S A R S


Mikið er rætt um SARS (Severe Acute Respiratory Syndrome) þessa dagana. Enn hefur enginn greinst með sjúkdóminn hérlendis en myndgreiningarstarfsfólk gæti þurft að gera rannsóknir vegna gruns um hann. 

Vinnureglur
Á flestum sjúkrastofnunum hafa verið settar upp reglur varðandi umgengni við þá sem mögulega gætu verið með SARS. Þær byggja á leiðbeiningum frá Landlæknisembættinu en hver stofnun um sig lagar þær að sínum aðstæðum. Á vefsetri Landlæknisembættisins er talað um „Heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu“ og notuð skammstöfunin HABL.

Meginþunginn á LSH 
Reiknað er með að allir sem grunur er um að séu með SARS leggist inn á Landspítala – Háskólasjúkrahús. Þeir sem leita á aðrar sjúkrastofnanir verða skoðaðir þar og sendir á LSH ef ekki er hægt að útiloka sjúkdóminn. Greiningin byggir meðal annars á röntgenmynd af lungum (og/eða mögulega tölvusneiðmyndum) og starfsfólk í myndgreiningu þarf því að kynna sér gildandi vinnureglur.
Á vefsetri LSH eru nákvæmar upplýsingar frá sýkingavarnadeild þeirrar stofnunar.

Myndgreining og SARS

Á vefsetri Prince of Wales Hospital í Hong Kong hefur verið sett upp talsvert af góðu efni varðandi myndgreiningu og SARS, unnið í samvinnu við Hong Kong háskóla. Þar má meðal annars sjá lungnamyndir og tölvusneiðmyndir sem sýna sjúklegar breytingar.

Nýjustu upplýsingar hjá WHO
Alþjóða heilbrigðisstofnunin (World Health Organization) gefur nýjustu upplýsingar á vefsetri sínu, meðal annars hvaða svæði heimsins teljast „sýkt“ hvað varðar SARS.

Hugað að heilbrigðisstarfsmönnum erlendis
SARS hefur þegar greinst í 25 löndum og í Toronto eru heilbrigðisstarfsmenn taldir helmingur þeirra sem sýkst hafa. Í síðustu viku komu þangað sérfræðingar frá Centers for Disease Control and Prevention til að vinna sérstaklega að öllu því sem dregið getur úr áhættu fyrir heilbrigðisstarfsmenn.

Lítil hætta hérlendis

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi er öflug og því vonandi auðvelt að hefta útbreiðslu SARS þó sjúkdómurinn haldi innreið sína. Allt heilbrigðisstarfsfólk hérlendis ætti því að hafa tilvist SARS í huga, án þess að hafa of miklar áhyggjur.

28.04.03  Edda Aradóttir.     

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *