Allir sem tóku þátt í hátíðahöldum í tilefni Röntgendagsins 2005 muna hversu vel heppnuð hátíð var haldin þá. Nú er hafinn undirbúningur Röntgendagsins 2006 og stefnt á að hlaða laugardaginn 11. nóvember, næstkomandi, áhugaverðum atburðum fyrir myndgreiningarfólk.
Hátíðin í fyrra tókst vel
Lengi hafa ýmsar hugmyndir verið uppi varðandi einhverskonar „dag myndgreiningar“ sem yrði haldinn hátíðlegur þá helgi sem næst er 8. nóvember ár hvert. Á síðasta ári varð loks úr framkvæmdum og haldin var kvöldskemmtun, þann 5. nóvember, sem tókst með ágætum. Fjöldi manns mætti á staðinn og allir skemmtu sér vel, eins og sjá má í frétt Arnartíðinda frá 07.09.06.
Enn betra í ár
Stefnt er á að gera enn betur í ár en undirbúningur er á byrjunarstigi og verður spennandi fyrir lesendur Arnartíðinda að fylgjast með. Allar hugmyndir varðandi daginn eru vel þegnar og fólk hvatt til að hafa samband við undirritaða í síma 860 3748 eða um netfangið edda@raforninn.is, eða Einfríði Árnadóttur, um netfangið einfridur@rontgen.is
Dagskrá fyrir allt myndgreiningarfólk
Eins og áður leggur undirbúningsnefndin áherslu á að dagskrá Röntgendagsins verður fyrir alla sem tengjast myndgreiningu, hvar sem þeir vinna og hvaða starfi sem þeir sinna. Myndgreiningarheimurinn á Íslandi er ekki stór og mikilvægt að vinna saman að því sem styrkir okkur öll. Samkeppni er eðlileg og aldrei verða allir sammála en það stendur ekki að neinu leyti í vegi fyrir því að við eigum gefandi samskipti og góða daga saman.
Maðurinn sem skapaði okkur vinnu
Að lokum langar mig að minna á sígilda grein um W. K. Röntgen sem Björn Sigurðsson birti hér á vefsetrinu fyrir fjórum árum. Gott lestrarefni, ekki síst fyrir unga fólkið í myndgreiningunni.
Hittumst á Röntgendaginn!
18.09.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is