Powerpoint

Margt myndgreiningarfólk sinnir kennslu og/eða heldur fyrirlestra á smáum sem stórum ráðstefnum. Powerpoint glærusýningar eru alls ráðandi í slíkum tilvikum en þeim sem óvanir eru forritinu vex stundum í augum að búa þær til.

Á ferðum mínum á RSNA bæði 2003 og 2004 hef ég séð boðið upp á kennslu í meðferð Powerpoint forritsins. Bandaríkjamenn virðast ekki jafn langt komnir í glærumenningunni og Íslendingar og þeir sem halda þessi námskeið byrja þau á að sannfæra áheyrendur um að myndvarpinn sé úrelt tól.

Hérlendis notar næstum hver einasti maður Powerpoint en þó er enn til fólk sem ekki hefur kynnst forritinu svo vel sé. Einmitt það hversu útbreidd notkunin er gerir þessu fólki erfitt um vik því það veigrar sér við að leita eftir kennslu, af ótta við að opinbera fáfræði sína um eitthvað sem “allir aðrir kunna”.

Eins og með svo margt annað er auðvelt að finna sér kennsluefni á netinu um Powerpoint. Bæði efni sem hentar byrjendum og einnig fyrir þá sem hafa notað forritið með góðum árangri en langar að auka við þekkinguna.

Efni frá RSNA er aðgengilegt á netinu, bæði byrjendakennsla (Basic) og efni fyrir lengra komna (Advanced). Þetta efni er, eins og gefur að skilja, á ensku og í “Advanced” hlutanum þarf að sækja stórt pdf-skjal, sem ekki geta allir nýtt sér. “Basic” hlutinn er líka skemmtilegri, jaðrar við að vera hallærislegur!

Af íslensku kennsluefni má nefna mjög gott efni sem er aðgengilegt á vef Háskóla Íslands og einnig ofureinfaldar leiðbeiningar á vef Kennaraháskólans.
Þórunn Óskarsdóttir hefur tekið saman bæði grunnefni um Powerpoint og einnig framhaldsefni sem vert er að skoða, ekki síður fyrir þá sem eru nokkuð vanir notkun forritsins. 
Á vef Landspítala – Háskólasjúkrahúss er til dæmis hægt að nálgast kennsluefni eftir Sigríði Sigurðardóttur (pdf-skjal).
Þeir sem vilja viðameira námskeið og eru tilbúnir að borga fyrir það geta til dæmis litið á tolvunam.is

18.04.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is      

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *