Pantanakerfi með ákvarðanastuðningi.

 
Kveikjan að þessum skrifum er grein í veftímaritinu Diagnostic Imaging, sem Rebekha Moan aðstoðarritstjóri skrifar. Þar fjallar hún um rafræn pantanakerfi með ákvarðanastuðningi (decision support) sem geta sparað vinnu og peninga, ásamt því að tryggja að sjúklingar fái alltaf viðeigandi rannsókn. 

Stuðningur við útfyllingu röntgenbeiðnar.
Í rafrænu pantanakerfi með innbyggðum ákvarðanastuðningi fær læknir sem ætlar að óska eftir rannsókn á myndgreiningardeild sjálfkrafa upp ýmsar upplýsingar og getur ekki gengið frá beiðninni nema að gefa á móti ákveðnar upplýsingar, sem viðkomandi deild hefur skilgreint. Auk þess sem nú er talið sjálfsagt, t.d. nafn og kennitala, sjúkrasaga og spurning sem tilvísandi læknir vill fá svarað, má hugsa sér ýmislegt fleira gagnlegt.
Læknirinn hefur alltaf möguleika á að panta rannsóknina þrátt fyrir allar viðvaranir, því í ákveðnum tilfellum getur það verið rétta leiðin, en hann verður þá að gera stutta grein fyrir ástæðum sínum. 

Nauðsynlegar upplýsingar fyrir skuggaefnisgjöf.
Það sem mér finnst liggja á að setja inn í öll pantanakerfi er að ekki sé hægt að senda beiðni um rannsókn sem krefst skuggaefnisgjafar án þess að gefa nauðsynlegar upplýsingar, s.s. se-kreatinin gildi og þyngd sjúklings, hvort hann notar lyf sem eru varasöm við skuggaefnisgjöf og hvort hann hefur fengið skuggaefnisviðbrögð.
Í pöntunarferlinu mundi læknirinn einnig fá upp glugga með áminningum, t.d. að sjúklingur þurfi að vera vel vökvaður, að ráðlegt geti verið að setja deyfiplástur á börn fyrir uppsetningu á æðalegg og að hann beri ábyrgð á að láta mæla se-kreatin gildi eftir rannsókn hjá sjúklingum sem taka metformin (Glucophage). 

Ekki ákvarðanastuðningur hérlendis.
Rafræn pantanakerfi eru víða í notkun en ég veit ekki til þess að ákvarðanastuðningur sé innbyggður í neitt slíkt kerfi hérlendis. Myndgreiningarfólk er beðið að leiðrétta mig hið snarasta ef einhver veit betur (sími 860 3748 eða ea@ro.is).
Klínískar leiðbeiningar, sem aðgengilegar eru á vef Landlæknis, eru dæmi um kerfi til ákvarðanastuðnings en tilvísandi læknum er algerlega í sjálfsvald sett hvort þeir kynna sér þær. Einnig eru klínísku leiðbeiningarnar fyrir myndgreiningu farnar að þarfnast uppfærslu og er það mál í höndum Félags íslenskra röntgenlækna.
Ef efni þessara leiðbeininga væri uppfært reglulega og grunnurinn tengdur pantanakerfum myndgreiningardeilda væri þar kominn viss ákvarðanastuðningur fyrir tilvísandi lækna. 

Sömu forsendur – sama afgreiðsla.
Hlutverk röntgenlækna er meðal annars að sjá til þess að sjúklingar fái réttar rannsóknir og á sumum myndgreiningardeildum tíðkast að þeir yfirfari allar beiðnir um flóknari rannsóknir, t.d. tölvusneiðmyndatöku og segulómun, áður en sjúklingum er gefinn tími. Einnig er skylda geislafræðinga að framkvæma ekki umbeðna rannsókn ef beiðnin er ekki vel ígrunduð, til dæmis ef mjög stutt er síðan viðkomandi fór í samskonar rannsókn af sömu ástæðu.
Til að koma ákvarðanastuðningi inn í pöntunarkerfi þurfa stjórnendur myndgreiningardeilda að skilgreina fyrir deildina í heild viðmið sem ákvarða t.d. hvort rannsókn telst nauðsynleg og innan hvaða tíma þarf að framkvæma hana. Þar með er tryggt að allar beiðnir sem byggja á sömu forsendum fái samskonar afgreiðslu en eins og ferlið er nú getur afgreiðslan verið mismunandi eftir því í höndum hvaða læknis/geislafræðings beiðnin lendir.
Æskilegast væri að skilgreina viðmið fyrir landið í heild, t.d. undir forystu Landlæknis, svo myndgreiningardeildir gætu ekki náð til sín fleiri eða þægilegri verkefnum með því að hafa önnur viðmið en keppinautarnir. 

Gagnsætt kerfi.
Stór kostur er hversu gagnsætt pöntunarkerfi með ákvarðanastuðningi er, tilvísandi læknir sér á stundinni hvers vegna beiðni hans er ekki samþykkt umyrðalaust og getur betrumbætt hana jafnóðum. Í núverandi kerfi er beiðnum sem koma inn á myndgreiningardeildir oft mjög ábótavant og það kostar starfsfólk deildarinnar tíma og fyrirhöfn að nálgast þær upplýsingar sem vantar.
Eins er fljótlegt fyrir starfsfólk myndgreiningardeildar að sjá hvort tilvísandi læknir hefur valið að horfa framhjá athugasemdum. 

Geislaálag, endurtekningar og greiðslur.
Þróað kerfi af þessari tegund, eins og tekið er sem dæmi í Diagnostic Imaging, keyrir upplýsingarnar frá lækninum saman við gagnabanka og fær út hversu vel umbeðin rannsókn hentar. Ef ákveðinn fjöldi atriða í upplýsingum læknisins passar við það sem gagnabankinn inniheldur af ábendingum fyrir þessari tegund rannsóknar fer pöntunin athugasemdalaust í gegn. Hinsvegar ef samræmið fer undir skilgreindan fjölda fær læknirinn glugga upp á skjáinn með athugasemd sem bendir honum á að íhuga aðra tegund rannsóknar.
Pantanakerfið hefur tengingu við kerfi sem heldur utanum geislaálag hvers sjúklings og varar við ef hætta er á að það verði hærra en skilgreind takmörk.
Kerfið varar einnig við ef samskonar rannsókn hefur verið framkvæmd á viðkomandi sjúklingi innan ákveðins tíma, til að forðast óþarfar endurtekningar.
Ýmsir möguleikar í sambandi við greiðslu og tryggingar eru einnig í kerfinu. 

Eitt skref í einu.
Hægt er að koma ákvarðanastuðningi á í skrefum, til dæmis byrja á atriðum sem tryggja nauðsynlegar upplýsingar fyrir skuggaefnisgjöf og bæta síðan við eftir því hvað talið er mikilvægast. 
Enginn vafi er á að viðbót sem þessi mundi bæta þjónustu, spara fé og létta vinnu, bæði á myndgreiningardeildum og hjá tilvísandi læknum.

11.01.10 Edda Aradóttir ea@ro.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *