PACS kennsla

Væri ekki frábært að geta látið PACS-ið kenna á sig sjálft? Væntanlega kannast margt myndgreiningarfólk við að læknar sem hafa aðgang að stafrænum myndum og svörum ná ekki fullri færni á það notendaviðmót sem þeir þurfa að nota. Afleiðingin er oft pirringur og jafnvel árekstrar milli þeirra og röntgenlæknanna.

Kennsluefni fellt inn í PACS
Á háskólasjúkrahúsinu í Ghent í Hollandi hefur Pieter Devolder, röntgenlæknir, leitt vinnu hóps sem felldi kennsluefni fyrir notendur inn í PACS umhverfið. Þetta eru alls 126 glærur þar sem fjallað er um alla möguleika kerfisins, aðgengilegar með því að smella á spurningarmerkis-tákn. Notandinn velur hversu djúpt í efnið hann vill kafa, hægt er að fá grunnupplýsingar með því að nota aðeins fáar af glærunum.

Hvorki tími fyrir hefðbundið nám né kennslu
Pieter og félagar brugðu á þetta ráð þegar ljóst var að læknar, aðrir en röntgenlæknar, mundu ekki læra á kerfið með því að sækja fyrirlestra og notendaþjálfun (hands-on). Ástæðan var einfaldlega tímaskortur, bæði hjá læknunum og PACS þjálfurum.
Á háskólasjúkrahúsinu í Ghent hafa allir læknar aðgang að PACS kerfinu og geta notað tækifærið þegar þeir hafa tíma til að ná hæfni í meðferð þess. Kennsluefnið er byggt skv. Cognitive load theory, til að námið valdi sem minnstu viðbótar álagi á læknana.

Grein um þessa lausn birtist í auka vefútgáfu Journal of Digital Imaging, í nóvember síðastliðnum. Hugmyndin er góð og íslenskum tölvusnillingum yrði áreiðanlega ekki skotaskuld úr því að fella kennsluefni á móðurmálinu inn í PACS kerfi. Samvinna þeirra og einhverra sem eru færir að nota PACS kerfi, eins eða fleiri fyrir hvern framleiðanda (Agfa, Kodak o.s.fr), gæti skilað efni sem sparaði bæði mikla vinnu og mikinn pirring.

Þetta leiðir hugann að umfjöllun dr. Phillip Boiselle á RSNA 2007. Hann stjórnaði rannsókn á álagseinkennum PACS notenda og komst að þeirri niðurstöðu að góð kennsla sem skilaði færni í notkun kerfisins minnkaði álagseinkenni um heil 80%!

14.01.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *