Rekstrarform í heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðishópur Samfylkingarinnar hélt ráðstefnu á Hallveigarstöðum s.l. laugardag undir yfirskriftinni „Ráðstefna um ólík rekstrarform í heilbrigðisþjónustu“.


Þetta var áhugaverður fundur með vönduðum framsöguerindum og líflegum umræðum. Það er ánægjulegt að stjórnmálahreyfingar reyni að þróa stefnu sína í samstarfi við faggreinar og almenning. Þarna voru mættir flulltrúar Samfylkingarinnar, LSH, forsvarsmenn heilbrigðiseinkarekstar og hagfræðingurinn Þorvaldur Gylfason.
Össur Skarphéðinsson hélt inngangsræðu sem var ágætis yfirlit um álitamálin og heilbrigðispólitíkina.


Jafnrétti, jöfnuður og hagvöxtur

Þorvaldur Gylfason flutti síðan fræðilegan fyrirlestur um jafnrétti, jöfnuð og hagvöxt. Þorvaldur benti mönnum á að algjör jöfnuður leiddi til efnahagslegs alkuls en jafnrétti styrkti hagvöxt. Hann benti síðan á að samhengi menntunarútgjalda og hagvaxtar er sterkara en samhengi heilbrigðisútgjalda og hagvaxtar. Þorvaldur telur að heilbrigðisframleiðslan eigi í vaxandi mæli að flytjast til einkaaðila og sagði menn t.d. geta ýmislegt lært af tannlæknum þar sem engir væru biðlistar og þjónusta væri sniðin að óskum viðskiptavina. Einnig vakti hann athygli á að samkeppni erlendis frá myndi fara vaxandi og taldi heilbrigðisgeirann tilvalda útrásargrein. Ég vil reyndar taka dýpra í árinni og segja nauðsynleg útrásargrein. En grundvöllur útrásar eins og annarra framfara í heilbrigðisrekstir er að hann verðu að mestu leyti í höndum einkaaðila. Ég mæli með að menn kynni sér hugmyndir Þorvaldar á heimasíðu hans sem er mjög metnaðarfull.


Ríkis- og einkageirinn


Landspítalafólk lýsti rekstrardraumum sínum sem, eins og síðustu 20 árin, snúast um DRG kerfið.  Kerfið er sagt hafa verið í notkun í 4 ár hjá LSH en ekki er enn farið að greiða samkvæmt því. Nú er að vísu komið O-DRG sem LSH ætlar að nýta sér til samkeppni við læknastofur. Fulltrúar einkageirans lýstu sköpunargleði og marktækum mælanlegum árangri í gæðum og framleiðslukostnaði sem yrði til í krafti þessa rekstrarforms.


Nýjar kröfur sjúklinga


Einfríður Árnadóttir, framkvæmdastjóri í Röntgen Orkuhúsinu, minnti á að tryggingaverndin er ekki háð því hver framleiðir heilbrigðisþjónustuna. Hún fór í sínum fyrirlestri yfir nýjar kröfur sjúklinga sem hafa mikla þekkingu og vilja skýr svör. Þá ræddi hún þá ógn sem einkarekstri stafar af ríkisrekstri með ótakmarkaða fjármuni sem stundum eru nýttir til valdbeitingar og undirboðs á markaði. Hún tók nýlegt dæmi úr rannsóknageiranum sem bíður nú úrskurðar samkeppnisyfirvalda. Þá eru framleiðslukvótar og skammtímasamningar TR mikil vandamál við þróun einkarekstrar. Einfríður lagði mikla áherslu á nauðsyn jafnréttis til heilbrigðisþjónustu.
Fyrirlestur Einfríðar er birtur í heild hér á raforninn.is


Stjórnmálamenn og heilbrigðismál

Okkar stjórnmálamenn hafa valið að ráðskast með heilbrigðismál umfram aðra málaflokka. Þegar ég spurði stjórnmálamann fyrir mörgum árum, hvers vegna stjórnmálamenn gætu ekki látið heilbrigðisreksturinn í friði og einbeitt sér að pólitíkinni sem snýst um tryggingarmálin, þá svaraði hann: Það eru svo fáir þingmenn hæfir til að lifa af lagasetningu, þeir vilja lifa af því að færa til fjármuni.


Það var ljóst af umræðum að margir Samfylkingarmenn eru tortryggnir í garð einkarekstrar. Gamla sjónarmiðið að ríkisrekstur þyrfti bara alvöru stjórnendur til að ganga vel átti sér formælendur.  Ég held að forysta Samfylkingarinnar geti átt drjúgt verk fyrir höndum ef hún ætlar að marka stefnu um vaxandi einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Sú stefna verður klárlega mörkuð, það er eingöngu spurning um hverjir gera það og hvenær.


Þjónustugæði og eftirlit

Nokkuð var talað um eftirlit þess opinbera og kom fram hjá stjórnendum sem hafa reynslu bæði úr opinbera- og einkageiranum að mun meira eftirlit væri með einkarekstri. Hjá Landlækni kom fram að mjög illa gengur að fá suma einkaaðila til að skila inn upplýsingum, sem er auðvitað til skammar. Nútímareglur standa til þess að eftirlit sé innbyggt í reksturinn og að eftirlitsstofnanir fylgist með að eftirlitskerfin virki. Landlæknir vitnaði til erlendra greina sem sýna verri þjónustu einkaspítala og hærri rekstrarkostnað hjá einkaheilbrigðistryggingum en hjá ríkistryggingarfyrirtækjum.


Hver er framtíð almannatrygginga?

Ég stóð upp í umræðunum og benti mönnum á að sala á heilbrigðistryggingum færi mjög vaxandi og spurði í framhaldi af því panelinn hvort menn gætu séð fyrir sér að almannatryggingarnar yrðu álíka gagnlegar og húsnæðisstofnun ríkisins. Í svörunum kom fram að almannatryggingar eru að bregðast þeim verst settu (sem teljast vera um 7% til 15% þjóðarinnar) því að komugjald, óháð því hvort menn skipta við ríkisstofnun eða einkafyrirtæki, getur farið upp í 18 þúsund krónur og árlegur kostnaður sjúklinga getur orðið býsna hár. Forstjóri Sóltúns sá fyrir að kostnaðarþátttaka aldraðra yrði mikið meiri en í dag og að þeir hefðu að jafnaði meiri efni. Landlæknir vonaði að hann, börn hans og barnabörn sæju ekki þann dag að staða almannatrygginga yrði veik.


Almannafé og eiginhagsmunir


Freistingar stjórnmálamanna eru stórar þegar kemur að stórum málaflokkum eins og heilbrigðismálum, þar sem ríkið stundar umfangsmikinn rekstur. Margir stjórnmálamenn hafa fallið í þá gryfju að púkka undir eigin rass fyrir almannafé í nafni almannahagsmuna. Af þessu eigum við mikla sögu, úr útgerð, bankarekstri, flutningastarfsemi, landbúnaði, símaþjónustu, orkuvinnslu og heilbrigðisþjónustu. Nútíma heilbrigðisrekstur á Íslandi hófst með mikilli uppbyggingu á vegum Jósefssystra. Rekstri systranna komu embættis- og stjórnmálamenn á kné með markvissri mismunun stofnunum þeirra í óhag. Enn eru margir þingmenn í krossferð gegn einkarekstri í heilbrigðisgeiranum. Þetta sést greinilega í óheiðarlegri hugtakanotkun stjórnmálamanna sem nota orð eins og einkarekstur og einkavæðing til að hræða fólk og segja að einkarekstur þýði að menn þurfi að greiða úr eigin vasa og að þeir ríku komist fram fyrir þá í biðröðunum, sem þessir sömu stjórnmálamenn hafa skapað til þess að geta verið áberandi í fjölmiðlum við krísulausnir.


Í reynd eru valkostirnir þessir:



  • Einkatryggingar
  • Almannatryggingar
  • Einkarekstur
  • Einkaframkvæmd
  • Sjálfseignarrekstur
  • Ríkisrekstur

Þetta getur síðan blandast saman með ýmsum hætti. Þátttaka ríkisins í heilbrigðisrekstri eða tryggingum er eingöngu háð pólitískum vilja á hverjum tíma. 


Almannatryggingar duga oft skammt.


Það sem hefur verið að gerast er að almannatryggingarnar hafa ekki fylgt eftir almennri efnahagsþróun og nú hefur skapast verulegt svigrúm fyrir einkatryggingar. Það fyrsta sem gerðist á þessum markaði var að kortafyrirtækin buðum mönnum heilbrigðistryggingar á ferðalögum. Sú þjónusta hefur bjargað efnahag margra. Framundan er stórátak tryggingafélaga til að selja mönnum lífeyris og sjúkdómatryggingar sem mun ganga vel, því það fellur að efnahagsþróuninni. Þannig er að mínu áliti mjög stutt í að flestir hafi viðbótartryggingar. Staðreyndin er sú að almannatryggingar eru barn síns tíma og bæta aðeins brot af því fjárhagstjóni sem hlýst af veikindum nú á tímum. Í reynd er staðan slík að tala má um falskt öryggi þar sem stjórnmálamenn blessa kerfið alla daga en fólk sem þarf að nota það lendir oftar en ekki í óvæntum hremmingum. Það væri t.d. fróðlegt að sjá hvernig stjórnmálamenn tryggja sig og sína.


Vonandi bera stjórnmálamenn gæfu til að skilja hér kjarnann frá hisminu. Setja jafnrétti til heilbrigðisþjónustu í öndvegi og ofar eigin stundarhagsmunum, en láti markaðinum eftir að sjá um allan rekstur og framleiðslu.


25.10.04 Smári Kristinsson smari@raforninn.is       


 


         

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *