Rafræn skilríki

Ótal orð og númer
Ég fékk auðkennislykil frá bankanum mínum fyrir nokkru… og svo er náttúrulega lykilnúmer á kredit- og debetkortunum, eitt á kortinu sem ég nota til að fá eldsneytið örlítið minna dýrt, slatti af notendanöfnum og lykilorðum inn á ýmsar vefsíður tengdar myndgreiningu, líka til að fá upplýsingar um heimaverkefni og fleira frá skóla barnanna minna, lykilnúmer þarf ég til að fá aðgang að líkamsræktarstöðinni, svo ekki sé minnst á það sem þarf til að fá og halda aðgangi að hinum ýmsu kerfum sem halda utan um bókanir og rannsóknir sjúklinga á vinnustaðnum mínum og verkbeiðnir þegar eitthvað bilar, nú og enn eitt par af orðum þarf ég að muna til að geta sett efni inn á þessa vefsíðu.
Sennilega eru það enn fleiri orð og talnaraðir en þetta sem ég þarf að muna, ég bara man ekki eftir þeim í svipinn!

Tækniundur á sýningu
Í síðustu viku var haldin í Fífunni sýningin “Tækni og vit”. Um eitt hundrað sýnendur voru þar með bása og hægt var að skoða næstum jafn mörg tækniundur sem sumum voru gerð skil í sjónvarpsfréttum RÚV laugardaginn 10. mars. UT-dagurinn var haldinn í samhengi við sýninguna og UT-blaðið gefið út.

Rafræn skilríki
Eitt af stærstu málum UT-dagsins voru rafræn skilríki sem eiga að veita öruggan aðgang að ýmiskonar þjónustu á vefnum. Þau eru að því leyti frábrugðin auðkennislyklunum að hægt er að fara með þau á milli kerfa, þau virka t.d. jafnt í bönkum, hjá skattstjóra og neytendastofu.
Þetta hljómar afskaplega vel í mínum eyrum sem möguleiki á að fækka því sem ég þarf að muna. Ég hef ekki aflað mér nægilegrar þekkingar á sviði persónuverndar til að meta óæskileg áhrif þess að tengja saman sem mest af upplýsingum um hvern einstakling en það hljómar hinsvegar ekki vel í mínum eyrum að starfsmenn Frumherja geti séð skýrslur frá kvensjúkdómalækninum og tannlæknirinn launaseðilinn minn!

Örflögu í alla
Ég hef slegið því fram í hálfkæringi að best væri að hver og einn hefði í sér örflögu sem hægt væri að skanna til að fá aðgang að öllu mögulegu. Í myndgreiningunni, til dæmis, þyrfti starfsmaður einungis að bera skanna að sjúklingnum og þar með mundu birtast eldri myndir, svör og allar aðrar nauðsynlegar upplýsingar. Örflaga starfsmannsins veitti honum síðan aðgang að RIS og PACS og öllum þeim dásamlegu kerfum sem við myndgreiningarfólk höfum til að leika okkur að í vinnunnni.
Í líkamsræktarstöðvum væru skannar í dyrunum og hver og einn væri með skanna við heimatölvuna til að komast í heimabanka, á hinar og þessar vefsíður og panta sér flugfar eða bílaleigubíl, svo eitthvað sé nefnt. Að sjálfsögðu væru svo skannar í verslunum þannig að enginn þyrfti að eiga debet- eða kreditkort, lögreglan væri með skanna til að athuga ökuréttindi og svona væri hægt að telja lengi áfram.

Hljómar þetta í stíl við Brave New World? Nú eða Ninteen Eighty Four? Eða hljómar þetta bara einfalt og þægilegt?

Það er gaman að velta þessum málum fyrir sér. Hvaða möguleika höfum við varðandi aðgang að hinu og þessu? Hverjir eru kostirnir og hverjir eru gallarnir?

12.03.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *