Röntgendeild St. Jósefsspítala, Hafnarfirði.


St. Jósefsspítali var reistur árið 1926 af St. Jósefssystrum. Var byggt við hann árin 1953 til norðurs og 1974 til suðurs. Röntgendeild hefur verið starfandi frá upphafi á jarðhæð og er enn. Þjónustusvæði röntgendeildar er allt landið þegar kemur að sérfræðingum á sviði meltinga, einnig sérfræðiteymi kvensjúkdómalækna og meltingafæralækna og eru á St. Jósefsspítala framkvæmdar rannsóknir og aðgerðir sem ekki er boðið upp á annarstaðar hér á landi.

Frábært starfsfólk og góður tækjabúnaður.
Stöðugildi geislafræðinga eru 2,4 og skiptast þannig að einn geislafræðingur er í 100% stöðu, einn er í 80% og einn í 60%. Sérfræðilæknir í myndgreiningu er í 50% starfi.
Það er eingöngu unnin dagvinna og er deildin lokuð á „rauðum dögum“.
Röntgentæki deildarinnar var endurnýjað 2007 og var sett upp stafrænt tæki frá Philips og hefur það virkað vel frá fyrsta degi. Myndplötur og lesari eru frá Agfa.
Til gamans má geta þess að þetta eru fyrstu tækin á röntgendeild St. Jósefsspítala sem ríkissjóður kaupir en eru ekki gjafatæki.
Ómtæki er frá General Electric og er 4-5 ára.
Raförninn þjónustar tæki deildarinnar.

Fjölbreyttar og sérhæfðar rannsóknir.
Það eru framkvæmdar fjölbreyttar röntgenrannsóknir á deildinni; lungu, sinusar/andlitsbein, allar almennar beinarannsóknir, venografíur, urografíur, meltingafæri, ERCP, töluverð sérhæfing er á sviði meltingafæra s.s videoupptökur á kyngingu, defecografíur, transitstúdíur o.fl.
Allar helstu ómrannsóknir eru framkvæmdar; líffæri abdomen, nýru, æðar, mjúkpartar en það er lítið um ástungur og gyn.rannsóknir.
Árið 2008 voru samtals gerðar 4500 röntgenrannsóknir og ómskoðanir.

Framtíðardraumar.
Það eru að sjálfsögðu óskir um að fá tölvusneiðmyndatæki til að auka þjónustuna. Tenging RIS kerfis við PACS hefði í för með sér vinnusparnað. Vonandi verða þessir draumar að veruleika.

Bestu kveðjur
Þórunn Kárad. Hvasshovd
St. Jósefsspítala Hafnarfirði.  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *