning röntgenlækna hefur ekki aukist í neinu samræmi. Víða erlendis hafa geislafræðingar hlaupið undir bagga og stunda úrlestur mynda ásamt framkvæmd rannsókna sem venjulega hafa verið í höndum röntgenlækna, að sjálfsögðu eftir að hafa fengið sérstaka þjálfun, oft eftir langt sérnám.
Hlutverk myndgreiningar hefur einnig aukist og nær yfir víðara svið en áður. Myndgreining er ekki lengur einskorðuð við að auga nemi líffærafræðilegar breytingar á myndum, beita má tækni til að ná til virkni og lífeðlisfræði vefja (sbr. PET og fMRI) og greina byrjandi sjúkdóma á sameindastigi. Þetta síðastnefnda er kallað sameindamyndgreining (e. Molecular Imaging) sem sumir vilja meina að sé næsta gjörbylting í læknavísindum og muni sannarlega hafa mikil áhrif á alla myndgreiningu.
Í stuttu máli er sameindamyndgreining notuð til mæla og greina líffræðilegar breytingar á frumu – eða samendastigi í líkamanum. Í blóðrás er sprautað virku efni, gjarnan með joðskuggaefni eða gadolinium-skuggaefni sem leitar uppi ákveðnar frumur, þar sem t.d. byrjandi sjúkdóm er að finna, og hengir sig á þær. Líffærafræðileg staðsetning sjúkdómsins er svo mynduð með MRI, PET, TS eða PET saman með TS. Einnig er hægt að nota tæknina í beinum meðferðartilgangi sem þá felst í að virka efnið sem sprautað er í blóðrás innihaldi lyf sem hengi sig á sjúkar sameindir. Helsti ávinningur sameindamyndgreiningar er uppgötvun og greining sjúkdóms á byrjunarstigi og jafnvel lækning sjúkdóms áður en líffærafræðilegar breytingar eiga sér stað, áður en sjúklingur fær einkenni. Þrátt fyrir að tæknin sé afar ung þá hefur hún á skömmum tíma sannað ágæti sitt og þykir lofa góðu í greiningu á nokkrum tegunda krabbameina og einnig í greiningu á Alzheimers – og kransæðasjúkdómum. Eiginleikar tækninnar að uppgötva sjúklegar breytingar áður en sjúklingar fá einkenni er talin leiða til gríðarlegrar fjölgunar myndgreiningarrannsókna á næstu árum vegna skimunar t.d. á vel afmörkuðum hópum fólks sem hefur aukna áhættu á að þróa með sér krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma svo eitthvað sé nefnt.
Þó svo að við á íslandi höfum ekki orðið var við þessa nýju tækni sem heitið getur enn sem komið er þá verður þess varla lengi að bíða. Ekki síst í ljósi myndgreiningariðaðarins og markaðarins sem hefur heldur betur tekið við sér. Búist er við að samruni sameindamyndgreiningar við líffærafræðilega-myndgreiningu muni búa til markað sem nái 10 miljörðum dala fyrir ár 2007. Í þessu sambandi má einnig nefna kaup General Electrics Medical Systems (GEMS) á Nycomed-Amersham í lok árs 2002 sem gerð voru með það fyrir augum að vinna GEMS forskot á sameindamyndgreiningarmarkaðinum með því að geta samtvinnað lyfjaþróun og framleiðslu sérhæfðara myndgreiningartækja. Siemens Medical brást einnig skarpt við og keypti CTI fyrirtækið um mitt þetta ár sem fram að kaupunum hafði verið með stærsta heimsmarkaðshlutdeild á PET-TS tækjum. Þrálátur orðrómur hefur verið um að Siemens ætli sér að taka yfir Schering lyfjafyrirtækið sem ásamt Amersham hafa um 90% hlutdeild á skuggaefna–heimsmarkaðinum. Það er ljóst að sameindamyndgreining mun hafa mikil áhrif og það fyrr en seinna á myndgreiningarstarfsemi.
Um er að ræða nýja rannsóknaraðferð í ótrúlega hröðum vexti og aftur og enn verður fagfólk í myndgreiningu að tileinka sér ný fræði og nýja tækni. Það er ekki síst mikilvægt að stjórnendur námsbrauta fyrir myndgreiningarstarfsemi eins og t.d. geislafræði fylgist vel með nýjungum sem þessum svo aðlaga megi námið strax á grunnstigum. Fram að þessu hefur ekki þótt mikilvægt að kunnátta geislafræðinga á lífefnafræði og lyfjafræði sé upp á marga fiska enda hefur lítið farið fyrir þeim fögum í geislafræðinámi. Nú er hinsvegar fyrirsjáanlegt að gerð verði aukin krafa um kunnáttu í umræddum fögum og því mikilvægt að draga þau inn í námsbrautina. Hin hraða tækniþróun í myndgreiningu og ör innkoma nýjunga almennt undirstrikar mikilvægi þess að námsbrautir og fagfélög vinni saman svo að aðlaga megi nám á grunnstigum og endurmenntun að nýrri tækni. Ákjósanlegt væri ef viðkomandi aðilar stofnsettu sameiginlegan rýnihóp sem hittist reglulega til að reyna að sjá fyrir nýjungar sem gera kröfu til breytinga í námi.
22.08.05 Sigurður Sigurðsson, geislafræðingur.
Heimildir
Chip Reubens, “Molecular Imaging; What Radiologists need to know”, Decisions in Imaging Economics, Nov 2002.
Mahoney David, “Molecular Imaging Market Outlook” Decisions in Imaging Economics, May 2005, http://www.imagingeconomics.com