Í næstu viku fer fólk að hugsa sér til hreyfings á RSNA 2010 sem hefst 28. nóvember. Á dagskránni eru 2767 atriði þannig að enginn ætti að vera í vandræðum með að finna ýmislegt á sínu áhugasviði. Öryggi sjúklinga er mikilvægur þáttur í starfi myndgreiningarfólks eins og annarra heilbrigðisstarfsmanna og skynsamlegt að leita eftir efni um það á RSNA.
Ef horft er á þann tíma sem sjúklingurinn er á myndgreiningardeildinni koma tvö mikilvæg atriði varðandi öryggi hans fyrst upp í hugann: Geislavarnir og notkun skuggaefna í æð.
Geislavarnir
Allt myndgreiningarfólk er meðvitað um áhættuna sem fylgir jónandi geislun. Reglur um geislavarnir eru vel aðgengilegar, t.d. í Gæðavísi, og okkur er tamt að nota margar þær vinnuaðferðir sem halda geislaálagi á sjúklinga eins lágu og unnt er.
CT rannsóknir
Geislaálag af CT rannsóknum hefur verið efst á baugi nokkuð lengi, í samhengi við aukna notkun þeirra, þá staðreynd að CT “ber ábyrgð á” um 50% af geislaálagi í læknisfræðilegri myndgreiningu og nýleg dæmi frá Bandaríkjunum um allt of háa geislaskammta á sjúklinga.
Það er því úr nógu að velja fyrir myndgreiningarfólk sem vill sækja sér aukna þekkingu á geislavörnum í CT á RSNA 2010.
Hér eru þrjú dæmi:
SSA20 SESSION: Physics (CT Dose Modulation)
Röð kynninga á rannsóknum varðandi geislaskammta af CT rannsóknum. Útreikningar á geislaálagi á sjúklinga og aðferðir við að minnka það.
RC332 SESSION: Update Course in Diagnostic Radiology Physics: CT and MR Imaging—Dose Considerations
Fyrirlestraröð um útreikninga á geislaskömmtum, mat á hvað er eðlilegt og hvað er of mikið og aðferðir við að lækka þá. Virtir fyrirlesarar á ferð, þ.á.m. Willi Kalender.
RC324 SESSION: Practical Approach to Optimizing Radiation Dose for Body CT
Fyrirlestraröð þar sem farið er nákvæmlega í aðferðir við að minnka geislaálag við ákveðnar CT rannsóknir. Ætti að skila þeim sem á hlýða þekkingu til að bæta „prótókollana“ sína þegar heim kemur.
Einnig má nefna herferðirnar Image gently, sem lesendur Arnartíðinda kannast við, og Image wisely sem snýr að fullorðnum einstaklingum og fer af stað nú á næstu dögum. Þær, og ýmislegt tengt geislaálagi í CT, eru til umfjöllunar í tveim fyrirlestrum:
SSK14 SESSION: Pediatrics (Image Gently and DOSE Reduction)
SI22 SESSION: Current Issues in Radiation Safety
Almennar röntgenrannsóknir
Við megum samt ekki gleyma því að þó helmingurinn af geislaálagi í læknisfræðilegri myndgreiningu komi til af CT rannsóknum þá er hinn helmingurinn eftir. Þegar almennar röntgenrannsóknir urðu stafrænar jókst hætta á ofskömmtun því að, upp að vissu marki, eykur það bara myndgæðin að hækka tökugildin og með myndvinnslu er mögulegt ná fínustu myndum út úr því sem “í gamla daga” hefði orðið kolsvört filma.
Rannsóknir hafa sýnt talsvert skammtaskrið (dose creep) í stafrænu umhverfi og gagnlegt getur verið að lesa grein eftir Guðlaug Einarsson, hjá Geislavörnum ríkisins, í því samhengi.
Á þeim hluta RSNA sem kallast “Educational Exhibits” er alltaf margt að skoða og það er áreiðanlega þess virði að finna sýninguna:
LL-PPE3111 How to Save Your Patient? Consideration of Overdose Problem in Digital Radiography and Dose Reducing Strategy.
Í dagskránni er einnig flokkur sem kallast “Quality Storyboards” og einn af fyrirlestrunum í þeim flokki er frásögn af skipulögðum endurbótum á vinnuferli við rekkjumyndatökur um leið og breytt var úr filmuumhverfi yfir í stafrænt. Þó öll myndgreining á Íslandi sé orðin stafræn er umfjöllunarefnið er áhugavert vegna þess að það undirstrikar möguleikana á að nota breytingar sem drifkraft í endurbótum.
LL-QSE3076-SUB A Fundamental Approach to Improved Efficiency of Bedside Radiography: Converting from Analog to Digital
Notkun skuggaefna í æð
Áhætta af notkun skuggaefna í æð er ekki jafn ofarlega í huga myndgreiningarfólks og áhætta af geislun. Meðal annars vegna þess að skaðsemi geislunar uppgötvaðist fljótt eftir uppgötvun geislanna sjálfra og hefur fylgt okkur alla tíð en áhætta af skuggefnanotkun er nýrri. Hættur af notkun skuggaefna hafa einnig tekið breytingum með þróun þeirra og fleiri hættur hafa uppgötvast eftir því sem fleiri rannsóknir á áhrifum efnanna eru gerðar.
Skuggaefnisviðbrögð sem líkjast ofnæmisviðbrögðum og geta verið lífshættuleg hafa verið þekkt frá því byrjað var að nota joðskuggaefni og varúðarráðstafanir vegna þeirra eru vel skilgreindar. Með nútíma skuggaefnum eru þessi viðbrögð orðin sjaldgæf.
Skuggaefnisorsökuð nýrnabilun (Contrast Induced Nephropathy) er hætta sem oft er ósýnileg og hefur verið að koma fram í dagsljósið undanfarin ár. Mikilvægasta vörnin gegn henni er að reikna út hæfilegan skammt skuggaefnis fyrir hvern sjúkling áður en það er gefið.
Á gæðaráðstefnu Rafarnarins árið 2009 flutti Viktor Sighvatsson, röntgenlæknir, ítarlegan fyrirlestur um þetta efni. http://www.raforninn.is/w/user/document/view/11/207
Á RSNA verður m.a. hægt að hlýða á röð kynninga á nýjustu rannsóknum varðandi skuggaefni og nýrnastarfsemi. Þar má nefna rannsóknir á lyfjum og aðferðum sem mögulega geta komið í veg fyrir nýrnabilun af joðskuggaefnum, gildi fyrirbyggjandi lyfjameðferðar (premedication) hjá sjúklingum sem hafa áður fengið væg viðbrögð við joðskuggaefnum, mat á áhættu fósturs þegar móður er gefið gadolinium skuggaefni og margt fleira.
SSA09 SESSION: Genitourinary (Contrast Agents and Renal Function)
Ein sýning í “Educational Exhibits” hlutanum snýst um notkun mismunandi eininga á umbúðum um skuggaefni og gæti verið þess virði að skoða. Þarna virðist vera á ferðinni skólabókardæmi um kerfisgalla sem býður upp á „mannleg mistök“.
LL-PPE4100 Labeling of Contrast Agent Containers: A Potential Source of Confusion and Error
Aðrir þættir sjúklingaöryggis
Öryggi sjúklinga ræðst að sjálfsögðu af fjölda annarra þátta. Til dæmis að lesið sé úr öllum rannsóknum og þar fáist réttar niðurstöður sem skila sér á réttum tíma á rétta staði og verða upp frá því auðveldlega aðgengilegar fyrir alla sem þurfa á þeim að halda.
Þar kemur upplýsingatæknin inn og sem dæmi um efni á RSNA sem gæti hentað flestu myndgreiningarfólki, ekki eingöngu tæknimönnum og tölvugúrúum, má nefna:
II41 SESSION: Next Generation IT Requirements for Improving Quality and Safety for Radiology
RC830 SESSION: Using Information Technology to Improve Quality and Safety (Informatics: Advances)
Nánari upplýsingar á vefsíðu RSNA 2010
Til að finna nánari upplýsingar um dagskrárliði sem hér hafa verið nefndir er hægt að nota leit í dagskránni á vefsíðu RSNA 2010 og setja númerin sem eru feitletruð í textanum í leitargluggann “Search Events”. Gætið að því að hreinsa síu (Clear All Filters) áður en næsta leit er gerð.
15.11.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is