Saga Félags ísl. röntgenlækna

Á hátíðarfundi Félags íslenskra röntgenlækna rakti Örn Smári Arnaldsson sögu félagsins. Hann sendi Arnartíðindum glærur frá fundinum og bætast þær við flokkinn “Saga myndgreiningar”. Að auki birtist hér örstuttur útdráttur úr erindi hans.

Stórhugur allt frá byrjun
Örn Smári rakti söguna í fimm hlutum sem tóku yfir tíu ár hver.  Athygli vekur að á stofnfundinum þann 6. okt. 1957 var rætt um verkefni félagsins og aðstöðu gagnvart erlendum félögum og alþjóðasamtökum. Tilefni félagsstofnunar var m.a. það að koma fram gagnvart öðrum röntgenlæknafélögum og á alþjóðafundum. Þetta sýnir stórhug röntgenlækna þess tíma þó greinin væri enn lítil og félagsmenn fáir.

Metnaðarfullt fræðslustarf
Á öðrum áratug félagsins komu fræðslufundir inn í starf þess og voru þeir haldnir á tveggja vikna fresti. Þetta hefur verið mikið fræðslustarf sem sýnir bæði dugnað, framsýni og að félagsmenn hafa haft góðan tíma á þessum árum. Síðan var fræðslufundum fækkað og voru “einungis” haldnir mánuðarlega.

Heiðursfélagar
Örn Smári tilgreindi þá sem félagið hefur heiðrað og var fyrsti heiðursfélaginn, Gísli Petersen, kjörinn árið 1979. Næsti heiðursfélagi var Brian Worthington, röntgenlæknir og mikill Íslandsvinur, valinn 1986. Árið 1993 var það Kolbeinn Kristófersson en árið 1995 bættust tveir heiðursfélagar við, Ásmundur Brekkan og Henrik Linnet.
Núna, á fimmtíu ára afmæli félagsins, var Örn Smári Arnaldsson kjörinn heiðursfélagi.

Merki félagsins
Sigurður Sigurjónsson, röntgenlæknir, hefur hannað tvö merki fyrir félagið, það síðara var samþykkt árið 2003 og er það núverandi merki félagsins.

Skyldur aukast
Þegar litið var yfir fjölda funda þá fækkaði fundum á síðustu 10 árum miðað við fyrri árin og þeir færðust frá stofnununum og á hina ýmsu staði í borginni. Líklegt má telja að þarna sé um að ræða tímanna tákn, allir hafa minni tíma og meiri skyldur.

Örn Smári fær kærar þakkir fyrir aðganginn að efni hans. 
12.11.07 Edda Guðbjörg Aradóttir 
edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *