Fyrir skömmu sagði Minna frænka (www.auntminnie.com) frá einfaldri reiknivél til að meta öryggi á segulómstofum. Reiknivélin er örlítið svipuð þeim óteljandi persónuleikaprófum sem hægt er að taka á netinu.
Sagt er frá “The MRI Suite Safety Calculator” hjá Minnu frænku 2. febrúar síðastliðinn, í grein eftir Tobias Gilk.
(Þið munið að það þarf notandanafn og lykilorð hjá Minnu frænku en það kostar ekki neitt og mjög einfalt er að nálgast það).
Greinarhöfundur segir markmiðið vera að stjórnendur geti metið öryggisráðstafanir á sinni MR stofu og fundið leiðir til að auka öryggi sjúklinga og starfsfólks. Þetta efni á engu að síður erindi til alls myndgreiningarfólks, ekki aðeins stjórnenda.
Gilk birti greinina fyrst á síðunni mriplanning.com og þar er margt fleira áhugavert að finna.
Öryggismál sjúklinga hafa verið ofarlega á baugi undanfarið, og er það vel. Svona sáraeinföld yfirferð þar sem helstu öryggisatriði á segulómstofu eru áréttuð getur virkað ótrúlega vel til að vekja myndgreiningarfólk til umhugsunar, bæði um ástand öryggismála á sínum vinnustað og ekki síður hvað starfsmaðurinn sjálfur veit um öryggismálin á MR stofunni. Það er hættulega auðvelt að vinna bara vinnuna sína og treysta því að einhver annar sjái um að sjúklingarnir og maður sjálfur njóti öryggis. Allt sem vekur okkur til umhugsunar er af hinu góða!
05.03.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is