Röntgen á Olympiuleikunum

 
Þegar nefnd er notkun röntgengeisla og annarra bylgja sem við nýtum til myndgreiningar, í sömu andrá og Olympiuleikarnir 2004, detta flestum fyrst í hug allskyns áverkar og myndgreining þeirra. Sá þáttur er svo sannarlega stór og í Olympiuþorpinu í Aþenu er 5000 fermetra sjúkrastöð, “Olympic Polyclinic”, þar sem að sjálfsögðu er fullkomin aðstaða fyrir sjúkraþjálfun og þeirri deild tilheyrir 12 rúma legupláss en einnig er á staðnum lítil skurðstofa, vöknun, 6 rúma bráðadeild, rannsóknastofa, apótek, tannlæknastofa með 6 stólum, göngudeild og að sjálfsögðu myndgreiningardeild. Alls vinna um 650 heilbrigðisstarfsmenn í sjálfboðavinnu við sjúkrastöðina. 

Góð myndgreiningardeild
Á myndgreiningardeildinni er skyggniborð og lungnastandur, tvö ómtæki, fjölsneiða tölvusneiðmyndatæki og 1T segulómtæki. Að sjálfsögðu er PACS og RIS til að tengja þetta allt saman, ásamt þrem úrlestrarstöðvum fyrir röntgenlækna og einnig er hægt að senda myndir frá “Olympic Polyclinic” á vinnustöð á Attico University Hospital og fá álit röntgenlækna þar. Til baktryggingar er svo “backup” af öllum rannsóknum sent í geymslu í Mílanó á Ítalíu!
Reiknað er með um 140 rannsóknum á dag á “Olympic Polyclinic” en að auki taka sjúkrahús á svæðinu við fjölda fólks og á KAT sjúkrahúsinu í Aþenu, sem á fyrst og fremst að þjóna keppendum, var af því tilefni sett upp alstafrænt tæki fyrir almennt röntgen og starfsfólk myndgreiningardeildarinnar sent á “akút” námskeið til að því tækist að stökkva úr filmuþynnu-umhverfi yfir í alstafrænt.

Fleira en heilbrigðisþjónusta
Heilbrigðisþjónustan er hins vegar ekki það eina á Olympiuleikunum sem nýtir röntgengeisla, þeir eru ekki síður mikilvægir í öryggisgæslunni. Flaggskipin eru tveir risavaxnir “móbílar” sem kosta víst svosem sjö milljónir bandaríkjadala stykkið og Bandaríkjamenn voru svo huggulegir að lána Grikkjum á meðan leikarnir standa yfir. Með þeim er víst hægt að skanna heilan gám á einni mínútu en þeir nýtast best í eftirlit með flutningabílum og öðrum farartækjum á leið að hinum ýmsu leikvöngum. Auk þess er að sjálfsögðu heilmikið af “hefðbundnum” röntgentækjum til að leita í farangri.

Landslið myndgreiningarfólks á Olympiuleika?
Eins og fyrr var nefnt vinnur heilbrigðisstarfsfólk á Olympiuleikunum sjálfboðavinnu. Flestir eru heimamenn en eitthvað er um sjálfboðaliða frá öðrum löndum, a.m.k. í öðrum sérgreinum en myndgreiningu, til dæmis hjúkrunarfræðinga og sjúkraþjálfara. Það væri nú verulega spennandi fyrir íslenskt myndgreiningarfólk að komast í vinnu á Olympiuleikum. Við erum vel menntuð, flest vön að vinna með nýjustu tækni, og tungumálakunnáttan yfirleitt þolanleg, ekki síst þar sem ægir saman allra þjóða fólki. Ég legg til að það verði sett upp landsliðssveit myndgreiningarfólks fyrir næstu Olympiuleika. Við mundum örugglega standa okkur betur en handboltaliðið… og nóg veður er nú gert út af því!

Meira hjá Minnu frænku
Þeim sem vilja vita meira um myndgreiningu á Olympiuleikunum er bent á Minnu frænku (AuntMinnie.com) sem er með stöðuga umfjöllun, 2004 Olympic games RADCast. Ég minni myndgreiningarfólk á að til að nýta sér efni AuntMinnie þarf að skrá notandanafn og lykilorð en það er mjög einfalt og kostar ekki neitt. Þegar inn á vefsetur Minnu frænku er komið þarf aðeins að smella á mynd af Seifi með orðunum “2004 Olympic games RADCast” og þá er hægt að skoða heilmikið af áhugaverðum greinum og myndum.
Vefsetur fyrir Olympiuleikana sjálfa er svo athens2004.org.

23.08.04 Edda Aradóttir     

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *