S-Kreatínín – Breytt viðmiðunarmörk

Fyrsta nóvember síðastliðinn tóku öll Norðurlöndin upp sameiginleg viðmiðunarmörk fyrir serum-kreatínín. Þetta breytir útreikningi á kreatinin-úthreinsun (clearance) og Omnivis reikniforritið er ónothæft eins og er. Það verður uppfært fljótlega. Nýju gildin eru þegar komin inn í Gæðavísi.

Undanfarin ár hefur verið unnið að því verkefni á vegum Norrænu meinefnafræði-samtakanna (NFKK, Nordisk förening för klinisk kemi) að staðla aðferðir, skilgreina og innleiða samnorræn viðmiðunarmörk fyrir 25 algengustu rannsóknirnar í klínískri lífefnafræði hjá fullorðnum. Eitthundrað og tvær rannsóknarstofur á Norðurlöndunum tóku þátt í þessu verkefni, þar af þrjár á Íslandi.
Samtímis hefur viðmiðunaraðferð fyrir mælingu á kreatíníni verið breytt. Notuð var svokölluð Jaffé aðferð, en tekin verður upp ensímatísk aðferð. Hún gefur nokkuð lægri kreatíníngildi og breytast því viðmiðunarmörk.

Eins og fram kom í grein Viktors Sighvatssonar, röntgenlæknis, sem birtist hér á vefsetrinu fyrir ári, er mikilvægt að gera sér grein fyrir kreatínín-úthreinsun sjúklings áður en hann fær skuggaefni í æð. Í þeim útreikningum er serum-kreatínín gildi nauðsynlegt og því augljóst að breytingar á því krefjast breytinga í útreikningunum.
Omnivis reikniforritið, sem víða er notað við útreikning á kreatínín-úthreinsun, miðar við eldri mörk og er því ónothæft að svo stöddu. Það verður uppfært fljótlega og má beina fyrirspurnum þar að lútandi til Viktors (viktors@islandia.is). 

Dagný Sverrisdóttir, geislafræðingur, hefur þegar uppfært Gæðavísi og eru réttu gildin komin inn, ásamt öllum upplýsingum um hvaðan þessi nýju gildi koma (sjá skuggaefniskafla 3.4)
Formálinn og kafli 3.15 eru í endurskoðun og verða uppfærðir eins fljótt og kostur er.

Tilkynningar um nýju viðmiðunarmörkin voru sendar út strax í nóvember, meðal annars frá Rannsóknadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og Klínískri lífefnafræðideild Landspítala – Háskólasjúkrahúss. Það virðist þó sem ekki sé öllu myndgreiningarfólki kunnugt um breytinguna og því er mikilvægt að þeir sem lesa þetta deili upplýsingunum meðal vinnufélaga.

30.01.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *