RSNA 2009 – Einfríður Árnadóttir


Eftir nokkra umhugsun var ákveðið að haldið skyldi á RSNA í ár þrátt fyrir slæmt þjóðfélagsástand. Þegar ljósum prýdd Chicago tók á móti okkur í blíðskaparveðri hurfu áhyggjurnar af kreppunni um stund og við nutum lífsins. Alltaf er Chicago jafn dásamleg.

Læknar undrandi á nytsemi gæðastaðla.
Mikið var talað um gæði, og byrjaði Gary J Becker forseti RSNA strax á setningu ráðstefnunnar að ræða gæðamál og mikilvægi þess að mæla árangur.
Hann tók lyflækna sem dæmi um lækna sem álitu sig ekki þurfa á gæðahandbók að halda þar sem þeirra sjúklingar hefðu það bara gott, en þessi og fleiri læknahópar tóku þátt í rannsókn þar sem stuðst var við notkun gæðastaðals í klíniskri vinnu. Eftir nokkurn tíma urðu þessir læknar hissa á gloppunum í sinni klínísku vinnu og 73% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni breytti til í sínum praxis og hóf notkun gæðastaðla.

Becker lagði áherslu á þá staðreynd að það sem maður mælir ekki veit maður ekkert um og það sem maður veit ekkert um getur maður ekki bætt

Ófullnægjandi heilbrigðiskerfi.
Hann kvað bandarísku þjóðina hafa vaknað til lífsins fyrir nokkru og gera sér grein fyrir umfangi mistaka í heilbrigðisþjónustunni og þjóðin líði ekki frekari sóun. Hún þoli ekki lélega þjónustu og kann ekki að meta kerfi sem ekki aðeins þjónar henni á ófullnægjandi máta heldur miðist við þarfir veitenda heilbrigðisþjónustunnar. Almenningur eigi betra skilið.

Becker vitnaði mikið í bókina “To Err is Human – building a safer health system” en hún kom út fyrst árið 2000. Undirtitill bókarinnar er “First, do no harm”. Í þeirri bók er greint frá því að 98000 manns deyja árlega af völdum mistaka í heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum og að það er meira en í bílslysum, af völdum brjóstakrabbameins eða alnæmis, sem eru mest umtöluðu dánarvaldar þar vestra. Bókin rýfur þagnarmúrinn um þetta efni án þess að benda á sökudólga hjá heilbrigðisstéttum sem gera mistök, því það er mannlegt að skjátlast.
Hér sé ekki um að ræða vont starfsfólk sem slær slöku við heldur að hér sé gott starfsfólk sem er að vinna í kerfi sem ekki er nógu öruggt og skilvirkt. Síðan fjallar bókin um hvernig hægt er að byggja upp öruggara og skilvirkara kerfi og leiðir til að koma auga á hætturnar. 

Forystuhlutverk myndgreiningar.
Becker áleit að myndgreining léki aðalhlutverk í uppbyggingu á gæðaþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Að myndgreiningarfólk verði að standa vörð um fagleg vinnubrögð
Bók þessi er hin áhugaverðasta og létt aflestrar og ráðlegg ég myndgreiningafólki að lesa hana. Ég veit ekki hvernig þessum málum er háttað hér á Íslandi en alltaf má gera betur.


Ég fór á marga góða fyrirlestra: 

Femoroacetabular impingment: Áhugavert er að fylgjast með þróun myndgreiningar í mjöðmum. Impingement í öxlum hefur verið mikið áhugasvið hjá mér og nú get ég hellt mér í impingment í mjöðmum ekki ónýtt það. Þar er líka rotator cuff og hvaðeina.
Hér var fjallað um hið mismunandi form mjaðmakúlunnar og skálarinnar sem orsakavald í þróun slitbreytinga í þessum lið.
Þetta er CAM og PINCER deformitet á mjöðminni (sjá meðfylgjandi myndir) sem með lögun sinni veldur áverka á acetabular labrum og í framhaldi af því þróast slitbreytingar í mjaðmarliðnum.


#img 1 #

#img 2 #CAM er ástand þegar mjaðmakúlan er ekki hnöttótt heldur er á henni kryppa á collum caput mótum sem rekst í acetabular kantinn og veldur skemmdum á labrum og síðan brjóskskemmdum í acetabular þakinu. Þetta er algengara hjá karlmönnum og sést í yngri aldurshópum 21-51 árs. Hér er sjúklingahópurinn oft ungir íþróttamenn.
Orsök þessa deformitets eru margar m.a. Perthes sjúkdómur, epiphysiolysis, posttraumatísk retroversion á caput femoris og meðfædd anomalia á caput ofl.
PINCER er ástand þegar acetabulum þekur caput um of og þá er afleiðingin fyrst og fremst labrum áverkar en áverkar á sjálft brjóskið í acetabular þakinu er minna áberandi en í CAM. Hér er einnig um eldri einstaklinga að ræða 40-57 ára.
Síðan er algengt að vera með blandað form cam og pincer.

Þessi greining byggist á sögu og skoðun og hefðbundinni röntgenrannsókn til að byrja með. Síðan til nánara mats þarf segulómun og segulómun með arthrografiu.
Greiningin skiptir miklu máli því hér er um þróun slitbreytinga í ungu fólki að ræða og hægt er að koma í veg fyrir þessa þróun með fyrirbyggjandi aðgerð á mjöðminni.
Í Bandaríkjunum er slitgigt í öðru sæti sem orsök örorku, einungis hjarta og æðasjúkdómar eru algengari orsök.

Baby boomer bruises var yfirskrift fyrirlestrar og var ég ekki viss um í hvað ég var að koma mér. Hér var fjallað um kynslóðina sem nú er á aldrinum 45-63 ára, á ensku “the baby boomers”.
Þessi kynslóð er sú fyrsta sem tók upp reglubundna hreyfingu. Leikfimi í skóla, þjálfa ákveðna íþrótt á yngri árum. Þessi kynslóð vill á eldri árum (þ.e. eftir 45 ára!!) geta haldið áfram að stunda íþróttir – hlaup, skíði, golf og ræktina svo eitthvað sé nefnt.
Þetta fólk reynir á sig og slítur út sínum liðum, liðpokum, sinum og fleiru sem bætist ofan á öldrunarbreytingar í þessum liðum. Það ýkir málið verulega að vera með gamla liði og reyna á þá.
Um 80% áheyrenda var af þessari kynslóð og það skemmtilega var að í skyndikönnun fyrirlesarans kom í ljós að 75% þeirra stunduðu einhverja íþrótt reglubundið.
Þarna var talað um tennis olnboga og golfers olnboga, bicipitoradial bursitis, transient bone marrow edema syndrome í miðaldra karlmönnum og hásinavandamál sem er eitt af aðal stoðkerfisvandamál hjá þessari kynslóð. Að lokum var nefnd sú leiða staðreynd að á aldrinum 30-60 ára hrörnar 15% af vöðvamassa líkamans.

Hér hef ég einungis fjallað um nokkur atriði sem mér þótti athyglisverð á ráðstefnuninni. Eftir að hafa gengið um tækjasýningu án þess að sjá möguleika á að eignast neitt af þeim tækjum sem þar voru sýnd þá var þetta samt sem áður eitt besta RSNA sem ég hef farið á.
Það er um að gera að slaka ekki á í símenntun því við Íslendingar eigum eftir að rísa upp úr öskustónni og þá er gott að hafa fylgst með.

Desember 2009
Einfríður Árnadóttir 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *