Það má segja að hvatningarræða ritstjóra Arnartíðinda í tilefni Röntgendagsins sé árlegur viðburður. Í ár er þema hennar sameining kraftanna, að beina orkunni sem við höfum til að kynna frábæra fagið okkar í sameiginlegan farveg.
Sérframtak röntgenlækna í Evrópu
Eins og sagt var frá í Arnartíðindum í ágúst sl. leggur ESR upp með sérstakan Evrópudag þann 10. febrúar 2011. Eftirgrennslan Félags geislafræðinga leiddi í ljós að önnur félög geislafræðinga innan Evrópu könnuðust lítið eða ekkert við fyrirhugaðan Evrópudag og við nánari athugun varð ljóst að ESR hafði eingöngu reiknað með samstarfi félaga röntgenlækna varðandi hann. Að sjálfsögðu er ekkert við það að athuga þótt forsvarsmenn ESR hafi valið þá leið og auk þess höfðu félög röntgenlækna alla möguleika á að óska eftir samstarfi við geislafræðingafélögin, eins og formanni Félags íslenskra röntgenlækna fannst sjálfsagt að gera.
Sérframtak geislafræðinga í Ameríku
Í Bandaríkjunum er í næstu viku haldin hin árlega “National Radiologic Technology Week”, í tilefni Röntgendagsins sem er 8. nóvember. Fyrir henni standa alríkissamtök geislafræðinga, ASRT og eins og svo algengt er í Bandaríkjunum á þetta verkefni sér skammstöfun, NRTW. Veftímaritið Advance tileinkar NRTW sérstakan hluta, þar sem meðal annars má finna lista með 30 hugmyndum um það sem myndgreiningarfólk getur gert sér til gamans og til að vekja athygli á faginu.
Sameiginlegt framtak myndgreiningarfólks á Íslandi
Ég er þeirrar skoðunar að myndgreiningarfólk ætti að fylkja sér um Röntgendaginn, 8. nóvember, og nota hann til að vekja athygli á faginu. Hvaða starfsstétt sem við tilheyrum og hvaða heimsálfu sem við búum í. Sérstakt framtak á ákveðnu svæði, hjá ákveðnu félagi, ákveðnum vinnustað eða hvað annað er vissulega mjög jákvætt… allt sem vekur athygli á myndgreiningunni er jákvætt! Ástæðan fyrir því að ég er meðmælt því að tengja allskyns kynningu Röntgendeginum, í stað þess að dreifa henni yfir árið, er ekki síst að myndgreiningarfólk er fámenn heilbrigðisstétt, hvar sem er í heiminum, og vinnuálag er mikið. Fæstir hafa mikinn tíma eða orku í meira en daglega vinnu og því ekki von á mörgum blaðagreinum, rannsóknaniðurstöðum eða hátíðahöldum ár hvert. Með því að beina kröftunum í sameiginlegan farveg náum við frekar athygli. T.d. mætti hugsa sér að þeir sem stunda rannsóknavinnu hafi í huga hvort þeir geti birt niðurstöður sem næst Röntgendeginum, þeir sem eiga hugmynd að blaðagrein drífi í að skrifa hana sem næst Röntgendeginum, gleðipinnarnir haldi röntgenpartý sem næst Röntgendeginum og þeir sem sjá um námskeiðahald athugi hvort dagsetning nálægt Röntgendeginum henti.
Margt vel heppnað í gegnum árin
Ýmislegt hefur verið gert í gegnum árin og af stórum viðburðum má nefna opið hús hjá Hjartavernd árið 2002, og Röntgenhátíðina 2005 en báðir þessir viðburðir tókust einstaklega vel og eru í minnum hafðir meðal myndgreiningarfólks. Sem dæmi um ár þar sem myndgreininingarfólk notaði Röntgendaginn sem útgangspunkt fyrir ýmis hátíðahöld má nefna hið fræga 2007 en þá var haldið upp á 50 ára afmæli Félags röntgenlækna 9. nóvember, Félag geislafræðinga hélt fræðslu- og hátíðarfund á Röntgendaginn og ég get ekki stillt mig um að benda á að Rafernir völdu helgina eftir Röntgendag fyrir árshátíð sína. Það þarf ekki heldur nein stór samtök til að halda skemmtanir, tveir framtakssamir geislafræðingar stóðu fyrir Röntgenpartýinu 2008 þar sem fólk skemmti sér hið besta! Hvað annarskonar dagamun varðar má t.d. benda á að fyrir nokkrum árum skrifaði Björn Sigurðsson, röntgenlæknir á Akureyri, vandaða grein um guðföður myndgreiningarfólks, Wilhelm Konrad Röntgen, í tilefni Röntgendagsins.
Framkvæmum hugmyndirnar á “réttum” árstíma
Þegar þetta greinarkorn er skrifað er rétt vika til Röntgendags. Ég skora á allt myndgreiningarfólk að pússa nú upp hugmyndirnar sem ég veit að það á í fórum sínum og framkvæma allt mögulegt faginu okkar til framdráttar, dagana í kringum Röntgendaginn. Deilið svo hugmyndum og fréttum eins og þið mögulega getið, í Arnartíðindum (að sjálfsögðu) og öðrum fjölmiðlum, á Facebook, YouTube, Twitter og bara á hvaða hátt sem ykkur dettur í hug! Þannig skilar Röntgendagurinn báðum þeim hlutverkum sem mér finnst mikilvægust: Að stuðla að samheldni innan fagsins og vekja athygli á því út á við.
Sjáumst á Fésinu!
Staður fyrir sameiginlegar umræður tengdar Röntgendeginum er á Facebook síðu Rafarnarins!
01.11.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is