Áttunda nóvember 1895 bar upp á föstudag eins og nú er. Það var þá sem Röntgen uppgötvaði geislana sem í mörgum löndum bera nafn hans. Enskumælandi þjóðir nota að vísu það nafn sem vísindamaðurinn sjálfur gaf geislunum, þ.e. x-geislar.
Hvaða nafni sem þær kallast hafa þessar rafsegulbylgjur alltaf yfir sér einhvern dularblæ og valda einnig ótta. Við sem störfum við myndgreiningu erum því í dularfullu og spennandi fagi.
Það er full ástæða til að njóta þess. Læra sem mest, fylgjast með sem flestu og skemmta sér við að svipta dularhjúpnum af öllu saman… eða leyfa honum að vera til, að vissu marki.
Þeir sem þurfa á þjónustu myndgreiningarfólks að halda, hvort sem rétt er að nefna þá sjúklinga eða ekki, eiga rétt á skýrum upplýsingum sem byggðar eru á haldgóðri þekkingu. Jafnvel mætti hugsa sér að staðla að einhverju marki þau svör sem gefin eru við algengustu spurningum um geislavarnir og eðli röntgengeisla. Alltaf verður þó mikilvægt að hver og einn nýti sína þekkingu og hugsi sig vel um áður en svarað er.
Ofurlítill léttleiki og glettni hlýtur þó að mega fljóta með, án þess að rýra upplýsingagildið, og óvenjuleg atriði úr sögu röntgengeislans geta verið bæði til fróðleiks og skemmtunar. Margir kannast t.d. við skóbúðatækin þar sem hægt var að sjá hvernig fór um fótinn í skónum.
Undirrituð hefur lengi gælt við þá hugmynd að myndgreiningarfólk tæki sig saman um að gera Röntgendaginn að degi sem notaður væri til að kynna myndgreiningu og allt sem henni viðkemur. Degi sem helgaður væri fróðleik, skemmtun og því að gera fagið sýnilegra. Einskonar þjóðhátíðardegi myndgreiningarfólks með tilheyrandi gleðskap fyrir þá sem í faginu starfa.
Bæði hjá Félagi geislafræðinga og á geislafræðibraut Tækniháskóla Íslands hafa svipaðar hugmyndir verið til umræðu og á undanförnum árum öðru hverju verið unnið að slíkum kynningum. Áhuginn virðist vera fyrir hendi og gaman væri ef meira yrði úr.
Þetta árið notar starfsfólk myndgreiningarstöðvar Hjartaverndar daginn til að vera með „opið hús“ og vonandi verður fleiri viðburðum í faginu valinn tími á þessum degi á næstu árum.
Edda Aradóttir. 04.11.02