Myndgreiningarfólk er margt farið að hugsa til Chicago og RSNA, sem hægt er að kalla stærstu símenntunarhátíð í faginu á ári hverju. Hér verður tæpt á fáeinu nýju sem RSNA 2007 býður upp á og hinn þekkti þátttakendalisti Arnartíðinda fer af stað.
Samliggjandi fyrirlestrar
Skipuleggjendur ráðstefnunnar leggja talsverða áherslu á nokkra samliggjandi fyrirlestra um tengt efni, þannig að úr verða mjög áhugaverð, stutt, námskeið. Undanfarin ár hafa svona fyrirlestrar yfirleitt verið haldnir nokkra daga í röð en þetta árið er líka boðið upp á heils dags kúrsa og gaman verður að prófa hvernig það fyrirkomulag virkar.
Mig langar fyrst að benda á heils dags gæðanámskeið sem verður í boði á RSNA 2007 þriðjudaginn 27. nóvember.
Einnig lítur dagsnámskeið um sameindamyndgreiningu, miðvikudaginn 28. nóv., vel út. Eitthvað fyrir alla, þessa dagana, þegar áhugi á sameindamyndgreiningu blómstrar sem aldrei fyrr!
Vandið val á fyrirlestrum
Fyrirlestrar og efni fyrir “Associated Sciences”, þ.á.m. geislafræðinga, er heldur vaxandi. Íslenskir geislafræðingar búa að meiri og betri menntun en þeir bandarísku og þurfa að gæta þess að lenda ekki á efni sem gagnast þeim lítið sem ekkert. Þó má alls ekki afskrifa þessa fyrirlestra margir þeirra eru áhugaverðir.
Radiologist Assistant
Efni fyrir íslenska geislafræðinga er þó frekar að finna í “Radiologist Assistants Program” þar sem verksvið þeirra er mun nær því sem RA vinna. Þar kemur inn talsvert nýtt efni þetta árið og vel þess virði að skoða það.
Barnaröntgen
Sunnudag, mánudag og þriðjudag standa fyrirlestrar um barnaröntgen og vona ég svo sannarlega að eitthvert íslenskt myndgreiningarfólk sæki þá. Eitt af því sem mér finnst stundum vanta í daglegri vinnu er meiri þekking bæði geislafræðinga (undirrituð meðtalin) og röntgenlækna á því sem sérstaklega þarf að taka tillit til þegar börn eru annars vegar.
Fólk í fremstu röð
Svo er að sjálfsögðu nýr “New Horizons Lecture” ár hvert og einnig nýtt fólk sem fær viðurkenningar frá RSNA. Það er meira en þess virði að hlusta á fyrirlesturinn og fylgjast með afhendingum viðurkenninga, í báðum tilvikum er á ferðinni fólk sem er fremst í flokki í faginu okkar í heiminum.
26.09.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is