Röntgenlist

Flest myndgreiningarfólk er vant að taka röntgenmyndir eingöngu til sjúkdómsgreiningar en geislarnir hans Wilhelms Konrads geta einnig nýst við listsköpun. Fyrir þrem árum tók ég saman nokkur atriði um áhugaverða listamenn sem nota þetta listform.


#img 4 #Gamla greinin fer hér á eftir en fyrir skömmu sá ég að enn einn listamaður á þessu sviði hafði verið verðlaunaður og fengið nokkra umfjöllun í fjölmiðlum. Sá heitir Nick Veasey, er ljósmyndari, og vinnur mikið af verkefnum í auglýsingageiranum og sérverkefnum fyrir einstök fyrirtæki eða samtök. Hann gaf nýlega út bók með röntgenlist og er það fyrst og fremst hún sem tryggði honum fyrrnefnd verðlaun. Meðal myndanna eru ótrúleg verk, t.d. röntgenmynd af heilli Boeing 777 þotu, inni í flugskýli, sett saman úr yfir 500 myndum.
#img 5 #

Einnig rak ég augun í að þrír geislafræðinemar í Toronto í Bandaríkjunum höfðu gert myndir á sérstaka sýningu, Technology Through Art, sem stóð yfir í húsi raunvísindadeildar Toronto University í febrúar síðastliðnum.

#img 6 #
Einn listamaðurinn til heitir Yury Shpakovsky og ég fæ ekki betur séð en síðan hans sé á rússnesku, þó kunnátta mín í því máli sé nákvæmlega engin. Myndirnar tala hinsvegar sínu máli, sem skilst um allan heim.Svo ætla ég að nefna eitt enn… sem kemur list ekkert við: Vissuð þið að það er hægt að kaupa röntgenmyndir á e-Bay???!!!

 30.06.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is


Grein frá árinu 2005:

#img 1 #Einn þeirra sem taka listformið alvarlega er Steven N. Meyer, geislafræðingur sem er búinn að vinna sem slíkur í áratugi. Margir kannast við blómamyndirnar hans, þær eru fallegar, og það er einnig áhugavert að lesa texta hans um samskiptin við listagyðjuna og tæknina sem hann notar.

Albert Koetsier er Hollendingur, tæknimaður sem vann lengi hjá Philips, og myndir hans eru jafnvel enn vandaðri en Meyers. Á vefsíðunni “Beyond Light” eru mjög áhugaverðar upplýsingar hann sjálfan og einnig sögu röntgenlistar.

Skurðlæknir á eftirlaunum, Bert Myers, tekur listrænar röntgenmyndir af ýmsum hlutum. Þær eru, að sjálfsögðu, upprunalega svart-hvítar en Myers bætir einnig lit í sumar þeirra.
#img 2 #

Á vefsíðunni “Shellography” er fjallað um allskyns listrænar myndir af skeljum og öðrum sjávardýrum. Þar má meðal annars sjá röntgenmyndir, bæði litaðar og ólitaðar.

Ljósmyndarinn Judith K. McMillan heillaðist af jurtum eins og Steven Meyer og hún hefur tekið ótal röntgenmyndir af blómum á ýmsum þroskastigum.

Allt annars konar listaverk með röntgenívafi sjást hjá Gusto Images en það er ljósmyndarinn Hugh Turvey, í London, sem hefur unnið þau. Þetta eru nútímalegri myndir en blóma- og skeljamyndirnar og í margar þeirra blandað litum. 

Gloria de los Santos er ljósmyndari, grafískur hönnuður og rithöfundur. Hún lenti í bílslysi
#img 3 #og reynslan af rannsóknum og sjúkrahússvist beindi listrænum hæfileikum hennar um tíma að því að ljá röntgenmyndum lit og nýja áferð.

Einn af eldri röntgenlistamönnunum er Albert Richards, prófessor emeritus, og eftir hann er verkið „The Secret Garden„.

Í RadioGraphics birtist, árið 2003, grein eftir Merrill C. Raikes, MD sem ber yfirskriftina “Floral Radiography: Using X rays to Create Fine Art” . Þar er fjallað um tæknina að baki listrænum röntgenmyndum af jurtum, svo nú ætti hver og einn að geta byrjað að þreifa sig áfram sem röntgenlistamaður! 


 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *