Undanfarið hafa birst fréttir um röntgentæki til líkamsleitar á flugfarþegum. Myndgreiningarfólk gæti haft gaman af vangaveltum um þetta efni.
#img 1 #Tækið lítur út ekki ólíkt risastórum kæliskáp og notar endurkast (backscatter / dreifigeislun) röntgengeislanna til að búa til mynd, í stað tækninnar sem myndgreiningarfólk þekkir best þar sem geislunin kemur úr einni átt, fer í gegnum myndefnið og einhverskonar móttakari hinum megin skilar mynd. Afraksturinn er þó svipaður að því leyti að harðir hlutir, t.d. vopn, líta öðruvísi út á mynd en þeir sem mýkri eru.
Þegar minnst er á eitthvað sem notar geislun byrja flestir að hafa áhyggjur af geislaálagi og mögulegri heilsufarsáhættu. Framleiðandinn, ECIL Rapiscan, bregst við með því að bera geislaálag af einni leit með tækinu saman við álag af CT-rannsókn, 5 klst. flugi og einnig bakgrunnsgeislun á ákveðnum svæðum. Samkvæmt þessum upplýsingum er geislaálagið ákaflega lítið.
Þó um sé að ræða lítið geislaálag breytir það ekki þeirri staðreynd að aukið geislaálag af manna völdum er óæskilegt og þarf gagn af tækninni til að vega það upp. Þá vakna spurningar um þýðingu svona tækja í baráttunni gegn því sem ógnar flugöryggi, t.d. hryðjuverkum og flugránum. Yrðu þau mikilvægur þáttur í baráttunni eða eru “vondu karlarnir” klókari en svo að röntgen-líkamsleit mundi breyta miklu?
Fyrir utan stórar spurningar eins og hvort síaukin öryggisgæsla sé besta baráttuaðferðin yfirleitt.
#img 2 #
Myndirnar sjálfar vekja líka spurningar. A.m.k. í auglýsingum fyrirtækisins eru þær skuggalega skýrar. Langar mann til að láta einhvern öryggisvörð fá svona góða hugmynd um hvernig maður lítur út innan undir fötunum? Þetta er farið að minna á auglýsingar frá fyrstu dögum röntgengeislans þar sem boðin voru gleraugu sem áttu að gera mönnum kleift að sjá í gegnum föt annnarra.
Hinsvegar má benda á að heilbrigðisstarfsmenn sjá fáklætt fólk á hverjum vinnudegi og engum finnst það neitt tiltökumál. Hvers vegna ætti að gegna öðru máli um öryggisverði?
Ekki má heldur gleyma því að “manual” líkamsleit er víst engin sérstök skemmtun fyrir þann sem leitað er á, jafnvel þó viðkomandi sé fullklæddur. Röntgen-líkamsleit gæti verið skárri kostur og einnig fækkað tilvikum þar sem þyrfti að láta fólk afklæðast (strip-search).
Þetta er eins og önnur mál í veröldinni, hefur a.m.k. tvær hliðar… jafnvel fleiri!
30.05.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is