Röntgendeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja

Á röntgendeild HSS urðu tímamót um mitt síðasta ár, þegar deildin var gerð stafræn og keyptur var CR búnaður frá AGFA. Í framhaldi af því var gerður samningur við Læknisfræðilega myndgreiningu, um RIS-tengingu, úrlestur rannsókna, ómrannsóknir og myndgeymslu hjá þeim í Domus Medica.
Áður höfðu tveir röntgensérfræðingar komið til okkar 3-4 sinnum í viku og sinnt skyggnirannsóknum, ómrannsóknum og úrlestri. En með nýju fólki koma nýir siðir, þannig að núna fáum við röntgensérfræðinga einu sinni í viku til að ómskoða.

Tæki endurnýjuð
Síðastliðið haust voru röntgentækin endurnýjuð og gamla Toshibatækið, síðan 1989 fór á haugana og við tók i-RAD sem er framleitt af Toshiba og er stafrænt tæki, en kemst samt ekki með tærnar þar sem gamla tækið hafði hælana að mörgu leiti. Sem betur fer þá hefur tækniþjónustan okkar (Raförninn) sniðið ýmsa vankanta af tækinu og er það vel. En á meðan á breytingunum stóð, þá þurftum við að bjarga okkur með “móbíl” frá LSH Fossvogi og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir lánið.

Pappírsleysi í sjónmáli
Flestar beiðnir sem berast deildinni eru rafrænar og þá í gegnum SÖGU-kerfið, sem er það kerfi sem notað er bæði á sjúkrahúsinu og á heilsugæslunni hér. Þannig að við þurfum að skanna þær inn í RIS-kerfið, sem er bæði tímafrekt og sóun á trjám.
Tæknilega voru læknatölvur hússins ekki í standi til að keyra RIS-kerfið, en nú eru þau mál úr sögunni, þannig að við vonumst til að deildin verði nánast pappírslaus innan skamms. Svo er það nú þannig, að það þarf að þjálfa fólk í notkun á nýjum forritum og það getur tekið smá tíma.
Það flækir örlítið málin að gera deildina pappírslausa, þegar læknarnir þurfa að hoppa á milli kerfa (SÖGU og RIS) og slá password oft á dag inn í RIS. Ástæða þess er að við erum eins og ein stofa í LM, þess vegna er ekki hægt að hafa þetta opið eins og þar sem kerfin (SAGA/RIS) eru eingöngu innanhúss hjá einni stofnun. En við leggjum eigi að síður ríka áherslu á að gera deildina pappírslausa.

Tölvusneiðmyndatæki innan tveggja ára?
Tækjakostur röntgendeildarinnar samanstendur af: CR-búnaði, stafrænu röntgentæki og ómtæki, ásamt skyggnimagnara sem má muna fífil sinn fegri.
Á óskalistanum okkar, er endurnýjun á skyggnimagnara, kaup á færanlegu röntgentæki og síðast en ekki síst, að fjárfesta í tölvusneiðmyndatæki. En mikill hugur er í Framkvæmdastjórn HSS að gera þann draum að veruleika innan tveggja ára. Mun líklega vera leitað til nokkurra fjársterkra fyrirtækja hér á svæðinu með fjármögnun á slíku tæki.

Nýtt starfsfólk
Í byrjun síðasta árs, hafði deildin á að skipa 3 geislafræðinga og 1 geislaliða, en snemmvors hætti einn geislafræðingur störfum og hefur mönnun gengið brösuglega eins og víða annars staðar á landinu. Höfum við meira og minna tvær sinnt dagvinnu auk bakvakta alla daga ársins.
En heppnin bankar stundum hjá manni og það gerðist núna á vordögum, þá réðum við verðandi geislafræðing, (sennilega útskrifuð þegar þetta birtist) og mun hún vera hjá okkur í afleysingum, því deildargeislafræðingurinn er að fara í barnseignarfrí. Einnig réðum við til frambúðar geislafræðing sem starfaði hjá LSH Fossvogi og er að flytjast búferlum til Reykjanesbæjar.

Bestu kveðjur úr Reykjanesbæ,
Stella María Thorarensen
Yfirgeislafræðingur á HSS

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *