Raförninn 20 ára

 
Það var ánægjulegt hversu margir heimsóttu okkur á 20 ára afmælisdaginn, eða um 150 manns. Við Rafernir fengum margar góðar gjafir og góðar óskir, menn voru kátir og góðvild skein úr hverju andliti.

Hvers er frekar hægt að óska sér á afmælisdegi?

Eins og ég sagði í ávarpi á afmælisdaginn, þá voru það Ásmundur Brekkan, þá yfirlæknir röntgendeilar BSP, og Jóhannes Pálmason, forstjóri BSP, sem gáfu mér aðgöngumiðann að myndgreiningartækni.

Samstarf okkar tæknimanna við myndgreiningarfólk hefur ætíð verið einstaklega gefandi, hvort sem um er að ræða yfirlækna, röntgensérfræðinga, geislafræðinga eða aðstoðarfólk hafa allir verið ótrúlega áhugasamir um að deila sinni þekkingu með okkur. Þegar ég kom inn í greinina fyrir aldarfjórðungi, reynslulaus maður nánast beint úr skóla, var mér strax tekið sem jafningja og byrjað að hjálpa mér við að berja í brestina. Það sama hefur ætið gilt um alla okkar starfsmenn, þeim hefur ætíð verið vel tekið og þeir studdir til frekari þroska. 
Ég hef notið þeirrar gæfu að þekkja nokkra öfluga erlenda vísindamenn í myndgreiningartækni. Þetta hefur veitt mér dýrmætan aðgang að sérþekkingu sem hefur nýst vel í starfi og skapað mér og Raferninum nauðsynlegar viðmiðanir.

Annar hópur sem hefur reynst okkur vel eru umboðs menn tækja og búnaðar. Þeir hafa sinnt sölu á myndgreiningarbúnaði af mikilli fagmennsku yfirleitt með atbeina æðstu manna fyrirtækjanna sem frekar hafa horft til langtímahagsmuna en stundarhagnaðar varðandi öll samskipti við myndgreingarmarkaðinn.

Á síðustu 25 til 30 árum hafa orðið ótrúlega tækniframfarir í myndgreiningu. Þær hófust með tölvusneiðmyndatækjunum sem hér voru tekin í notkun uppúr 1980 en síðan hafa bylgjur nýsköpunar í myndgreiningartækni gengið yfir okkur án afláts.
Núverandi tæknimenn Rafarnarins settu upp og þjónustuðu fyrsta tölvusneiðmyndatæki landsins, fyrsta spiral tölvusneiðmyndatæki landsins, fyrsta örtölvustýrða röntgentæki landsins, fyrstu tölvustýrðu gammamyndavélina og fyrsta PACS kerfinu, svo nokkuð sé nefnt. Við höfum upplifað hraðar framfarir frá upphafi okkar starfs í myndgreiningu og notið þess að vera boðberar breytinga og framfara.

Við höfum frá upphafi lagt mikla áherslu á hönnun starfsumhverfis. Fyrir 25 árum voru flestar röntgendeildir mjög hólfaðar og vinna fólks miðaðist gjarna við eina stofu hvern dag, jafnvel óháð verkefnum. Við höfum unnið með okkar viðskiptavinum að þróun opins starfsumhverfis sem hámarkar samstarfsmöguleika og þar með afköst og gæði, því tveir er maðurinn meira en hann sjálfur. Ég held að okkar sameiginlegu lausnir á þessu sviði geti vel átt erindi á markaði utan Íslands.

Raförninn hefur ætíð átt því láni að fagna að hafa gott starfsfólk. Starfsmenn sem alltaf eru tilbúnir að bæta við sig verkefnum og leysa hverja þraut með brosi. Fyrirtækið reynir að koma til móts við starfsmen með frjálsræði af ýmsu tagi þannig að hver geti mótað sinn dag. Við leggjum áherslu á að hægt sé að sinna sem flestum verkefnum frá mörgum stöðum, m.a. frá heimilum manna. Lögð er áhersla á samþættingu vinnu og heimilislífs sem er mikil nauðsyn í nútímasamfélagi.

Raförninn hefur alla tíð átt góða og skilvísa viðskiptavini. Aðeins er til heimild um einn reikning á tuttugu árum sem ekki tókst að innheimta.

Þótt íslenski markaðurinn hafi vaxið mikið og muni halda því áfram er hann of smár fyrir Raförninn ekki síst á meðan ríkið rekur umtalsverða hliðstæða starfsemi.
Við höfum reynt að bjóða ráðgjafaþjónustu erlendis og þannig sinnt verkefnum í Kína, Bandaríkjunum og á Dominica í Karabíahafinu. Við eigum í viðræðum um frekari erlend verkefni en höfum ekki náð að landa samningi.
Einn af nýju vaxtarbroddunum hjá Raferninum í dag er þjónusta við vísindaumhverfi sem snýst um hugbúnaðar og tækjaþróun fyrir rannsóknir. Við höfum kynnt þessa þjónustu erlendis bæði hjá þeim sem starfa að læknisfræði og vopnaleit. Við höfum fengið jákvæð viðbrögð en enga samninga ennþá.

Vesturlönd verja verulegum fjármunum í þróunaraðstoð, bæði opinberum fjármunum og fjármunum einstaklinga og fyrirtækja. Þetta gefur fyrirtækjum í okkar heimshluta aðgang að verkefnum, m.a. í heilbrigðisgeiranum sem er undirstöðugeiri raunverulegra framfara í mannlegu samfélagi. Hér gætu íslensk heilbrigðisfyrirtæki tekið sig saman, stofnað fyrirtæki og tekið að sér verkefni.

Íslensk fyrirtæki í rannsóknum og vísindum hafa á síðustu árum hafið öfluga útrás sem leitt hefur til mikilla framfara og breyttra viðhorfa.
Við sem höfum í tvo áratugi tekið þátt í stórkostlegri uppbyggingu með okkar viðskiptavinum og skynjum nú glöggt að innanlandsmarkaðurinn er orðinn of lítill fyrir okkur öll. Þegar maður sér þennan öfluga hóp myndgreiningarfólks saman kominn hugsar maður: Það er kominn tími á útrás!

Með kveðju til samferðafólks síðustu 20 árin.
Þökk fyrir okkur,
Smári.
  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *