Röntgendagur – röntgenhátíð – röntgenhelgi

RÖNTGENHÁTÍÐIN 2005 verður haldin næstkomandi laugardag. Myndgreiningarfólk má vera stolt af því að þetta komst loks í framkvæmd og nú höldum við ótrauð áfram!

Undirbúningur hefur gengið vel
Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning hátíðarinnar sem verður að þessu sinni á árshátíðarformi, fólk kemur saman og nýtur matar, drykkjar og góðra skemmtiatriða. Vegna segulómnámskeiðs sem fram fer sömu helgi féll undirbúningsnefnd frá því að hafa fræðslufyrirlestur á dagskrá.

Fréttir jafnóðum á raforninn.is

Þátttaka virðist verða góð en nákvæma tölu er ekki hægt að gefa upp þar sem hver og einn hefur ekki verið látinn skrá sig, heldur aðeins fengnar áætlaðar tölur frá hverjum vinnustað. Von er á heimatilbúnum skemmtiatriðum frá að minnsta kosti fjórum stöðum en öllu varðandi efni þeirra og form er haldið vandlega leyndu. Nánari fréttir birtast í þessari viku í efnisflokknum RÖNTGENHÁTÍÐIN 2005 hér á vefsetrinu.

Frábært framtak
Flest myndgreiningarfólk sem ég þekki er vant hröðum framförum og vill að allt gangi sem fljótast fyrir sig. Við verðum þó að gefa málum tækifæri til að þróast og hefðum að skapast. Ýmsar hugmyndir hafa verið viðraðar varðandi hátíð sem þessa, í tilefni Röntgendagsins, eins og lesa má í nokkrum greinum sem teknar hafa verið saman í einn flokk hér á vefsetrinu. Í ár ber segulómnámskeið Endurmenntunar HÍ upp á sömu helgi og RÖNTGENHÁTÍÐINA og til samans skapa þau nokkurskonar röntgenhelgi. Það er frábært framtak að koma hátíðinni af stað og ég er sannfærð um að allir skemmta sér vel.

Huga þarf að framhaldinu
Myndgreiningarfólk þarf síðan að ráða ráðum sínum um framhald svona röntgenhelga. Það er einboðið að halda Röntgendaginn hátíðlegan hvert einasta ár og skora ég hér með enn einu sinni á myndgreiningarfólk að nota hugmyndaflugið til að kynna fagið sem best. Hátíð, svipuð þeirri sem nú á að halda, gæti orðið árlegur viðburður, haldin annað hvert ár, eða á nokkurra ára fresti. Hvernig sem það verður útfært er mikilvægt að halda ótrauð áfram, nú þegar samstaða hefur náðst, og víkka ramma hátíðahaldanna smám saman út svo þau nái bæði yfir skemmtilegt faglegt efni og aðra skemmtun, að svo miklu leyti sem fólk hefur áhuga á.

Notum hugarflugið
Næsta helgi er stórfínn tími til að spjalla um þetta og skiptast á skoðunum, ritstjóri Arnartíðinda er alltaf opinn fyrir góðum hugmyndum og býðst til að halda utan um þær og koma til skila til undirbúningsnefndar næstu RÖNTGENHÁTÍÐAR! 

31.10.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *