Landið er bráðum alstafrænt
Stafræn væðing í myndgreiningu er nú á lokasprettinum hérlendis. Í árslok verður nánast öll starfsemi með einhvert umfang orðin stafræn og nú þurfa heilsugæslustöðvar og aðrir með lítil umsvif að ákveða hvort menn hætta röntgenstarfsemi eða koma sér inn í nútímann.
Brjóstamyndataka með sérstöðu
Óljósasta staðan nú er varðandi brjóstamyndatökur. Þar er staðan í tækninni sú, að FDA hefur ekki samþykkt plötutæknina sem er ódýrasta lausnin. Þetta hefur að sjálfsögðu ekkert gildi í Evrópu, en evrópskar eftirlitsstofnanir hafa líka sínar efasemdir um plötukerfi til brjóstamyndatöku. Nýjar, bættar CR lausnir verða þó hugsanlega samþykktar af FDA á þessu ári (en framleiðendur hafa búist við slíkri samþykkt mörg undanfarin ár). Það liggja fyrir nýlegar, umfangsmiklar rannsóknir sem sýna ákveðna yfirburði stafrænnar tækni til brjóstamyndatöku og þekkingarhugbúnaður til að styðja úrlestur brjóstamynda er orðinn vel nothæfur til að auka og jafna greiningargæðin. Krabbameinsfélag Íslands, sem er sjálfseignarstofnun, hefur leitað til fjármálastofnana eftir stuðningi til að breyta yfir í stafræna tækni í Leitarstöðinni, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.
Ný viðskiptatækifæri en erfitt umhverfi
Samstarfs- og samskiptamöguleikar margfaldast þegar allar rannsóknir eru stafrænar. Það er allra hagur að framboð á myndgreiningarþjónustu gangi þvert á stofnanir og fyrirtæki verði sem frjálsust í sölu og kaupum á þjónustu. Þannig má t.d. auka sérhæfingu, gæði og afköst.
Með bættum aðgangi lækna að niðurstöðum myndgreiningarrannsókna má búast við aukinni eftirspurn því myndgreining mun þá nýtast læknum betur til réttrar og skjótrar ákvarðanatöku. Þá er líklegt að myndir og svör beint á skjá hjá lækninum treysti samskipti við sjúklinginn. Áhrifin sjást nú þegar í aukinni framleiðni og nýjum samskipta- og viðskiptamöguleikum, sem íslenski markaðurinn er að byrja að nýta sér.
Vægi myndgreiningar í allskonar forvarnaáætlunum mun aukast jafnt og þétt. Verði auðsköpun á Íslandi og í nálægum þjóðfélögum eins og við er búist á næstu árum verður vaxtarkippur upp í tveggja stafa tölur á ákveðnum sviðum myndgreiningar, langt umfram það sem hefur lengi verið undirliggjandi meðalvöxtur greinarinnar.
Viðskiptatækifæri dagsins í myndgreiningu eru mörg og það eina sem hamlar eðlilegri þróun er gjörúrelt rekstrarumhverfi sem er arfur einhverskonar ráðstjórnar sem lönd í okkar heimshluta nota enn við stjórn og rekstur heilbrigðisþjónustu.
Ef fólk og fyrirtæki í myndgreiningarstarfsemi hérlendis fá ekki að nýta tækifæri samtímans þá drögumst við aftur úr og að óbreyttu munu erlend fyrirtæki sjá um íslenska myndgreiningarþjónustu fyrr en okkur grunar. Núverandi stefna kemur í veg fyrir að myndgreining nái að þroskast með eðlilegum hætti og leggja til þjóðarbúsins samkvæmt getu.
Allir eru enn að fóta sig í nýju stafrænu landslagi og það tekur einhvern tíma. Það er mikilvægt að menn stoppi ekki við landamæri Íslands heldur hugsi til annarra landa, bæði hvað varðar kaup og sölu á myndgreiningarþjónustu. Þannig er hugsanlega hægt að brjótast úr viðjum þess undarlega heilbrigðiskvótakerfis sem hér þrífst.
29.05.06 Smári Kristinsson smari@raforninn.is