Undanfarið hafa Arnartíðindi mikið fjallað um fjargreiningu og lagt áherslu á möguleika sem nýjasta tækni býður okkur upp á. Fjargreining á Íslandi varð þó ekki til á einni nóttu og er bæði ljúft og skylt að geta forsögu málsins.
Að fortíð skal hyggja…
Ásmundur Brekkan, prófessor emeritus, birti fyrir nokkru mjög áhugaverða grein, hér á vefsetrinu, um fyrstu skref fjargreiningar. Það er full ástæða til að vekja athygli á henni aftur, nú þegar fjargreining er svo mikið í sviðsljósinu.
Fyrstu skref fjargreiningar – Ásmundur Brekkan
Í framhaldi af greininni má einnig benda á stutt innlegg sem Ásmundur sendi ritstjóra Arnartíðinda fyrir skömmu, þegar ákveðið var að setja forsögu fjargreiningar í fókus:
„Vitanlega var hér aðeins um að ræða analog, beina myndyfirfærslu á sama hátt og var þegar búið að setja upp í nothæf kerfi bæði í Noregi og að einhverju leyti í Svíþjóð, og raunar á nokkrum stöðum vestanhafs. Framhaldið var síðan planað og á eftir Vestmannaeyjum áttu að koma annarsvegar Neskaupstaður og hinsvegar Sauðárkrókur; síðastnefndi átti þá að tengjast Akureyri. Neskaupstaðartengingin varð að raunveruleika og var talsvert mikið notuð, en fjármagn náðist ekki fyrir Sauárkróksprojektinu í þeirri lotu.
Meðan á þessu stóð var digitaltæknin að blússa fram, og vorum við Þorgeir komnir með hugmyndir um digital-röntgenstofur a.m.k. á þrem stöðum, Selfossi, Egilsstöðum og Sauðárkróki, með beina tengingu á Reykjavík, resp. Akureyri, eins og raunar nú er orðið. Þetta er þannig í beinu og rökréttu framhaldi af þeirri þróun, sem við hófum fyrir hálfum öðrum áratug, og hið besta mál, en ef gleymist að geta forsögunnar, þá svífur allt í lausu lofti!“
Unnið 26.09.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is