Rafmengun

Ríkissjónvarpið sýndi fyrir skömmu þátt með rafmengun í brennidepli og grein í Morgunblaðinu 25.02.04 fjallaði um svipað efni. Auðvelt var að skilja sem svo að vinna þar sem rafmagn er mikið notað gæti verið verulega skaðleg heilsunni. Ætti myndgreiningarfólk ekki að vera alveg heilsulaust?

Mikil umræða bæði hér- og erlendis
Margir kannast við Brynjólf Snorrason sem kom fram í þætti RÚV og hefur verið áberandi í flokki þeirra sem telja rafsegulsvið og/eða rafsvið geta haft óæskileg áhrif á heilsufar og líðan. Auk hans hefur Valdemar Gísli Valdemarsson, rafeindavirkjameistari, verið óþreytandi við að vekja athygli á vísbendingum um slíkt. Báðir hafa boðið upp á mælingar, ráðgjöf og aðstoð við endurbætur. Í grein eftir Valdemar Gísla má finna góðar útskýringar og skilgreiningu á rafmengun.

Engin könnun hefur, að því er ritstjóranum er kunnugt um, verið gerð á líðan myndgreiningarfólks í vinnu en einkenni rafsegulóþols virðast geta verið býsna alvarleg og ættu ekki að leyna sér í jafn fámennu fagi. Samkvæmt tímariti rafsegulóþolssjúklinga í Svíþjóð, Föreningen för El- och Bildskärmsskadade, eru einkennin: Sviði í húð, roðablettir, stingir í hörundi, þurrkur í húð, hálsi og munni, sprungur á vörum, pirringur í augum og þorsti. Jafnvel er lýst hjartsláttartruflunum, truflun á öndun, mikilli þreytutilfinningu, höfuðverk, liðaverkjum, einbeitingarskorti og minnkuðu skammtímaminni.

Mikið er til af erlendum vefsíðum sem fjalla um svipað efni og, eins og títt er þegar leitað er upplýsinga á hinum stóra veraldarvef, eru þær afskaplega misvel unnar og mis trúverðugar. Því miður er gróðahyggjan mjög áberandi og víða boðið upp á vafasamar lausnir, svo sem að setja upp einhverskonar “afrafmögnunarbúnað” inni í húsum eða í jörð rétt fyrir utan þau. Slíkt hefur verið í boði hérlendis líka en í öllu efni sem ritstjóranum fannst líta trúverðuglega út er því hafnað að þessi búnaður geti gert gagn.

Sitt sýnist hverjum… og þó
Valdemar Gísli segir á heimasíðu sinni:
“Það er ljóst að umræðan um rafmengun tekur á sig hinar ólíklegustu myndir og eru það einkum tveir hópar sem deila harðast. Annarsvegar eru áhugamenn um rafmengun (í þeim hóp eru m.a. sjúklingar sem telja sig fórnardýr rafmengunar í einhverri mynd, ýmsir sérfræðingar og vísindamenn) Hinsvegar eru vantrúaðir læknar og vísindamenn, hagsmunahópar eins og t.d. raforkuframleiðendur, dreifingaraðilar raforku, og seljendur raforku og framleiðendur ýmissa rafmagnstækja.”
Ef vel er að gáð kemur þó í ljós að þessir aðilar eru hreint ekki alveg á öndverðum meiði. Valdemar Gísli segir sjálfur:
“… hvort sem rafmengun er hættuleg eða ekki þá eru vísbendingar um neikvæð áhrif hennar það margar að ekki er viturlegt að hunsa þær. Meðvitund um slíkar hættur gera einstaklinga færa um að gera einfaldar varúðarráðstafanir sem ekkert kosta og hafa ber í huga að allur er varinn góður.”
Þrátt fyrir hvassyrtari fullyrðingar annarsstaðar á heimasíðu sinni gætir hann þess að taka ekki allt of djúpt í árinni og er ekki að hvetja fólk til að gerbreyta umhverfi sínu.

Þegar litið er á svör Viðars Guðmundssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar, prófessora, við spurningum á Vísindavef HÍ er ekki fjarri því að hið sama skíni í gegn þó áherslan sé á öðrum nótum:
“Rafsegulsvið sem raunvísindamenn eða verkfræðingar mæla í venjulegum húsum eru þó afar veik og allsendis óljóst frá sjónarmiði vísinda að þau hafi nein umtalsverð áhrif á fólk eða dýr, til að mynda ef borið er saman við ýmis önnur óæskileg áhrif sem við verðum fyrir frá umhverfi okkar nú á dögum og eru óumdeild.”
Þeir draga áhrifin í efa en útiloka ekkert.

Á vef Landsvirkjunar er tilvist rafmengunar ekki afskrifuð sem bull, eins og t.d. Valdemar Gísli segir raforkufyrirtæki gera, heldur bent á að ef reglugerðum sé fylgt ætti að vera komið í veg fyrir slíka mengun:
“Ef fylgt er ákvæðum um spennuvarnir í Raglugerð um raforkuvirki, eru hverfandi líkur á að áhrifa rafsegulsviðs gæti frá föstum lögnum í húsum. Sérstaklega er bent á ákvæði greina 203 – 211 og 239.”

Hópurinn Orkulausnir, sem Brynjólfur Snorrason veitir forstöðu, tekur í nákvæmlega sama streng:
“Slælegur frágangur rafmagns, s.s. ótraust jarðskaut, ófullnægjandi jarðbinding, léleg spennujöfnun og lélegar lagnir og tengingar er að grunni til það sem skapar kjörskilyrði fyrir rafmengun.”
Annarsstaðar á heimasíðu Orkulausna segir:
“Reglugerð um raforkuvirki er okkar leiðarvísir en þar er kveðið skýrt á um þá þætti sem orkulausnir hafa bent á að þarfnist skoðunar.”
Orkulausnir vitna í sömu reglugerð og Landsvirkjun, undir efnisflokknum „Leikreglur„.

Skipta lagnirnar meira máli en tækin?
Í Morgunblaðinu sl miðvikudag, 25.02.04, birtist grein þar sem fullyrt er að hárþurrkur og önnur rafmagnstæki, sérstaklega þau sem notuð eru nálægt líkamanum, geti haft slæm áhrif á heilsu manna. Ættu þá ekki allar þær tölvur og tæki sem myndgreiningarfólk vinnur við að valda allskyns kvillum?
Mjög líklegt er að þegar gengið er frá raflögnum á myndgreiningareiningum sé vel hugað að öllu öryggi og þar getur verið komin ein af ástæðum þess að rafmengun virðist ekki vera vandamál á þessum stöðum. Þegar skoðuð eru skrif þeirra sem trúa sterkt á rafmengun og heilsuspillandi áhrif hennar má draga þá ályktun að samspil illa frágenginna raflagna og staðsetningar rafmagnstækja þurfi til að tækin valdi rafmengun. Ef svo er þarf líklega ekki að hafa áhyggjur af öllum þeim tækjum sem myndgreiningarfólk vinnur innan um, svo fremi að raflagnir að húsunum og í þeim séu vel frá gengnar.

Annað atriði sem vakti athygli ritstjórans var að á fleiri en einum stað var minnst á að sérlega mikil rafmengun myndaðist þar sem notaður væri mikill straumur en lág spenna, til dæmis við halogenlýsingu. Í framhaldi af því má álykta að röntgentæki, sem nota háa spennu en lítinn straum, valdi síður rafmengun. Jafnvel má fara út í vangaveltur um að þau dragi úr hugsanlegri rafmengun frá öðrum tækjum, t.d. tölvum… en nú er ritstjórinn kominn út í hreinan spuna.
Hvað þetta efni varðar, eins og svo margt annað, er erfitt að fullyrða nokkuð um rétt og rangt. Sumir vitna í rannsóknir sem eiga að sanna tilvist rafmengunar og heilsuspillandi áhrif hennar en aðrir í efni sem á að sanna hið gagnstæða, að öll þessi umræða sé tómt bull.

Gaman og alvara
Allskyns vangaveltur eru alltaf skemmtilegar og markmið þessarar greinar er einmitt að ýta undir umræður, og jafvel rökræður, sem hver og einn ræður hversu mikil alvara er í. Til gamans má geta þess að á netflakki sem fylgir heimildaleit í svona grein rekst maður á eitt og annað. Joseph nokkur Mercola, sem hefur doktorsnafnbót og heldur úti býsna flottri síðu, ráðleggur fólki t.d. að nota eingöngu gleraugnaumgjarðir úr plasti og gæta þess að enginn málmur sé í þeim því annars leiði þær skaðlegar rafsegulbylgjur beint inn í höfuð þess sem gleraugun ber. Við erum æði mörg í myndgreiningunni sem notum gleraugu, engin furða þó skammtímaminnið nái stundum ekki á milli veggja!
Landsvirkjun gefur upp segulsvið nálægt nokkrum algengum hlutum og þar má sjá að í 10 metra fjarlægð frá háspennulínu er það 1 – 10 microTesla en í þriggja sentimetra fjarlægð frá rafmagnsrakvél 15 – 1500 microTesla. Strákar… nota gömlu, góðu sköfurnar!
Samkvæmt því sem sagt er á heimasíðu Orkulausna er vín næmt fyrir rafsegulsviðsáhrifum og geymist illa þar sem rafmengun er fyrir hendi. Þeir ráðleggja neytendum bæði að athuga hvort munur sé á vínum sömu tegundar eftir því í hvaða vínbúð flaskan er keypt og einnig að gæta vel að hvar vínið er geymt heimafyrir. Vínáhugamönnum í myndgreiningargeiranum er hér með bent á þetta! 
Fleira skondið mætti telja upp t.d. söguna af hjónunum sem létu “afrafmagna” húsið sitt vegna ýmissa kvilla sem hrjáðu þau. Heilsan batnaði en þau kvörtuðu yfir að öll spenna væri líka horfin úr hjónabandinu, þau væru hætt að geta rifist almennilega!

Myndgreiningarfólk! Við erum mögnuð… njótum spennunnar! 
01.03.04 Edda Aradóttir.
         

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *