Það fer ekki á milli mála að árleg ráðstefna RSNA í Chicago er stærsti viðburður í heimi myndgreiningarfólks ár hvert. Ráðstefnan 2008 er sú 94. í röðinni og þema hennar er “Personal Learning in the Global Community”. Það á vel við því fá tækifæri gefast betri til að læra ótal hluti tengda faginu en einmitt á RSNA.
Lykill að upplýsingum tekinn með heim.
Þemað gengur út á að festa í sessi þá tiltölulega nýju hugsun að nota sér kostina við sísmækkandi heim hnattvæðingarinnar. Það skiptir ekki lengur svo miklu máli hvar fólk býr, svo fremi sem aðstæður þess leyfa notkun á nettengdri tölvu.
Meiri áhersla en áður verður lögð á að fólk geti tekið með sér heim af RSNA upplýsingar um þá ótal möguleika sem netið opnar að ýmsu sem er notadrjúgt bæði í daglegri vinnu og símenntun.
Nauðsynlegt að skipuleggja sig vel.
Eins og áður er hægt að sækja fjölda fyrirlestra, ýmist staka eða sem hluta af fyrirlestraröð, taka þátt í vinnubúðum (workshop), kynna sér hugbúnað, skoða raf-veggspjöld (e-poster) og svo mætti lengi telja.
Það er ráðlegt að skipuleggja með fyrirvara hvað maður ætlar að leggja áherslu á og skrá sig á fyrirlestra og aðra viðburði í samræmi við það.
Tæknisýning með breyttu sniði.
Tæknisýningin er ein af stærri upplifunum á RSNA og í ár er hún með nýju sniði, þ.e. skipt í þrjá sýningarsali. Stærstu framleiðendurnir verða með bása á öllum stöðunum en þeir minni láta sér nægja að vera á einum. Hugmyndin er að sýningargestir þurfi ekki að ganga jafn langt á hverjum degi heldur geti skoðað þann tæknisýningarsal sem næstur er þegar hlé gefst á milli fyrirlestra.
Góður hópur að fara og enn hægt að skrá sig.
Líklegt er að bágt efnahagsástand hafi dregið kjarkinn úr einhverjum af íslensku myndgreiningarfólki en þó er álitlegur hópur með það á dagskránni að dvelja í Chicago frá 30. nóvember til 5. desember þetta árið og afla sér þekkingar.
Fyrir þá sem enn eru í vafa skal bent á að frestur til að skrá sig á netinu rennur ekki út fyrr en 7. nóvember.
Þátttakendalisti Arnartíðinda.
Arnartíðindi hafa undanfarin ár birt lista yfir íslenska þátttakendur og ekki verður breytt út af þeirri venju.
Þeir sem vilja láta setja nafn sitt á listann eru beðnir að hafa samband við ritstjóra, með tölvupósti eða í síma 860 3748.
27.10.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is