Í nýjasta fréttabréfi Geislavarna ríksins er sagt frá nýju vefsetri sem opnað hefur verið á vegum geislavarnastofnana í Evrópu og fleiri hagsmunaaðila. Þar er meiningin að safna saman upplýsingum um allskyns óhöpp, slys og önnur óvænt atvik sem valda óþörfu geislaálagi á fólk. Þegar er kominn inn nokkur fjöldi af frásögnum og verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu.
Fáránlega fyrirsjáanleg atvik
Það er alltaf jafn sláandi hversu fáránlega fyrirsjáanleg atvik geta orðið í tengslum við jónandi geislun. Atvik sem hefði verið sáraeinfalt að koma í veg fyrir og ég er viss um að fáir, ef nokkrir, geta skilið hvers vegna EKKI var komið í veg fyrir þau.
Sem dæmi má nefna frásögn (report) á OTHEA um ræstingastarfsmann sem varð fyrir geislun en vegna þess að hann var að störfum inni á CT stofu á meðan verið var að framkvæma daglega kvörðun á tækinu. Ekki var hægt að læsa dyrunum að stofunni og ekkert sérstakt viðvörunarljós eða -hljóð gaf til kynna þegar kveikt var á röntgengeislanum. Hafa ber í huga að þó myndgreiningarfólk geti ráðið það af ljósum á tækinu og hljóðinu í því hvort geislinn er á eða ekki þá er engan veginn hægt að ætlast til að “venjulegt” fólk átti sig á því.
Öryggisbúnaður á tækjum
Öryggis- og viðvörunarbúnaður á tækjum er nokkuð sem við ættum öll að kynna okkur með gagnrýnum huga. Ein frásögnin á OTHEA er af geislafræðingi sem var búinn að stilla upp skyggnitæki fyrir myndatöku með láréttri geislastefnu (horizontal mynd) og var síðan góða stund að koma rúmliggjandi sjúklingi fyrir á borðinu. Skyggnipedalinn á tækinu hafði staðið á sér þannig að skyggningin var á allan tímann sem geislafræðingurinn var að koma sjúklingnum fyrir. Líkt og í dæminu um ræstingastarfsmanninn og CT-ið sást ekki viðvörunarljós inni á stofunni, né heldur heyrðist viðvörunarhljóð, þó geislinn væri á.
Í lok hverrar frásagnar er kaflinn “Lessons to be learned”. Í þessu tilviki er þar m.a. bent á að aldrei eigi að skyggna nema mjög skamman tíma í einu og því væri æskilegt ef tækin væru útbúin þannig að skyggningin rofnaði þegar geislinn væri búinn að vera á í ákveðinn tíma samfellt.
Verum gagnrýnin á eigið vinnuumhverfi
Frásagnirnar á OTHA eru eitt af því sem getur hjálpað okkur að vera vakandi og gagnrýnin í vinnunni þannig að við komum auga á slysagildrur í okkar eigin umhverfi áður en einhver fellur í þær.
Til gamans
Ég get ekki stillt mig um að benda að endingu á kaflann “Lost and orphan radioactive sources” Þó það sé að sjálfsögðu hálavarlegt mál þegar geislavirk efni finnast þar sem þau eiga ekki heima þá get ég ekki annað en brosað að tilhugsuninni um villuráfandi og munaðarlausar geislalindir 🙂
12.10.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is