Höfum ekki efni á að láta fólk sitja heima.
#img 1 #Nú eru ekki nema tveir mánuðir þar til RSNA 2009 hefst í Chicago, með öllum sínum óteljandi möguleikum til þekkingaröflunar. Víst kostar peninga að sækja ráðstefnuna en staðreyndin er að myndgreiningarstaðir hafa ekki efni á að láta sitt fólk EKKI sækja símenntun þangað sem hún býðst best. Það er lífsspursmál að viðhalda faglegri þekkingu og metnaði, annars koðnar fagið niður í dapurlegt fen svartsýni og niðurskurðar.
Framúrskarandi kostar ekki meiri peninga en þokkalegt.
Heilbrigðisþjónusta kostar peninga. Framúrskarandi heilbrigðisþjónusta kostar ekkert meiri peninga en þokkaleg heilbrigðisþjónusta. Munurinn felst í menningu vinnustaðanna. Þar sem starfsfólkið hefur skilið og tileinkað sér gæðahugsun og hegðun vill það sífellt gera betur, sem skilar sér í framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini.
#img 2 #
Ég minni á að viðskiptavinir myndgreiningarstaða eru bæði sjúklingarnir og læknarnir sem senda þá til okkar, ásamt ýmsum öðrum, t.d. starfsfólki annarra deilda innan sjúkrahúsa og aðstandendum sjúklinganna.
Sparnaður sem brennir peningum.
Þar sem gæðahugsun er látin víkja fyrir misskildum sparnaði og einungis hugsað um að klára rannsóknir dagsins með sem fæstu starfsfólki og minnstum kostnaði fær starfsfólkið aldrei tækifæri til að tileinka sér það sem þarf til að veita framúrskarandi þjónustu. Það sem verra er, það langar ekki vitund til þess!
#img 4 #Starfsfólk sem fær tíma til að sinna gæðavinnu og símenntun getur haldið í og aukið faglegan metnað sinn og öðlast meiri starfsánægju og lífsfyllingu. Það skilar auknum afköstum og vandaðri vinnubrögðum… fyrir sama kaup!
Tíminn er peningar, mikið rétt, en að gefa fólki tíma fyrir gæðavinnu snýst um skipulagningu daglegrar vinnu, ekki fleiri stöðugildi.
Ég minni á að starfsfólk, í þessu tilviki starfsfólk myndgreiningarstaða, eru allir sem tilheyra staðnum. Eigendur, stjórnendur, læknar, geislafræðingar, geislaliðar/aðstoðarfólk, ritarar, o.s.fr.
Rangur staður fyrir niðurskurð.
Allir finna fyrir vonleysi þessa dagana og allir þurfa að skera niður, en við verðum að skera á réttum stöðum og símenntun er rangur staður fyrir niðurskurð. Ég hvet allt myndgreiningarfólk til að láta svartsýnina lönd og leið, líta í fullri alvöru á dagskrána á RSNA 2009 og gera upp við sig hvort það sé ekki full ástæða til að sækja ráðstefnuna. Þema RSNA þetta árið er Quality Counts, nákvæmlega það sem ekki má gleymast í öllum sparnaðinum.
#img 3 #Söfnum sem flestum nöfnum á lista Arnartíðinda.
Þetta árið stendur ráðstefnan yfir frá 29. nóvember til 4. desember. Nokkrir eru þegar ákveðnir í að fara og árlegur listi Arnartíðinda yfir íslenska þátttakendur á RSNA er í smíðum. Allir sem ætla að drífa sig til Chicago og komast í nánari kynni við gæðahugsunina eru hvattir til að láta ritstjórann vita, með pósti á ea@ro.is eða í síma 860 3748.
21.09.09 Edda Aradóttir ea@ro.is